Fyrsta skáldsaga Rebekku, Flot, fjallar um unga konu sem tekst á við kvíða, áföll og afleiðingar ofbeldis, en Rebekka segir geðræn vandamál nokkuð sem henni finnst áhugavert að skrifa um.

„Af hverju þetta gerist og hvernig fólk hegðar sér eftir áföll. Bælingin sem á sér stað. Þetta heldur áfram í næstu bók, Trúnaði, en þar er ég með fimm vinkonur sem allar eru að fást við sína djöfla,“ segir Rebekka, en hún telur kvíða vera stóran þátt í nútímanum.

„Mér finnst kvíði einkenna mjög margt í kringum mig og það er eitthvað sem ég hef sjálf þurft að fást við í mörg ár. Það er þessi hraði og pressa sem er á fólki í dag. Það á alltaf að vera í vinnunni. Það á alltaf að sinna börnunum sínum sem best og það á alltaf að geta lesið 100 bækur á ári,“ segir Rebekka, sem viðurkennir að það hafi verið mjög krefjandi að skrifa bækurnar með svo stuttu millibili.

„Ég hafði ekkert að gera nema skrifa. Ég gat ekki sungið og ég gat ekki kennt.“

Ákvað að verða söngkona fyrst

„Ég byrjaði að skrifa mjög snemma. Ég ætlaði reyndar alltaf að verða söngkona og rithöfundur. En ég ákvað að verða söngkona fyrst,“ segir Rebekka en fyrsta plata hennar, Wondering, kom út árið 2017 en hún gaf einnig út smáskífuna No­where árið 2021.

„Skrifin urðu svolítið eftir þegar ég var unglingur. En þá einbeitti ég mér meira að tónlistarskólanum og tónlist. En var þó alltaf að skrifa ljóð og smásögur meðfram því. En síðan gjörsamlega hætti ég að skrifa í kringum tvítugt og var þá bara að syngja og gaf út plötu,“ segir Rebekka, sem þó stundaði BA-nám í almennri bókmenntafræði meðfram tónlistinni og segir að þannig hafi bókmenntirnar haldist í lífi hennar.

„Síðan þegar ég var búin að gefa út fyrstu plötuna mína 2017. Þá fann ég hvað skrifin toguðu í mig,“ segir Rebekka, sem ákvað einnig að skrá sig í ritsmiðjur í ritlist við Háskóla Íslands meðfram bókmenntanáminu.

Skrifin tóku yfir í Covid

„Ég hafði ekkert að gera nema skrifa. Ég gat ekki sungið og ég gat ekki kennt,“ en Rebekka kennir söng og hefur tekið að sér að vera stundakennari í ritlist í HÍ. „Ég ákvað að á hverjum degi myndi ég setjast fyrir framan tölvuna og skrifa þúsund orð og þannig varð Flot til,“ segir Rebekka, en stuttu eftir að hún hafði lokið við bókina hafði fulltrúi Storytel samband.

„Þau spurðu mig hvort ég væri með einhverja hugmynd. Ég var opin fyrir því að skrifa því Flot var tilbúin. Þau spurðu mig hvort ég gæti komið út bók fyrir haustið og ég sagði þeim: bara örugglega,“ segir Rebekka og hlær við. „En það komu inn alls konar aðrir hlutir núna, til dæmis að ég var með átta mánaða barn og var að vinna, kenna og syngja og að fylgja Floti eftir.

En ég varð þá bara að setjast niður á kvöldin og skrifa. Ég reyndi að vera með markmið þó að sumar vikurnar væri þetta of mikið og ég gat ekkert skrifað, en einhvern veginn varð þessi bók til.

Aðspurð hvað taki við núna segist Rebekka ætla að reyna að taka sér smá frí, „og vonandi fá fólk til þess að lesa þessar bækur sem ég var að skrifa,“ segir Rebekka og bætir við: „Ég er búin að sleppa tökunum á þeim og þær vonandi finna sína lesendur.“