A Taste of City eru matreiðsluþættir á BBC þar sem tekin eru fyrir hráefni úr heimabyggð úr ýmsum borgum heimsins. Stjórnandi þáttarins Kate Hardie-Buckley kynnir sér hráefni úr heimabyggð frá ýmsum svæðum.

Á dögunum birtist Reykjavíkurþátturinn, hvers titill er From Shame to Superfood, eða Frá skömm að ofurfæðu, og er þar átt við sölin.

Nútímaleg matartínsla

„Ég fékk bara skilaboð á Instagram – eins og ég fæ reglulega. „Hæ, hæ, ég er með matreiðsluþátt,“ segir matreiðslumeistarinn Fanney Dóra Sigurjónsdóttir sem leiðir matreiðsluna í þættinum, en þar er eldaður lax með góðgæti úr fjörunni. Hún segist hafa tekið skilaboðunum með fyrirvara í fyrstu. „Ég fæ mörg svona skilaboð og tek þeim mishátíðlega.“

Fanney var mikið í mun að sýna ferska lúxusmatreiðslu, að hennar sögn til mótvægis við tvo sjónvarpsþætti eftir heimsfræga sjónvarpskokka sem íslenskt mataráhugafólk gæti kannast við. Annars vegar þegar Gordon Ramsey gerði matarþátt um Ísland og hins vegar þegar Anthony Bourdain heimsótti land og þjóð. Þar var meðal annars fjallað um tengsl kjötsúpu og úthalds í bólinu.

„Ég vildi ekki þessa „allir borða hákarl annars ertu aumingi“-stemningu,“ segir Fanney. Fanney og Katie heimsóttu því meðal annars hið kvenrekna brugghús Lady Brewery.

Fanney starfar í dag á Hnossi í Hörpu þar sem mikið er lagt upp úr árstíðabundnum mat og íslensku hráefni. „Íslendingar hafa auðvitað sótt sér mat í náttúruna í aldir. Hreindýramosinn, fjallagrösin, hvönnin, sölin.“

Ragnheiður Axel segist hvetja fólk til að stunda matartínslu, og nefnir að það sé gríðarlega skemmtilegt.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Ragnheiður Axel er sú sem fer með umsjónarmanni þáttarins að tína söl og góðgæti í fjörunni. „Pabbi og fjölskylda mín eru búin að vera að tína þara í mörg ár. Þegar hann byrjaði á þessu var hann bara skrýtni þarakallinn!“ segir Ragnheiður Axel. „Í dag erum við að selja til fínna veitingahúsa eins og Noma, en kokkarnir þar ásamt Gunnari Karli á Dilli hvöttu hann áfram í þessu upp úr 2000,“ segir hún.

„Þessi tínsla og söfnun matvæla, nefnd „foraging“ á ensku, er í sókn í matarmenningunni,“ segir Ragnheiður Axel og bætir við að samskiptin við náttúruna séu svo mögnuð. „Núvitundin, að lesa í árstíðirnar og tengjast náttúrunni.“

Hún nefnir að langflestir Íslendingar eigi dásamlegar minningar úr berjamó. „Að renna saman við náttúruna og nýta hana. Þetta er svipað, það er hægt að fara í alls konar „mó“ og tína fæðu.“ Ragnheiður Axel segist hvetja fólk til að stunda matartínslu.

Erum að komast af gelgjunni

„Auðvitað var rosalega gaman þegar basilíkan kom og oft heyri ég að hér vaxi ekkert skemmtilegt,“ segir Fanney og bætir við að það sé bara rugl. „Við erum með geggjaðar kryddjurtir hér og byrjuðum aftur að líta okkur nær fyrir svona fimm til sjö árum síðan. Við erum að finna sjálfstraustið okkar í íslensku matargerðinni á ný. Smá eins og við séum að koma af gelgjunni og sættumst við upprunann.“