Velkomin er fjórða ljóðabók Bubba Morthens en áður hafa komið út Öskraðu gat á myrkrið, Hreistur og Rof sem hlutu afbragðsgóðar viðtökur. Velkomin fjallar um hlutskipti flóttafólks. „Ég er að fjalla um almennt sinnuleysi okkar og ótta við að manneskjur úr öðrum menningarsamfélögum séu að taka eitthvað frá okkur og ógni tilverurétti okkar. Um leið er ég að fjalla um illskuna og kærleikann,“ segir Bubbi.

„Manneskjan er furðulega samansett og við erum svo fljót að gleyma. Nánast hvert einasta illvirki og grimmdarverk sem við heyrum í fréttum hljómar eins og það fyrsta. Nú upplifum við stærstu fólksflutninga mannkynssögunnar og það eina sem flóttafólk sem kemur til Íslands leitar að er opinn faðmur, kærleikur og möguleikar fyrir börnin þeirra.

Þetta eru umfjöllunarefnin í þessari bók Velkomin. Ég er búinn að vera í æði langan tíma að skrifa hana, byrjaði fyrir einum fimm árum og er búinn að skrifa hana oft. Upphaflega fjallaði ég þar meira um trú og þráðinn milli kristni og múslima og búddisma. Svo henti ég út stórum hluta af því og hélt mig við einhvers konar órætt ferðalag fólks hingað og viðbrögð okkar og blandaði þar inn í alls kyns hugleiðingum. Um leið fannst mér að það yrði að vera ákveðin óreiða í frásögninni. Það er engin bein lína á milli lands þar sem fólki er slátrað eins og búfénaði og ferðalags flóttafólks sem endar loks á Íslandi. Mér þykir mjög ólíklegt að þetta fólk hafi hugsað með sér: Við verðum að reyna að komast til Íslands. Ég held að Ísland sé neyðarlending. Þá skiptir svo miklu máli að við tökum óttalaus á móti fólkinu og umföðmum það. Þarna bætast við falleg blóm í garðinn okkar.“

Liggur mikið á hjarta

Það er greinilegt að Bubba liggur mikið á hjarta í þessari bók. „Ég er dálítið gamaldags, mér finnst að menn eigi að hafa erindi,“ segir hann. „Maður verður að þora að segja hlutina og sérstaklega á tímum þar sem ýmsir leiðtogar veraldar virða engin mörk. Þeir neita að taka á móti flóttafólki og láta sig neyð barna engu varða. Eftir 30-50 ár finnst mér líklegt að þjóðir heims eigi eftir að skammast sín fyrir þetta tímabil.“

Barn sem brillerar

Bubbi segir að Velkomin hafi verið tilbúin á undan ljóðabókinni Rofi. „Ég var ekki alveg viss hvenær rétt væri að senda hana frá mér. Núna er hárrétti tíminn. Við höfum fólk eins og Miðflokksmenn sem gera út á kvíða og ótta. Þeir njóta stuðnings fólks sem finnst að stjórnvöld og þjóðfélagið hafi svikið það og það hafi ekki fengið sín tækifæri. Þetta eru þau fiskimið sem Miðflokksmenn gera út á. Þeir eru eins og púkinn á fjósbitanum, fitna við hvert ólag. Klaustursmálið er gott dæmi um það. Þeir misstu æruna en eru að græða á málinu.

Menn eins og Miðflokksmenn svífast einskis og gera grín að Gretu Thunberg. Það sem undrar mig er að allir skuli ekki segja: Þvílíkt undur, að sextán ára stelpa geti blásið eld í sína eigin kynslóð út um allan heim, þannig að börn gerast meðvituð um það hvernig við eldra fólkið höfum gengið um jörðina okkar. Ég skil ekki að einhverjum skuli detta í hug að ráðast á barn sem er að brillera og gefa líka í skyn að ekki sé sniðugt að hleypa útlendingum inn í landið og ekki sé sniðugt að vera í samfloti við aðrar þjóðir og Ísland sé bara fyrir Íslendinga.

Ef einhvern tímann hefur verið þörf á kærleika, alúð, vinsemd og hlýjum orðum þá er það í dag.“