Þetta eru þeir tíu staðir sem útlendingar eru hrifnastir af að heimsækja á Íslandi, samkvæmt erlendu ferðasíðunni TripAdvisor, þar sem ferðalangar gefa ólíkum upplifunum og stöðum einkunn.

Perlan

Perlan býður upp á ýmsar skemmtilegar upplifanir og sýningar. Þar er hægt að læra mikið um náttúru Íslands og njóta frábærs útsýnis.

Hringvegurinn

Að fara hringinn er klassísk upplifun sem flestir Íslendingar hafa einhvern tímann notið. Það er margt að sjá á okkar fallega landi og það er um að gera að fara reglulega hringinn og drekka í sig fjölbreytta upplifun.

Kerið er mikilfenglegur gígur í Grímsnesi.
FRÉTTABLAÐIÐ/EYÞÓR

Kerið

Kerið er mikilfenglegur gígur í Grímsnesi sem er alltaf gaman að heimsækja. Talið er að það sé leifar frá eldgosi sem átti sér stað fyrir um 6.500 árum.

Gunnuhver

Gunnuhver er fallegur hver á Reykjanesi. Það er áhugavert að hann sé í þriðja sæti þrátt fyrir að vera almennt ekki mjög umtalaður. Þangað er stutt að fara frá höfuðstaðnum og Keflavíkurflugvelli.

Gunnuhver er merkilega hátt á listanum. FRÉTTABLAÐIÐ/GVA

Harpa

Tónleika- og ráðstefnuhöllin Harpa er einstaklega falleg bygging í hjarta Reykjavíkur. Þar fara alls kyns tónleikar og viðburðir fram og þar eiga Sinfóníuhljómsveit Íslands, Íslenska óperan og Stórsveit Reykjavíkur heima.

Reynisfjara

Reynisfjara hefur aðallega fengið umfjöllun að undanförnu vegna mannskæðra slysa en fjaran er einn vinsælasti og fallegasti ferðamannastaður landsins. Dýralífið, bergið og öldurnar mikilfenglegu eru öll þessi virði að skoða.

Dýralífið, bergið og öldurnar mikilfenglegu í Reynisfjöru eru þessi virði að skoða.
FRÉTTABLAÐIÐ/VILHELM

Geysir

Geysir er einn þekktasti ferðamannastaður landsins og kannski bara skrítið að hann sé ekki ofar á listanum, því okkur Íslendingum finnst svo klassískt að fara með ferðalanga í dagsferð þangað og á Gullfoss, sem er ekki einu sinni á topp 10 lista TripAdvisor.

Goðafoss

Fossinn er þægilega staðsettur við hringveginn, skammt frá Akureyri. Hann er er einn af vatnsmestu fossum landsins og án vafa einn sá fallegasti. Hann er ólíkur í útliti eftir vatnsmagni, veðurfari og árstíð og sumum finnst hann jafnvel fallegri á veturna en sumrin.

Geysir er mikilfenglegur staður sem öllum finnst gaman að heimsækja. FRÉTTABLAÐIÐ/EYÞÓR

Hallgrímskirkja

Kirkjan, sem er sú stærsta á landinu, er eitt þekktasta kennileiti landsins og vel staðsett í miðborginni. Frá 73 metra háum turninum er frábært útsýni og fjöldi manns kemur þangað daglega til að njóta þess.

Þjóðminjasafnið

Safnið var stofnað árið 1863 og geymir um 2.000 menningarsögulega dýrgripi, meðal annars Valþjófsstaðahurðina frá því um 1200 og Þórslíkneskið, sem var gert í kringum árið 1000.