„Kveikjan að verkinu er sú að sonur minn fæddist fyrir rúmu tveimur og hálfu ári. Þá fór ég að hugsa um atburði sem gerðust tuttugu árum áður, þegar ég var sautján ára og þurfti að fara í faðernispróf og beið í heilt ár eftir að vita hvort ég væri pabbi eða ekki,“ segir Kári.

Hann fékk styrk til verksins hjá leiklistarráði og fékk Maríu Reyndal með sér í lið. „Hún er snillingur í að vinna með heimildir og sögur úr raunveruleikanum og við fórum í rannsóknar- og handritsvinnu. Þjóðleikhúsið kom svo til liðs við okkur, en verkið verður sýnt þar í haust. Ferlið hefur tekið eitt og hálft ár.“

Lagskipt verk

Spurður um tóninn í leikritinu segir Kári: „Ég held að þetta sé bland í poka. Í verkinu er farið aftur til ársins 2002 sem var skemmtilegt tímabil og við erum að fjalla um ung­linga. Það er stórt hjarta í verkinu og miklar tilfinningar, enda erfitt fyrir einstaklinga að ganga í gegnum það ferli sem lýst er í verkinu. Þannig að leikritið er mjög lagskipt.

Verkið fjallar líka mikið um ábyrgð sögumannsins og hvort það sé hægt að taka mark á sjálfum sér sem sögumanni í eigin sögu. Við leyfum öllum sjónarmiðunum að heyrast, fjöllum um það hvernig minningar breytast, hverju maður man eftir, hvað maður kýs að muna og hvernig maður segir frá. Það fór mikil vinna hjá okkur í að að skoða þetta.“

Sterk viðbrögð

Leikarar ásamt Kára í verkinu eru Sólveig Guðmundsdóttir, Sverrir Þór Sverrisson og Birna Pétursdóttir. „Við erum öll á sviðinu allan tímann. Ég er í hlutverki míns sjálfs en þar sem við tökum okkur ríkt skáldaleyfi myndi ég segja að ég væri að leika ákveðinn hluta af sjálfum mér.“

Verkið hefur þegar verið sýnt á RIFI og Ísafirði. „Okkur hefur verið tekið frábærlega. Það er vídd í þessu verki og sterkar tengingar. Fólk á öllum aldri virðist geta speglað sig í því á einhvern hátt. Það er mikið um sögur eins og þessar á Íslandi, en margar þeirra eru leyndarmál. Við erum búin að fá sterk viðbrögð, allt frá unglingum upp í eldri borgara. Sumir sögðu: Þetta er sagan mín – og það eru áratugir síðan.“

Næstu sýningar á Prinsinum verða í Hofi, Akureyri 17. og 18. maí og í Valaskjálf, Egilsstöðum 19. maí. Verkið verður síðan sýnt í Þjóðleikhúsinu í haust.