Viðurkenningin er veitt fyrir vel unnin störf í þágu atvinnureksturs kvenna, eða þeim sem hafa verið konum í atvinnulífinu sérstök hvatning.

„Það er alltaf gaman að fá viðurkenningar og FKA-viðurkenningin er mér mikilvæg. Ég vona að ég geti orðið öðrum konum, og líka körlum, hvatning til að halda áfram, því jafnvel þótt íslenskt samfélag sé lítið býður það upp á mörg tækfæri,“ segir Hafrún Friðriksdóttir, stolt af heiðrinum.

Hún ráðleggur yngri konum að grípa tækifærin þegar þau gefast og efast ekki um eigið ágæti.

„Ekki segja nei. Ég hef alltaf litið svo á að allir eigi að fá jöfn tækifæri og þegar margir keppa um sömu stöðu eigi hæfasti einstaklingurinn að fá starfið, burtséð frá litarhætti, kyni eða aldri. Ég hef aldrei verið hliðholl kvóta, hvorki kynjakvóta né öðrum kvótum. Og þrátt fyrir að ég fylgist ekki mjög mikið með íslensku atvinnulífi veit ég í stórum dráttum hvað er hér í gangi og er á þeirri skoðun að á Íslandi þurfi að meta reynslu meira en nú er gert. Þar sé ég stóran mun, samanborið við Bandaríkin og víðar í heiminum.“

Doktorsprófið breytti miklu

Hafrún ólst upp fyrir norðan, nánar tiltekið í Svartárdal í Austur-Húnavatnssýslu.

„Ég er miðjubarn í fimm systkina hópi. Því var mér auðvelt að vera ráðrík bæði upp og niður á við, eða hreinlega hverfa. Ég átti yndislega æsku og foreldrar mínir voru gott fólk sem nú eru bæði farin. Öll uppvaxtarárin bjuggu amma mín og afi líka á heimilinu og því var oft þröngt á þingi heima,“ segir Hafrún, sællar minninga.

Eftir heimavistarskóla uppvaxtaráranna fór Hafrún í Menntaskólann á Akureyri og vann ýmis störf til að ná endum saman.

„Í MA kynntist ég sambýlismanni mínum og eignaðist eldri son okkar tvítug. Efnafræði hafði alltaf verið mín sterkasta hlið í skóla og því ákvað ég að fara í lyfjafræði í Háskólanum þaðan sem ég útskrifaðist 1987. Þá var yngri sonur okkar einnig fæddur og var ekki endilega algengt í þá daga að vera með tvö ung börn á háskólaárunum en allt gekk það nú upp,“ segir Hafrún.

Orðin lyfjafræðingur flutti hún með fjölskylduna til Svíþjóðar og réði sig til starfa hjá lyfjaþróunarfyrirtækinu Gacell, dótturfyrirtæki Farmacia, en þegar til Íslands kom aftur, um áramótin 1990, hóf Hafrún störf við stundakennslu og rannsóknir við HÍ sem síðan leiddi hana í doktorsnám sem hún lauk fyrst kvenna úr lyfjafræðideild HÍ árið 1997.

„Það breytti miklu fyrir mig að ljúka doktorsprófinu. Í náminu lærði ég að vinna sjálfstætt og gefast ekki upp. Einnig var ég mjög heppin með leiðbeinandann minn, Þorstein Loftsson,“ segir Hafrún sem að doktorsnámi loknu fór beint til starfa hjá íslenskum lyfjafyrirtækjum og hefur síðustu áratugi stjórnað þróun á samheitalyfjum, lengst af hjá Actavis en fyrirtækið rann saman við Teva eftir yfirtöku lyfjarisans á Actavis í lok árs 2016.

Sér ekki eftir löngum vinnudögum

Teva er stærsti framleiðandi samheitalyfja í heiminum og er starfsstöð Hafrúnar hjá Teva í New Jersey í Bandaríkjunum. Undir Hafrúnu heyrir öll þróunarstarfsemi Teva á heimsvísu, bæði frumlyfja og samheitalyfja, um þrjátíu lyfjaþróunarsetur, 3.500 starfsmenn um allan heim og er hún ábyrg fyrir þróun og skráningu á um 1.100 samheitalyfjum, 13 samheitalíftæknilyfjum og um 25 frumheitalyfjum, sem aðallega eru ný líftæknilyf sem þróuð eru innanhúss.

