Sýningin Fullorðin var fyrst frumsýnd á Akureyri fyrir tveimur árum og gekk fyrir fullu húsi. Nú eru Árni Beinteinn Árnason, Birna Pétursdóttir og Vilhjálmur B. Bragason loksins komin í höfuðborgina til að skemmta borgarbúum. Þau hafa hreiðrað um sig í Þjóðleikhúskjallaranum, sem hefur sjaldan verið fegurri eftir laglegt viðhald.

Hver efast ekki reglulega um sitt eigið ágæti sem fullorðin manneskja? Eða efast hreinlega um að vera fullorðinn? Eða gerir sér grein fyrir því að fimmtugsaldurinn nálgast óðum? Engin handbók er til og það besta sem manneskjan getur gert er að fálma eftir einhverjum svörum. Gallinn er sá að daglegt amstur og félagslegar skyldur gefa ekki mikið tækifæri til sjálfsskoðunar. Uppþvottavélin, börnin, golfið og launavinnan krefjast athygli. Forgangsröðunin breytist eftir hag eða ástandi. Svo er það auðvitað skelfilegasta spurningin af þeim öllum: Hvað er í matinn?

Hópurinn vinnur lipurlega saman og allir leikararnir fá sín augnablik til að baða sig í sviðsljósinu.
Mynd/Auðunn Níelsson

Bráðfyndið og hnyttið

Árni, Birna og Vilhjálmur standa að handritinu ásamt því að standa á sviðinu til að skemmta leikhúsgestum. Handritið er stútfullt af hnyttnum og stundum bráðfyndnum athugasemdum, einnig haug af dillandi lögum. Yfirleitt eru atriðin í styttri kantinum en þau leika sér líka með lengri atriði, sem fara fyrir ofan garð og neðan. Þó hitta nokkrar persónur úr bekkjarpartíinu í Garðabæ beint í mark og íslenska fjölskyldudramað í sjávarþorpinu er lúmskt fyndið.

Hópurinn vinnur lipurlega saman og allir leikararnir fá sín augnablik til að baða sig í sviðsljósinu. Árni Beinteinn Árnason nýtur sín best í hlutverkum unga mannsins eða unglingsins, orkan hans er smitandi og söngröddin góð. Innkoma hans sem ævaforna söngkonan var líka kostuleg. Vilhjálmur B. Bragason, sem hefur gert garðinn frægan með Vandræðaskáldum, kemur einnig sterkur til leiks með einlægri framkomu. Eldri mennirnir, aularnir og lagasmíðar eru hans sérgrein. Þrátt fyrir fína frammistöðu þeirra tveggja er ein manneskja sem stendur upp úr.

Stórkostleg grínleikkona

Birna er í einu orði sagt stórkostleg, grínleikkona sem vex ásmegin með hverri sýningu. Hún býður áhorfendum upp á heila skrúðgöngu af mismunandi týpum sem við öll þekkjum og nokkrum glænýjum. Þrotaða ljóðaslammandi mamman sem er einu lasagne frá því að ganga í sjóinn, gamansami námskeiðahaldarinn sem heitir alltaf Sveinbjörg eða Svanhvít, Gerður gjaldkeri sem á sér draum um að vera uppistandari og svo mætti lengi telja. Þessar konur leikur Birna af mikilli innlifun, nákvæmni og holskeflu af húmor. Hverri persónu fylgir sérstök líkamsbeiting, augnaráð og rödd, svo fylgir skellihlátur áhorfenda.

Þrátt fyrir að vera upphaflega hugsuð fyrir Hof á Akureyri smellpassar Fullorðin inn í kjallara Þjóðleikhússins, eitt mest spennandi leikhúsrými Reykjavíkur. Allir hafa gott af því að horfa í spéspegilinn. Við erum stundum svo upptekin af því að þrauka daginn og gleymum okkur í grátbroslega hversdagsleikanum. Þá er gott að líta í eigin barm, síðan í augun á næstu manneskju, muna að enginn veit í raun hvað hann er að gera og hlæja síðan að öllu saman.

Niðurstaða: Fullorðin er hressandi áminning um að einlægni, einfaldleikinn og eitursnjall texti hittir alltaf í mark.

Fréttin hefur verið uppfærð.