Nóbels­verð­launin í bók­menntum árið 2021 hlýtur tansaníski rit­höfundurinn Abdul­razak Gurnah sem er bú­settur í Bret­landi og skrifar á ensku.

Sænska akademían, sem út­hlutar Nóbels­verð­laununum í bók­menntum, til­kynnti um niður­stöðuna í gegnum fjar­fund frá Stokk­hólmi rétt í þessu.

Í rök­stuðningi Akademíunnar segir að Gurnah hljóti verð­launin meðal annars fyrir að afhjúpa af­leiðingar ný­lendu­stefnu og for­dóma í verkum sínum.

„Í sínum tíu skáld­sögum hefur hann stað­fast­lega og af mikilli sam­kennd af­hjúpað af­leiðingar ný­lendu­stefnunnar í Austur-Afríku og á­hrif hennar á líf rót­lausra og brott­fluttra ein­stak­linga,“ sagði tals­maður Sænsku Akademíunnar.

Gurnah er fæddur árið 1948 í Sansi­bar í Tansaníu en hélt tví­tugur til Bret­lands til að stunda nám, hvar hann hefur búið síðan.

Hann hefur skrifað tíu skáld­sögur og meðal þekktustu verka hans eru bækurnar Para­dise (1994), sem var til­nefnd til Booker og Whit­bread verð­launanna, Desertion (2005) og By the Sea (2001) sem var einnig til­nefnd til Booker verð­launanna.

Gurnah þakkaði akademíunni fyrir heiðurinn sem hann sagði hafa komið sér mjög á ó­vart.

„Þetta var svo full­kom­lega ó­vænt að ég þurfti í raun að bíða eftir því að ég heyrði þá til­kynna þetta áður en ég gat trúað því.“

Fréttin var uppfærð kl. 13:26.