Það að stofna til fjölskyldu er ein af stóru ákvörðunum lífsins, í kjölfar þess að hafa fundið þann eina eða einu réttu sem stefnt er að því að eyða ævinni með, eru barneignir hluti af næstu skrefum hjá mjög mörgum. Eins og við þekkjum þá er lífið samt ekki alveg svona einfalt og ekki endilega í einhvers konar röð og reglu.

Það væri býsna sérstakt ef allir færu sömu leið. Sumir geta skipulagt og undirbúið sig undir það að stofna fjölskyldu, aðrir eru komnir á þann stað í upphafi sambands og þannig mætti lengi telja. Þá eru til pör sem glíma við erfiðleika við að eignast barn og er flækjustigið þá orðið enn hærra.

Náttúran ræður för

Í líffræðilegum skilningi er það svo, að það þarf talsvert mikið til að geta eignast barn, það þarf allt að ganga upp ef svo má segja og náttúran sér svo sem um það mestmegnis sjálf. Þegar við erum ung þá eru meiri líkur á þungun og sömuleiðis eru þá meiri líkur almennt á að eignast barn sem er heilbrigt. Þetta er þó, eins og allt annað, ekki algilt.

Við vitum að með auknum aldri kvenna minnkar frjósemi þeirra og að sama skapi er ákveðin áhætta á vandamálum sem geta fylgt bæði meðgöngunni sjálfri og heilbrigði barnsins. Fósturgallar eru algengari með auknum aldri, þá er einnig líklegra að konur sem eru eldri en 35 ára geti misst fóstur snemma á meðgöngu.

Rannsóknir hafa einnig sýnt fram á aukna áhættu á að þróa með sér vandamál líkt og meðgöngusykursýki, að legkaka verði fyrirstæð, aukna hættu á blæðingum og hækkandi keisaratíðni. Það að fæða fyrir tímann hefur verið hluti af þessari umræðu einnig og eru menn ekki alveg sammála um hvort aukinn aldur sé þar hluti af fleiri fyrirburafæðingum.

Frumbyrjur eldri en áður

Með breytingum á lífsstíl, umhverfi okkar, menntun og starfi, hefur þróunin á Vesturlöndum og víðar orðið sú að konur eignast sín fyrstu börn síðar en áður og er þess vegna verið að horfa til aldursbila, þegar rannsóknir eru gerðar á meðgöngu og fæðingu kvenna. Við höfum einnig glímt við það í gegnum tíðina að það að konur eignist börn of snemma og séu ekki tilbúnar að stofna til fjölskyldu, getur að sama skapi haft veruleg áhrif á líf einstaklinga. Þannig að það er ekki til neitt eitt svar við því hvenær er rétti tíminn og þurfa einstaklingar og pör að hafa það í huga.

Það má heldur ekki gleyma því að það geta verið kostir við að eignast barn síðar á lífsleiðinni og fyrir utan þekkta áhættu sem ég kem að hér að ofanverðu, eru gögn sem styðja það að börn mæðra sem fæða eftir 35 ára aldurinn séu mögulega með minni líkur á hegðunarröskunum og félagslegum vanda síðar á lífsleiðinni, svo eitthvað sé nefnt. Þarna vantar okkur enn talsvert af gögnum til að geta fullyrt slíkt með einhverri vissu.

Stress og frjósemi

Streita og álag vega mjög þungt í getu okkar til að eignast börn og er umræða um það að bæði frjósemi karla og kvenna líði verulega fyrir slíkt ástand. Með nýrri tækni og aukinni þekkingu erum við á þeim stað í dag að geta aðstoðað pör við barneignir með allt öðrum hætti en þekkst hafði. Það fylgir mikil vanlíðan því að geta ekki eignast börn og að reyna ítrekað en mistakast, jafnvel með aðstoð frjósemisaðgerða. Það er ekki hægt að tryggja að slík meðferð gangi upp, en okkur hefur miðað vel á síðustu árum.

Við þekkjum dæmi þess einnig að pör hafi með aðstoð eignast börn, eftir að hafa reynt árangurslaust um árabil að geta barn, í kjölfar þeirrar hamingju eignast parið jafnvel aftur barn án allrar aðstoðar. Það er sérstakt rannsóknarefni og er verið að skoða í dag.