Elsta verkið á sýningu Ólafar Nor­dal á Kjarvals­stöðum er frá 1992. Það heitir Í rökkrinu og er eftir­líking af út­skornum bitum en úr nú­tíma­legu efni. Val­þjófs­staða­hurðin blasir við þaðan, hug­myndin sótt í hina einu sönnu en þriðja hringnum bætt við ofan við hina. Ólöf K. Sigurðar­dóttir sýningar­stjóri tekur á móti mér á Kjarvals­stöðum.

„Þetta er í þriðja sinn á jafn­mörgum haustum sem við setjum upp yfir­lits­sýningu á verkum starfandi lista­manns, sem þegar á að baki um­tals­verðan feril og ber sterk höfundar­ein­kenni. Fyrst var það Anna Lín­dal, svo Haraldur Jóns­son og nú Ólöf Nor­dal. Við lítum á hverja sýningu og sýningar­skrár þeirra sem inn­legg í fram­tíðar­rann­sóknir á ís­lenskri sam­tíma­list. Í þeim eru greinar eftir ó­líka fræði­menn auk við­tals við lista­manninn sjálfan. Í sýningar­skrá Ólafar Nor­dal er líka hennar út­færsla á þjóð­sögum eða vit­neskju sem hefur legið hjá þjóðinni, hún veitir skemmti­lega sýn á verkin.“

Meðal verka á sýningunni eru myndir sem Ólöf Nor­dal hefur tekið af höfuðafsteypum sem varð­veittar eru á söfnum er­lendis, flestar eru á mann­fræði­safni í París en ein á Kanarí­eyjum. „Þetta eru allt af­steypur af nafn­greindu fólki, Ís­lendingar þóttu á­huga­verðir á ní­tjándu öld fyrir að vera hrein þjóð á norð­lægum slóðum. Spurning hvort við viljum sam­sama okkur því í dag,“ segir sýningar­stjórinn og kímir.

Á ferlinum hefur Ólöf Nor­dal leitað fanga í ýmsum söfnum, bæði þeim sem geyma náttúru- og menningar­minjar en einnig gagna­söfnum eins og því sem varð­veitt er af Há­skóla Ís­lands og var byggt upp af líkams­mann­fræðingi sem vann við að leita að upp­runa Ís­lendinga. Þetta nýtir Ólöf í á­hrifa­mikið ljós­mynda­verk og sýningar­stjórinn bendir á skjá þar sem þulur Ríkis­út­varpsins les gamla frétt um mælingarnar. Nýjustu verkin á sýningunni Úngl eru torf hleðsla, meira en mann­hæðar­hár mó­hraukur og mynda­sería af for­ystu­fé og nú er Ólöf Nor­dal tekin við leið­sögninni.

Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

„Þegar for­ystu­fé er í fjár­húsi þá stendur það svo­lítið upp úr og horfir yfir hópinn. Það er ó­blandað öðru fé og er talið hafa varð­veist frá land­námi. Sú sögn er líka til að það sé komið af huldu­hrúti í Þing­eyjar­sýslu í ár­daga. For­ystu­fé hafði mikið gildi þegar vetrar­beit var notuð, það fann á sér veðra­breytingar og virtist hafa ó­freski­gáfu sem bjargaði bæði fé og mönnum. En kindurnar voru misjafnlega samvinnufúsar í mynda­tökunni. Þær þurftu að vera með fram­lappirnar uppi á palli og það voru alls ekki allar sem létu það yfir sig ganga en aðrar gerðu það eins og ekkert væri sjálf­sagðara. Þegar ég kom í fjár­húsið á einum bæ var ær sem horfði á mig eins og hún vildi segja: Loksins ertu komin, ég er búin að bíða eftir þér lengi. Hún fór beint upp í króna, steig með fram­fæturna á pallinn og var mynduð. Al­ger­lega salla­ró­leg en nokkrar í sama fjár­húsi þýddust mig ekki. Það var bara stríð.“ Þá snúum við okkur að mónum sem Ólöf hefur hlaðið upp í holan turn.

„Mórinn er dæmi um efni sem tíminn liggur í. Hann er sex til tíu þúsund ára gamlar jurta­leifar og var notaður sem eldi­viður á Ís­landi því við höfðum hvorki kol né skóg,“ út­skýrir Ólöf. „Ég gróf þetta sjálf og þurrkaði og það var voða auð­velt að hlaða þennan hrauk. En mór er eitt­hvað sem mann langar ekki að taka úr jörðu. Þessi var í barði sem skagaði út í flæðar­mál og hækkandi sjórinn var að vinna á honum.“

Tví­höfða lömb, upp­stoppuð, eru bak við gler. „Lömbin fæddust svona en fá tákn­mynd í sam­tímanum því þau horfa bæði aftur til bænda­sam­fé­lagsins og fram til gena­breytinga,“ út­skýrir lista­konan og segir sýninguna snúast um brot.

„Þessi brot gefa okkur færi á að horfa aftur í tímann, túlka okkar tíma og gefa rými fyrir í­mynduna­r­af lið. Þetta á við allar sögu­legar leifar. Þær segja okkur svo margt því hver tími túlkar brotin á sinn hátt. Ég hef á­huga á því hvernig við höfum byggt upp okkar sjálfs­mynd sem þjóð og hvað við höfum valið sem á­huga­vert til þeirrar upp­byggingar.“