Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 2021 hlýtur tansaníski rithöfundurinn Abdulrazak Gurnah sem er búsettur í Bretlandi og skrifar á ensku.
Sænska akademían, sem úthlutar Nóbelsverðlaununum í bókmenntum, tilkynnti um niðurstöðuna í gegnum fjarfund frá Stokkhólmi rétt í þessu.
Í rökstuðningi Akademíunnar segir að Gurnah hljóti verðlaunin meðal annars fyrir að afhjúpa afleiðingar nýlendustefnu og fordóma í verkum sínum.
„Í sínum tíu skáldsögum hefur hann staðfastlega og af mikilli samkennd afhjúpað afleiðingar nýlendustefnunnar í Austur-Afríku og áhrif hennar á líf rótlausra og brottfluttra einstaklinga,“ sagði talsmaður Sænsku Akademíunnar.
Gurnah er fæddur árið 1948 í Sansibar í Tansaníu en hélt tvítugur til Bretlands til að stunda nám, hvar hann hefur búið síðan.
Hann hefur skrifað tíu skáldsögur og meðal þekktustu verka hans eru bækurnar Paradise (1994), sem var tilnefnd til Booker og Whitbread verðlaunanna, Desertion (2005) og By the Sea (2001) sem var einnig tilnefnd til Booker verðlaunanna.
Gurnah þakkaði akademíunni fyrir heiðurinn sem hann sagði hafa komið sér mjög á óvart.
„Þetta var svo fullkomlega óvænt að ég þurfti í raun að bíða eftir því að ég heyrði þá tilkynna þetta áður en ég gat trúað því.“
Fréttin var uppfærð kl. 13:26.
BREAKING NEWS:
— The Nobel Prize (@NobelPrize) October 7, 2021
The 2021 #NobelPrize in Literature is awarded to the novelist Abdulrazak Gurnah “for his uncompromising and compassionate penetration of the effects of colonialism and the fate of the refugee in the gulf between cultures and continents.” pic.twitter.com/zw2LBQSJ4j