Leikhús

Co za poroniony pomysl! (Úff, hvað þetta er slæm hugmynd!) ***

Leikhópurinn PóliS

Tjarnarbíó

Aktorzy/leikarar: Jakub Ziemann, Aleksandra Skolozynska, Ólafur Ásgeirsson

Rezyser/Leikstjórn: Salvör Gullbrá Þórarinsdóttir

Dramaturg/Dramatúrg: Birnir Jón Sigurðsson

Scenografia & Kostiumy/Leikmynd og búningar: Þórdís Erla Zoëga

Dzwiek/Tónlist: Kristinn Smári Kristinsson

Oswietlenie sceniczne/Ljósahönnun: Kjartan Darri Kristjánsson

Projekt graficzny/Grafísk hönnun: Gréta Þorkelsdóttir

Pomoc przy tlumaczeniu/Aðstoð við þýðingu: Nina Slowinska

Pólska samfélagið á Íslandi telur um tuttugu þúsund einstaklinga. Það er fyrir löngu kominn tími til að þessi þjóðfélagshópur fái meira pláss innan sviðslistanna, sögur hans séu sagðar og að áhorfendum af pólskum uppruna gefist tækifæri til að spegla sig á sviðinu.

Síðastliðinn fimmtudag frumsýndi nýr leikhópur að nafninu PóliS sýninguna Co za poroniony pomysł!, sem á íslensku þýðist: Úff hvað þetta er slæm hugmynd!

Jakub, Aleksandra og Ólafur koma úr ólíkum áttum en sá síðastnefndi er eins konar sögumaður í sýningunni. Öll leika þau einhvers konar útgáfur af sjálfum sér en þegar áhorfendur hitta Óla er hann á bólakafi að læra pólsku með hjálp smáforritsins Duolingo. Með aðstoð kokksins Kuba og spunaleikkonunnar Olu leggur Óli upp í menningarlegan leiðangur til að kynnast heimi Pólverja sem búa á Íslandi þar sem matargerð, söngvar og vodki koma við sögu.

Öll eiga þau skemmtilega spretti; Óli heldur sýningunni saman með ofsafengnum og smitandi áhuga fyrir öllu því sem pólskt er, Kuba framreiðir hlýju í gegnum hefðbundna pólska matreiðslu og Ola slær heldur betur í gegn með óborganlegum ljóðaupplestri. Í raun eru þau öll að leita að sjálfum sér og finna sátt við samfélagið hvert með sínu nefi.

Sýningin er römmuð inn með Duolingo ferðalagi Óla og úr verður nokkurs konar dagskrá með stuttum atriðum sem tengjast lauslega. Uppbyggingin verður til þess að ekki er farið nægilega á dýptina heldur er hugmyndum úr ýmsum áttum hlaðið inn, hér vantar ritskoðun og skýrari línur. Af og til nota þau húmorinn til að afhjúpa sig og samfélagið, þá er sýningin áhrifamest. Afleiðingin verður sú að þrátt fyrir tiltölulega stuttan sýningartíma er Úff hvað þetta er slæm hugmynd! of löng.

Að hluta til má einnig skrifa ójöfnur sýningarinnar á leikstjórann Salvöru. Skiptingar gerast stundum of hægt og sýningin höktir, sem dæmi má nefna dansatriði snemma í verkinu sem kemur eins og þruma úr heiðskíru lofti. En Úff hvað þetta er slæm hugmynd! hittir líka í mark með afslappaðri nálgun, vel völdum pólskum gestum og allt nær suðupunkti þegar Óli er við það að tapa sjálfum sér í leitinni.

Tjarnarbíó hefur sýnt það í verki á þessu leikári að fjölmenningin á svo sannarlega heima á íslensku leiksviði. Þrátt fyrir misfellur er Úff hvað þetta er slæm hugmynd! hin prýðilegasta hugmynd, ágætis skemmtun og vonandi fyrsta skrefið af mörgum hjá leikhópnum PóliS. Hann hefur alla burði til að byggja á þessum spennandi grunni, þróa hugmyndafræðina sína frekar og meitla handritavinnuna. Ekki veitir af að víkka menningarsjónarhornið innan sviðslistaheimsins á Íslandi.

Niðurstaða: Kærkomin og kómísk innsýn inn í pólsk-íslenskan hliðarraunveruleika.