„Þetta eru mjög spennandi tímar. Mikið af mínu starfi hefur farið í að hámarka afköst og láta fyrirtæki renna saman. Það hefur verið skemmtilegt að fá tækifæri til að vinna með og byggja upp teymi fólks frá öllum heimshornum og sem koma úr ólíkum aðstæðum og menningarheimum. Í teyminu mínu nú er fólk frá átta löndum og allt með ólíkan bakgrunn en okkur hefur tekist að vinna mjög vel saman og ná árangri.

Ég tel einn af mínum styrkleikum vera að ég hef gaman af því að vinna með fólki. Ég ætlast til þess sama af sjálfri mér og ég ætlast til af öðrum. Ég hef alltaf haft gaman af vinnunni og aldrei séð eftir því að vinna langan vinnudag.“

Hefðbundinn vinnudagur Hafrúnar er fjölbreyttur og segir hún vinnuna skemmtilega og krefjandi.

„Starfið hefur veitt mér tækifæri til að þroskast á svo marga vegu. Ég hef fengið tækifæri til að kynnast fólki hvaðanæva úr heiminum og endalausa möguleika á að skoða heiminn. Það hefur gefið mér kost á að takast á við verkefni sem ég hefði ekki getað ímyndað mér að mér byðust fyrir tíu til fimmtán árum.“

Stundum of óttalaus

Starf Hafrúnar er mestmegnis stjórnunarstaða.

„Ég aðstoða starfsfólk mitt við að taka ákvarðanir og fylgja eftir stöðu á fjölbreyttum þróunarverkefnum, bæði í grunnrannsóknum á frumlyfjum, líftæknisamheitalyfjum og samheitalyfjum. Starfið felst einnig í að reka þróunareininguna, forgangsraða og fylgja því eftir að við verjum peningum til umráða á réttan hátt, en Teva ver árlega um 120 til 130 milljörðum íslenskra króna til þróunar og rannsóknarstarfa.

Þá er ég í yfirstjórn félagsins þar sem ég vinn að stefnumótun, fjárhagsáætlunum og svo framvegis. Einnig stýri ég stjórnarfundum sem snúa að þróunartengdum málefnum, kynni þau fyrir stjórninni og ýmislegt fleira því tengt.“

En hvernig stjórnandi ætli Hafrún sé?

„Mitt mottó er að maður getur eingöngu ætlast til einhvers af öðrum sem maður sjálfur er tilbúinn að gera. Ég þykist viss um að undirmenn mínir segðu að ég væri fókuseruð, sanngjörn, ákveðin og fljót að taka ákvarðanir, og jafnvel þótt ákvarðanir mínar séu ekki endilega alltaf réttar er ég ekkert að dvelja við það heldur held ótrauð áfram.

Ég er óhrædd við að segja skoðanir mínar; jafnvel stundum of óttalaus.“

Kostur að vera öðruvísi

Í veganesti úr íslensku atvinnulífi hefur Hafrún með sér djörfung og dug.

„Það veganesti sem hefur nýst mér best er sú hugsun og óttaleysi sem var til staðar á Íslandi þegar ég var að byrja á vinnumarkaðnum; að maður geti það sem maður ætlar sér, ef viljinn er fyrir hendi.“

Hún óskar konum og öllum jafnréttis.

„Jafnrétti snýst um víðsýni og að vera tilbúin til að sjá hlutina frá mörgum hliðum. Að vera fær um að takast á við ólíka hluti og vinna úr þeim á besta mögulega hátt. Það er sigur. Að vera öðruvísi er eftirsóknarvert. Það er kostur, en ekki galli.“

Hún kveðst stoltust af því sem hún er að gera í dag.

„Já, ég vinn hjá frábæru fyrirtæki, með frábærum samstarfsaðilum og tækifærin eru óþrjótandi. Stærsta áskorunin var og er að gefast ekki upp heldur að halda áfram. Ég vona að ég sé ekki búin að ná hápunktinum á ferlinum og sé fyrir mér að fara í stjórnir fyrirtækja þegar ég fer að minnka við mig dagleg störf. Ég myndi gera þetta allt aftur án þess að hika.“