Allur ís­lenski hópurinn sem er nú staddur úti í Rotter­dam fyrir Euro­vision er nú kominn í sótt­kví eftir að CO­VID-19 smit greindist hjá einum í hópnum. Rúnar Freyr Gísla­son er nú í sótt­kví með hópnum og bíða þau frekari fregna en Ís­land á að keppa í seinni undan­úr­slitariðlinum næst­komandi fimmtu­dag.

Að sögn Rúnars munu þau ekki gefa það út hver það er sem greindist með veiruna í hópnum en stað­festir þó að ein­stak­lingurinn sé ekki í at­riði Daða og Gagna­magnsins á sviði. „Við erum öll að fara í próf núna á eftir og sjáum hvað kemur út úr því, og vonum að það séu engir fleiri í hópnum með þetta.“

Hann tekur fram að smitið verði ekki til þess að Ís­land dragi sig úr keppni. „Aðal­at­riðið er að við verðum með í Euro­vision. Það er búið að taka upp at­riðið og það verður á keppninni sjálfri en auð­vitað viljum við vera „live“ á sviðinu eins og hinir,“ segir Rúnar en EBU er nú að skoða næstu skref.

Ekki í þeirra höndum

Að­spurður um hvort að Daði og Gagna­magnið muni stíga á svið á fimmtu­dag ef öll próf reynast nei­kvæð segir Rúnar að það sé ó­ljóst. „Ég vona það, en eins og ég segi þá er það ekki í okkar höndum heldur þeirra á EBU og við bíðum bara spennt eftir því að heyra hvað þeir segja.“

„Við bara hlýðum því eins og við höfum hlýtt öllum reglum hingað til, við höfum farið ó­trú­lega var­lega og passað okkur mjög mikið en svona er þessi veira, hún getur smitast með alls konar hætti,“ segir Rúnar.

Ís­lenski hópurinn er ekki sá eini sem er í sótt­kví um þessar mundir en allur pólski hópurinn var sendur í sótt­kví í gær eftir að smit greindist hjá einum þar. Ekki hefur komið fram hvort fleiri úr þeirra hóp hafi greinst en niðurstöður úr prófum sem tekin voru í gær ættu að liggja fyrir bráðlega.

Uppfært 15:09:

Samband evrópskra sjónvarpsstöðva, EBU, hefur gefið það út að Malta og Rúmenía verði ekki á túrkísbláa dreglinum á opnunarhátíð Eurovision í dag en þeir sem eru í Eurovision-hópum Möltu og Rúmeníu dvelja á sama hóteli og meðlimir pólska og íslenska hópsins.