Ólíkt öðrum landsmönnum þurfa íbúar eyja hér á landi að búa við fremur takmarkað úrval hlaupaleiða, eðli málsins samkvæmt. Það þýðir þó ekki að ekki sé hægt að stunda hlaup af krafti, eins og meðlimir hlaupahópsins Eyjaskokk í Vestmannaeyjum hafa sannað undanfarin ár.

Hlaupahópurinn var stofnaður vorið 2017 að frumkvæði Garðars Heiðars Eyjólfssonar sem flutti þangað sama ár. „Hér í Eyjum eru alltaf einhverjir sem eru að sprikla en það hafa ekki svo ég viti til verið haldnar hlaupaæfingar hér áður en ég flutti hingað árið 2017. Ég bar hugmyndina um hlaupahóp undir nokkra aðila og úr varð hlaupahópur sem heitir því mjög svo frumlega nafni Eyjaskokk. Undirtektirnar voru mjög góðar og er þetta fjölbreyttur og skemmtilegur hópur. Við höfum skipulagt æfingar hvert ár frá vori fram á haust að 2020 undanskildu. Ekki skemmir svo fyrir að við Eyjamenn eigum einn fyrsta flokks hlaupara, Hlyn Andrésson, sem virkilega gaman er að fylgjast með.“

Falleg náttúra

Garðar bjó lengi á höfuðborgarsvæðinu og þekkir því vel muninn á hlaupaleiðum beggja svæða. „Auðvitað er mikill munur enda takmarkað pláss hér í Eyjum. Við erum svo lánsöm að eiga þessa fallegu náttúru hér og það er ekki mikið mál að finna skemmtilegar hlaupaleiðir hvort sem er á götu eða utan vegar. Fjöllin hér hafa líka sína kosti og er mjög gott að taka röska göngu upp þau til að styrkja lappirnar, því það þarf nefnilega ekki alltaf að vera á fullu gasi þegar maður tekur æfingu. Yfir vetrarmánuðina eru margir í styrktaríþróttum á borð við CrossFit og Metabolic, sem eru svo sannarlega af hinu góða til að halda skrokknum í góðu formi. Auk þess er lítið mál að hlaupa hérna yfir vetrarmánuðina þar sem það er frekar snjólétt hér og þá er bara að klæða sig eftir veðri.“

Hluti hlaupahópsins Eyjaskokk á æfingu fyrr á þessu ári.Serbl_Myndatexti:mynd/aðsend

Hlaupaleiðir við allra hæfi

Í Vestmannaeyjum má finna, að sögn Garðars, hlaupaleiðir við allra hæfi, hvort sem hlaupið er götuhlaup eða utan vegar, auk þess sem fjöllin í kring bjóða upp á skemmtilega möguleika. „Í Vestmannaeyjum eru svo haldin þrjú hlaup á hverju ári. Fyrstu helgina í maí höldum við The Puffin Run sem er 20 km utanvegahlaup hringinn í kringum eyjuna. Það hlaup hefur vaxið mjög síðustu ár og núna mættu um 850 hlauparar, sem er rúmlega helmings aukning frá síðasta ári. Um mitt sumar ár hvert er 7 tinda gangan, sem er bæði ganga og hlaup fyrir þá sem vilja. Um er að ræða um 17 km leið utan vegar ásamt nokkurri hækkun. Eins og nafnið gefur til kynna er farið upp á öll fjöllin í Eyjum og er þetta bæði einstaklega skemmtileg ganga/hlaup og einstakt útsýni. Síðasta hlaupið í Eyjum er haldið fyrstu helgina í september ár hvert og er það Vestmannaeyjahlaupið. Það er götuhlaup þar sem bæði er keppt í 5 og 10 km hlaupum.“

Serbl_Myndatexti:Hér er Garðar að hlaupa í Volcano Trail Run árið 2016.mynd/aðsendSerbl_Myndatexti:

Markmiðin eru mikilvæg

Garðar byrjaði markvisst að hlaupa vorið 2016 með hlaupahópi Ármanns í Reykjavík. „Við vorum meira í götuhlaupum en tókum þó utanvegaræfingar aukalega sem heilluðu mig strax. Strax í byrjun sumars sama ár setti ég mér nokkur markmið sem ég tel vera mjög mikilvægt sem gulrót. Það má þó ekki gleymast að þó maður sé í keppni við sjálfan sig, þá þarf maður líka að hafa gaman á sama tíma.“

Fram undan er skemmtilegt hlaupasumar hjá Garðari. „Við höldum auðvitað áfram æfingum okkar hér í Eyjum en utan þess er ég búinn að skrá mig í Dyrfjallahlaupið í júlí þar sem ég hleyp 24 km og svo eru nokkur önnur hlaup í skoðun, til dæmis Volcano Trail Run sem haldið er í Þórsmörk í september en það er sérstaklega skemmtilegt að hlaupa þar enda einstaklega fallegt svæði. Hlaupahópurinn er búinn að tala um það frá upphafi að taka þátt í hlaupi erlendis og það er aldrei að vita hvað gerist með þá hugmynd í haust. Síðan verða einhver fleiri hlaup tekin í sumar og reikna ég með að halda mig meira utan vegar.“