Una Þorleifsdóttir leikstýrir Prinsessuleikunum eftir Nóbelsskáldið Elfriede Jelinek sem frumsýnt verður í Borgarleikhúsinu í dag, föstudag. Í verkinu túlka leikkonurnar Vala Kristín Eiríksdóttir, Birgitta Birgisdóttir og Sólveig Arnarsdóttir þrjár prinsessur úr ævintýrum og raunveruleikanum; Þyrnirós, Mjallhvíti og Jacqueline Kennedy.
„Í verkinu er Jelinek að takast á við og rannsaka þessa menningarlegu hugmynd um prinsessuna sem við getum sagt að gegnsýri samfélagið að einhverju leyti. Þessar hugmyndir sem prinsessan stendur fyrir eins og hreinleiki, fegurð, hlýðni, taka ekki pláss og gangast upp í einhverju hlutverki. Hún skrifar verkið í fimm þáttum en við veljum þrjá til að sviðsetja,“ segir Una.
Staða og ímynd prinsessunnar
Prinsessuleikarnir var upphaflega sett upp í Hamborg í Þýskalandi árið 2002 og inniheldur nokkrar aðrar prinsessur, þar á meðal Rósamundu og Díönu prinsessu. Jelinek blandar þannig prinsessum úr þjóðsögum og ævintýrum saman við raunverulegar konur úr vestrænni stjórnmálasögu.
„Hún er svolítið að rannsaka þeirra stöðu og þeirra ímynd. Þú getur hugsað það þannig að Mjallhvít og Þyrnirós standi fyrir ákveðnar hugmyndir um kvenleika og hugmyndir um ungar konur áður en þær giftast. Þeirra líf endar í raun með kossi á meðan líf Jackie Kennedy hefst með kossi og því að hún flytur í höllina með prinsinum. En svo deyr prinsinn og hvað gerist þá? Í sögum allra þessara kvenna er karlmaður sem skilgreinir tilvist þeirra,“ segir Una og bætir því við að hugmyndir um karlmennsku séu einnig teknar fyrir í verkinu.
Er eftirsóknarvert að vera prinsessa?
„Þetta er góð spurning af því að mörgu leyti eru stelpur og strákar alin upp við prinsa og prinsessur og maður yfirleitt skilgreinir sig og staðsetur með eða á móti, ég er ekki prinsessa eða ég er prinsessa. Ef þú hugsar um einhvern eins og til dæmis Kim Kardashian, er hún ekki prinsessa? Eða Britney sem í upphafi síns ferils er algjör prinsessa. Hún er hrein, falleg, óflekkuð, saklaus, kynferðisleg en ekki of mikið, ómeðvituð um eigin kynferði. Svo um leið og hún stígur út fyrir þann ramma og reynir að eiga sig sjálf og verða eitthvað annað heldur en er búið að segja henni að hún eigi að verða þá verður einhvers konar fall eða hrun.“

Britney og Miley
Að sögn Unu snýst verkið Prinsessuleikarnir að stórum hluta um það sem gerist í kjölfar slíkrar óhlýðni prinsessunnar.
„Stóra spurningin er kannski hvað gerist þegar við hættum að hlýða eða hvað gerist þegar við reynum að segja sögurnar okkar sjálfar,“ segir hún.
Spurð um hvort þetta hafi ekki einmitt gerst núna í bresku konungsfjölskyldunni þegar Harry Bretaprins og kona hans Meghan Markle ákváðu að segja skilið við konunglegar skyldur sínar segir Una:
„Já, það má líka alveg spyrja sig í tengslum við umræðuna um Meghan að hún er náttúrlega óhlýðin, og þar af leiðandi stjórnast umræðan af því. Alveg eins og með Britney, Miley Cyrus eða þær konur sem stíga einhvern veginn út fyrir þann ramma sem þeim hefur verið settur.“
Að mörgu leyti eru stelpur og strákar alin upp við prinsa og prinsessur og maður yfirleitt skilgreinir sig og staðsetur með eða á móti, ég er ekki prinsessa eða ég er prinsessa.
Ólík æviskeið prinsessunnar
Verkið var fyrst sett upp fyrir rúmum tuttugu árum, finnst þér það enn eiga erindi?
„Já mér finnst það, mér finnst þessar hugmyndir enn vera til staðar. Þessi hugmynd um prinsessuna sem ímynd eða sem einhvers konar hugmynd um konu sem er leikin á ákveðinn hátt. Allar þessar hugmyndir um viðfangið; get ég verið viðfang og gert mig sjálfa að viðfangi eða er ég alltaf gerð að viðfangi af einhverjum öðrum? Mér finnst þetta vera spurningar sem eru mjög ríkjandi í þessari fjórðu bylgju femínisma sem snýst mikið um eignarhaldið á birtingarmyndinni.“
Una segir hlutverkin þrjú, Þyrnirós, Mjallhvít og Jacqueline Kennedy standa fyrir ólíkar birtingarmyndir prinsessunnar. Þá segir hún leiktexta Elfriede Jelinek vera mjög óhefðbundinn.
„Þessi texti er eins og ljóð. Hún leikur sér mikið með tungumálið og merkingu þess, hugtök og húmor. Þannig að þetta er ekki hefðbundið leikrit, það eru ekki hefðbundin atriði þar sem fólk talar saman. Ég held að maður skynji þetta verk bara með undirmeðvitundinni af því hún er að takast á við svo stór hugtök,“ segir Una.