Elsta verkið á sýningu Ólafar Nordal á Kjarvalsstöðum er frá 1992. Það heitir Í rökkrinu og er eftirlíking af útskornum bitum en úr nútímalegu efni. Valþjófsstaðahurðin blasir við þaðan, hugmyndin sótt í hina einu sönnu en þriðja hringnum bætt við ofan við hina. Ólöf K. Sigurðardóttir sýningarstjóri tekur á móti mér á Kjarvalsstöðum.
„Þetta er í þriðja sinn á jafnmörgum haustum sem við setjum upp yfirlitssýningu á verkum starfandi listamanns, sem þegar á að baki umtalsverðan feril og ber sterk höfundareinkenni. Fyrst var það Anna Líndal, svo Haraldur Jónsson og nú Ólöf Nordal. Við lítum á hverja sýningu og sýningarskrár þeirra sem innlegg í framtíðarrannsóknir á íslenskri samtímalist. Í þeim eru greinar eftir ólíka fræðimenn auk viðtals við listamanninn sjálfan. Í sýningarskrá Ólafar Nordal er líka hennar útfærsla á þjóðsögum eða vitneskju sem hefur legið hjá þjóðinni, hún veitir skemmtilega sýn á verkin.“
Meðal verka á sýningunni eru myndir sem Ólöf Nordal hefur tekið af höfuðafsteypum sem varðveittar eru á söfnum erlendis, flestar eru á mannfræðisafni í París en ein á Kanaríeyjum. „Þetta eru allt afsteypur af nafngreindu fólki, Íslendingar þóttu áhugaverðir á nítjándu öld fyrir að vera hrein þjóð á norðlægum slóðum. Spurning hvort við viljum samsama okkur því í dag,“ segir sýningarstjórinn og kímir.
Á ferlinum hefur Ólöf Nordal leitað fanga í ýmsum söfnum, bæði þeim sem geyma náttúru- og menningarminjar en einnig gagnasöfnum eins og því sem varðveitt er af Háskóla Íslands og var byggt upp af líkamsmannfræðingi sem vann við að leita að uppruna Íslendinga. Þetta nýtir Ólöf í áhrifamikið ljósmyndaverk og sýningarstjórinn bendir á skjá þar sem þulur Ríkisútvarpsins les gamla frétt um mælingarnar. Nýjustu verkin á sýningunni Úngl eru torf hleðsla, meira en mannhæðarhár móhraukur og myndasería af forystufé og nú er Ólöf Nordal tekin við leiðsögninni.

„Þegar forystufé er í fjárhúsi þá stendur það svolítið upp úr og horfir yfir hópinn. Það er óblandað öðru fé og er talið hafa varðveist frá landnámi. Sú sögn er líka til að það sé komið af hulduhrúti í Þingeyjarsýslu í árdaga. Forystufé hafði mikið gildi þegar vetrarbeit var notuð, það fann á sér veðrabreytingar og virtist hafa ófreskigáfu sem bjargaði bæði fé og mönnum. En kindurnar voru misjafnlega samvinnufúsar í myndatökunni. Þær þurftu að vera með framlappirnar uppi á palli og það voru alls ekki allar sem létu það yfir sig ganga en aðrar gerðu það eins og ekkert væri sjálfsagðara. Þegar ég kom í fjárhúsið á einum bæ var ær sem horfði á mig eins og hún vildi segja: Loksins ertu komin, ég er búin að bíða eftir þér lengi. Hún fór beint upp í króna, steig með framfæturna á pallinn og var mynduð. Algerlega sallaróleg en nokkrar í sama fjárhúsi þýddust mig ekki. Það var bara stríð.“ Þá snúum við okkur að mónum sem Ólöf hefur hlaðið upp í holan turn.
„Mórinn er dæmi um efni sem tíminn liggur í. Hann er sex til tíu þúsund ára gamlar jurtaleifar og var notaður sem eldiviður á Íslandi því við höfðum hvorki kol né skóg,“ útskýrir Ólöf. „Ég gróf þetta sjálf og þurrkaði og það var voða auðvelt að hlaða þennan hrauk. En mór er eitthvað sem mann langar ekki að taka úr jörðu. Þessi var í barði sem skagaði út í flæðarmál og hækkandi sjórinn var að vinna á honum.“
Tvíhöfða lömb, uppstoppuð, eru bak við gler. „Lömbin fæddust svona en fá táknmynd í samtímanum því þau horfa bæði aftur til bændasamfélagsins og fram til genabreytinga,“ útskýrir listakonan og segir sýninguna snúast um brot.
„Þessi brot gefa okkur færi á að horfa aftur í tímann, túlka okkar tíma og gefa rými fyrir ímyndunaraf lið. Þetta á við allar sögulegar leifar. Þær segja okkur svo margt því hver tími túlkar brotin á sinn hátt. Ég hef áhuga á því hvernig við höfum byggt upp okkar sjálfsmynd sem þjóð og hvað við höfum valið sem áhugavert til þeirrar uppbyggingar.“