Vigdís segir að landvernd sé meðal þess mikilvægasta í hverju samfélagi, ekki bara á Íslandi heldur í öllum heiminum. „Ég hef alltaf lagt áherslu á að vernda náttúruna. Í forsetatíð minni vildi ég sérstaklega auka skilning á náttúruvernd meðal barna. Þá fæddist sú hugmynd að kenna börnum að græða landið. Sjálf fékk ég alls kyns gjafir, handprjónaða peysu og fleira fallegt þegar ég heimsótti byggðir landsins. Ég kom því alltaf færandi hendi með þrjú tré sem ég gróðursetti með börnum. Eitt fyrir strákana, eitt fyrir stelpurnar og eitt fyrir ófæddu börnin. Drengirnir áttu að passa sína hríslu og stúlkurnar sína og saman áttu þau að passa hrísluna fyrir ófæddu börnin. Það höfðu allir gaman af þessu framtaki. Upp úr þessu spratt sjóður sem nefndur er Yrkjusjóður æskunnar. Skólar geta sótt um styrk í þennan sjóð fyrir nemendur til gróðursetningar. Með þessu verkefni finna börn verndartilfinningu gagnvart landinu sínu,“ segir Vigdís.

Skógarlundir Vigdísar eru um allt land. Stærstur er Vinaskógur í landi Kárastaða á Þingvöllum. „Hulda Valtýsdóttir, þáverandi formaður Skógræktarfélags Íslands, valdi þennan stað. Markmiðið var að þjóðhöfðingar sem kæmu hingað í opinbera heimsókn gróðursettu í Vinaskógi. Elísabet Englandsdrottning var sú fyrsta. Hún spurði mig reyndar hvar skógurinn væri enda var enginn gróður þarna á þeim tíma. Núna er Vinaskógur fallegur skógarlundur. Meðal annars sextíu aspir sem stjórnmálaflokkur gaf mér þegar ég varð sextug,“ rifjar Vigdís upp og bætir við: „Ég hef bent ungu fólki á að kjörið sé að trúlofa sig í þessum skógi.“

Vigdís hefur lagt áherslu á náttúrvernd frá barnsaldri, lærði það af móður sinni. „Þegar við ferðuðumst um landið var ég upptekin af náttúrunni og vildi njóta hennar. Við systkinin vorum í sveit í Hreppunum á sumrin og mér eru minnisstæðir sandarnir í Rangárþingi handan Þjórsár. Í góðum norðanþurrki var iðulega sandrok sem skyggði á Eyjafjallajökul. Í dag er búið að rækta þetta svæði upp og binda landið.“

Þegar Vigdís er spurð hvernig framtíð hún sjái varðandi náttúruvernd, svarar hún: „Ég hef ekki áhyggjur af framtíðinni. Áhyggjur og kvíði draga úr orku og kjarki. Ég hef mikla trú á landinu, því það gefur mér og öðrum landsmönnum orku til að vernda það. Fólk er meðvitaðra í dag um umhverfisvernd en áður. Það er afar þakkarvert að hafist sé handa við að moka ofan í skurði sem hafa verið þvers og kruss um landið. Mýrar jarðarinnar eru lungu heimsins. Ég tók þátt í að moka ofan í mikinn skurð í Skálholti og þar spratt upp yndisfagurt mýrlendi með fuglasöng og villtum gróðri.“

Getum við gert eitthvað betur?

„Við getum alltaf gert betur þegar kemur að náttúruvernd,“ svarar Vigdís. „Það þarf til dæmis að vanda valið hvar trjágróður er settur niður. Hann má ekki skyggja á þann fjársjóð sem íslensk náttúra er. Víðsýni er aðal Íslands,“ segir Vigdís og hvetur fólk til að fara vel með landið sitt til framtíðar. „Það er svo mikil gleði sem felst í því að eiga ósnortið land. Land sem hefur verið hlúð að með þeirri þekkingu, sem við höfum aflað okkur um hvernig það verður best varðveitt. Land sem við öll eigum og njótum. Ég er hreykin af því að fjölskylda mín hugar vel að umhverfi sínu, jafnt ungir sem eldri og allir eru á kafi í því að flokka og plokka. Við Íslendingar getum aldrei orðið ósammála um að hafa verður náttúruvernd í heiðri allar stundir.“

Þessi grein birtist í sérblaði Landverndar í tilefni 50 ára afmælis sem fylgdi með Fréttablaðinu.