Sigmundur Ernir Rúnarsson sendir frá sér ljóðabókina Skáldaleyfi á þessu hausti en hann á einmitt fjörutíu ára rithöfundarafmæli í ár. Um efni nýju ljóðabókarinnar segir hann: „Þar er ég að fjalla um núið sem við tökum ekki eftir vegna þess að við erum svo uppfull af hugsunum um morgundaginn og framtíðina. Við stöldrum aldrei við það sem er en erum jafnframt alltof upptekin af því sem var. Þetta er kannski helsti myllusteinninn um háls okkar.“

Þessi orð skáldsins hljóma eins og ljóðin séu tregafull. „Það verður alltaf að vera tregi í ljóðum, einhver angist og ef til vill sársauki,“ segir Sigmundur Ernir. „Ég hef alltaf reynt að yrkja í samræmi við minn eigin breyskleika og vanmátt. Það sem er nefnilega hvað áhugaverðast í öllu sem maður skrifar er hvernig manneskjan tekst á við sjálfa sig, umhverfi sitt, sína nánustu og samferðafólkið. Þar er komin ráðgátan eilífa. Þar fyrir utan er söknuðurinn sífellt umfjöllunarefni, svo og ástin og væntumþykjan, þær óútskýranlegu stöllur.“

Hvers konar söknuð á hann við, spyr blaðamaður, og fær svarið: „Söknuður yfir því liðna. Söknuður yfir að missa sína nánustu. Söknuður yfir því að geta ekki upplifað aftur það sem var manni dýrmætt. Ég held að söknuðurinn sé miklu stærri hluti af okkur en við viljum vera láta. Maðurinn er að mörgu leyti búinn til úr söknuði og ef hann getur unnið sæmilega úr honum er hann að mörgu leyti hólpinn.“

Í bókinni er einnig að finna náttúruljóð. „Ég er mjög elskur að landinu mínu, ferðast mikið og yrki um það,“ segir Sigmundur Ernir.

Ljóðsýn á lífið

Fyrsta ljóðabók hans kom út árið 1980 þegar hann var í menntaskóla. „Hún var myndskreytt af Kristni E. Hrafnssyni samstúdent mínum sem síðar varð landsfrægur myndhöggvari og myndlistarmaður. Næsta bók var líka myndskreytt af vini mínum úr MA, Þorvaldi Þorsteinssyni sem síðar varð landsfrægur myndlistarmaður, og þriðja bókin var gefin út af enn einum bekkjarbróður mínum, Óla Birni Kárasyni sem landsmenn þekkja úr þingmennskunni.

Fyrsta bókin var gefin út af Víkurblaðinu á Húsavík haustið 1980 en Jóhannes Sigurjónsson ritstjóri og Arnar Björnsson, síðar íþróttafréttamaður, ætluðu sér með henni að hefja viðamikla bókaútgáfu. En ljóðabókin Kringumstæður var fyrsta og síðasta bók sem Víkurblaðið gaf út,“ segir skáldið með skelmisglott á vör.

Sigmundur Ernir hefur sent frá sér á þriðja tug bóka af margvíslegu tagi, en aldrei sagt skilið við ljóðagerðina. „Alltaf þegar ég hef gefið út ljóðabók held ég að það sé síðasta ljóðabókin mín, ég sé orðinn uppurinn en nokkrum vikum seinna er ég byrjaður að yrkja aftur. Þetta er að einhverju leyti æfing, maður hefur ljóðsýn á lífið, gengur fram hjá ljósastaur og það verður ósjálfrátt efni ljóðs vegna þess að maður er búinn að kenna sjálfum sér að horfa þannig á umhverfið. Þetta er líka að einhverju leyti árátta, mjög sterk hneigð sem lætur mann ekki í friði, blessunarlega.“

Staldrar við hvert orð

Sigmundur Ernir er meðal annars höfundur fjölmargra ævisagna. Hann segir ljóðagerð allt annars eðlis en prósagerð. „Ljóðagerð er að því leyti öðruvísi en prósagerð að ég staldra miklu lengur við hvert orð og hverja hugmynd því ég vil hafa ljóðin meitluð. Fæst þeirra ljóða sem ég yrki rata á prent. Það er vegna þess að mér finnst að hvert ljóð þurfi að fanga eitthvert augnablik og galdur. Ef ljóð nær ekki að fanga eitthvað sem skilur eftir ágenga tilfinningu hjá lesendum, þá er það ekki gott ljóð.“

Hann er hæstánægður með stöðu ljóðsins í nútímanum. „Öll þess fjörutíu ár sem ég hef verið að yrkja og gefa út ljóðabækur hefur ljóðinu alltaf verið spáð dauða og alltaf meiri og hrikalegri örlögum eftir því sem áratugunum hefur fleygt fram. Núna þegar 20 ár eru liðin af nýrri öld hefur ljóðið sjaldan staðið í jafnmiklum blóma. Kröftug, metnaðarfull og góð ljóðskáld senda frá sér frumlegar og áleitnar bækur. Og vittu til, unga fólkið sinnir ljóðagerð sem aldrei fyrr. Þetta finnst mér svo gott vegna þess að án lýríkur er lífið lítils virði.“