Fyrr í þessum mánuði var tilkynnt að Baldur Þór Ragnarsson, þjálfari karlaliðs Tindastóls í körfubolta, hefði sagt upp starfi sínu og tekið spennandi tilboði frá þýska liðinu Ratiopharm Ulm sem leikur í efstu deild þar í landi. Baldur mun taka við stöðu aðalþjálfara varaliðsins sem kallast Orange Academy Ulm og leikur í Pro b-deildinni í Þýskalandi. Með liðinu leika fimm leikmenn sem einnig spila með aðalliðinu þannig að Baldur mun einnig vera viðloðandi bæði liðin. Þetta spennandi tilboð kom Baldri skemmtilega á óvart enda var hann ekki að leita að starfi erlendis. „Það kom mér líka á óvart að lið af þessari stærðargráðu væri að hafa samband við mig. Þeir heyrðu af mér í gegnum umboðsmann sem er með leikmenn hérna á Íslandi og í framhaldi af því samtali heyrðu þeir í Jóni Arnóri Stefánssyni sem gaf mér góð meðmæli. Þannig endaði ég á Zoomviðtalsfundi og daginn eftir var ég bara floginn til Þýskalands. Þetta gerðist allt mjög hratt.“

Nýja starfið leggst afar vel í Baldur enda fær hann að vinna með marga efnilega leikmenn. „Ratiopharm Ulm er þekkt fyrir að hafa unga og efnilega leikmenn á sínum snærum þannig að þetta verður mjög spennandi. Sem dæmi var leikmaðurinn Jeremy Sochan að spila með þessu liði en hann var valinn númer 9 í NBA-nýliðavalinu síðasta vor.“

Baldur Þór og Rakel Rós heimsóttu Stuðlagil síðasta sumar, þar sem Baldur stakk sér meðal annars til sunds.

Byrjaði sem vatnsberi

Það verður eðlilega stórt stökk að fara frá Sauðárkróki til borgarinnar Ulm sem er staðsett í suðurhluta landsins og telur um 130 þúsund íbúa. „Reyndar er styrkleikamunurinn á deildunum úti og hér heima ekki svo mikill, þar sem íslenska deildin er orðin mjög sterk. Auk þess er íslenska A-landsliðið að standa sig mjög vel um þessar mundir. Stökkið ætti því ekki að vera risastórt leiklega séð. En hins vegar er aðstaðan þarna úti rosaleg og ekkert í líkingu við það sem íslensk félagslið búa við.“ Helsta markmið Baldurs í vetur verður að reyna að vinna sig upp í Þýskalandi. „Ég byrjaði sem vatnsberi hjá A-landsliði karla og vann mig svo upp í aðstoðarþjálfarahlutverk með ábyrgð, þannig að ég þekki það að vinna mig upp í starfi. Fólk ber virðingu fyrir duglegu fólki og það er mitt mottó í þeim störfum sem ég tek mér fyrir hendur að gera mitt allra besta og sjá hvert það leiðir mig. Stóra markmiðið í framtíðinni er svo auðvitað að þjálfa í bestu deildum Evrópu sem aðalþjálfari.“

Hófst í Þorlákshöfn

Körfuboltaferill Baldurs hófst þegar hann var fimm ára gamall þegar hann hóf að æfa körfubolta hjá Þór í Þorlákshöfn. „Ég spilaði þar til fimmtán ára aldurs en skipti þá yfir í KR þar sem ég var í fjögur ár áður en ég sneri aftur heim í Þorlákshöfn þar sem ég lék í nokkur ár ásamt því að þjálfa yngri flokka.“ Árið 2013 útskrifaðist hann sem ÍAK-einkaþjálfari og byrjaði þá markvisst að vinna í styrkleikum sínum sem þjálfari. „Þjálfararnir Arnar Guðjónsson og Finnur Freyr Stefánsson tóku mig síðan með á Norðurlandamót til að sjá um upphitun hjá 20 ára landsliðinu. Það eru um átta ár síðan og ég starfaði á hverju sumri í kringum yngri landslið KKÍ sem aðstoðarþjálfari.

Baldur Þór og kærastan hans, Rakel Rós Ágústsdóttir, á Mælifellshnjúki í Skagafirði.

Varð sterkari og betri

Einar Árni Jóhannsson bauð honum starf sem sem aðstoðarþjálfara hjá Þór Þorlákshöfn árið 2015-2016 og vann Baldur með honum í þrjú tímabil. „Hann gaf mér stórt hlutverk og verð ég honum ævinlega þakklátur fyrir þann tíma. Síðan fæ ég starf sem aðalþjálfari hjá Þór Þorlákshöfn tímabilið 2018-2019. Það gekk mjög vel og árið eftir fer ég til Sauðárkróks þar sem ég tek að mér aðalþjálfarastarf karlaliðsins sem er mjög krefjandi starf og ég er mjög ánægður með minn tíma þar. Króksarar gerðu mig að sterkari og betri persónu.“ En hvað skyldi vera svona heillandi við körfuboltann? „Það er svo margt, til dæmis hraðinn, varnarleikurinn, taktíkin, orkan, félagsskapurinn, að vera í liði, minningarnar, takast á við hindranir, sigra og síðan er trúlega mesti lærdómurinn að tapa, sem er líka partur af leiknum.“

Baldur Þór og Rakel Rós ásamt foreldrum Baldurs í Drangey í Skagafirði

Hreyfir sig mikið

Þótt körfuboltinn skipi eðlilega stóran sess í lífi Baldurs gerir hann ýmislegt annað utan hans. „Ég hef gaman af allri hreyfingu og hreyfi mig alla daga. Ég hleyp, fer í ræktina og syndi. Svo reyni ég að borða hollan mat, sofa vel og hugleiða og hugsa bara almennt séð vel um mig. Kærastan mín, Rakel Rós Ágústsdóttir, er svo stoð mín og stytta í einu og öllu og við erum mjög góð saman enda er hún mikill partípinni. Ég á líka góða fjölskyldu og fullt af vinum sem gaman er að gera eitthvað með. Að fá sér til dæmis ribeye-steik með vinunum klikkar seint.“ Nýja starfið leggst mjög vel í hann og tíminn í Þýskalandi á eftir að verða mjög spennandi að hans sögn. „Það verður gaman að læra þýsku og upplifa aðra menningu. Einnig hlakka ég til að upplifa öðruvísi vetur en á Íslandi. Ég þekki vel dimmu mánuðina á Íslandi og skammdegisþunglyndið og það verður gaman að sjá hvort ég verði laus við þann draug í Þýskalandi.“

Dagleg hreyfing skiptir Baldur Þór miklu máli. Hér er hann við Steininn á Esju.