Níu líf

Tónlist og söngtextar: Bubbi Morthens

Leiktexti og leikstjórn: Ólafur Egill Egilsson

Útsetningar og tónlistarstjórnun: Guðmundur Óskar Guðmundsson

Danshöfundur: Lee Proud

Leikarar: Aron Már Ólafsson, Björn Stefánsson, Esther Talía Casey, Halldóra Geirharðsdóttir, Hjörtur Jóhann Jónsson, Jóhann Sigurðarson, Rakel Björk Björnsdóttir, Valur Freyr Einarsson, Baldur Björn Arnarsson, Gabríel Máni Kristjánsson og Hlynur Atli Harðarson

Leikmynd: Ilmur Stefánsdóttir

Búningar: Filippía I. Elísdóttir

Lýsing: Björn Bergsteinn Guðmundsson

Dramatúrg: Andrea Elín Vilhjálmsdóttir

Hljóð: Gunnar Sigurbjörnsson og Þórður Gunnar Þorvaldsson

Leikgervi: Elín Sigríður Gísladóttir

Dansarar: Katrín Mist Haraldsdóttir, Sólbjört Sigurðardóttir og Sölvi Viggósson Dýrfjörð

Hljómsveit: Aron Steinn Ásbjarnarson, Guðmundur Óskar Guðmundsson, Þorvaldur Þorvaldsson og Örn Eldjárn

Söngur: Kórar söngskólans Domus vox, Stúlknakór Reykjavíkur og Aurora

Við lifum á skrýtnum óvissutímum. Leikhúsið leitast stöðugt við að endurspegla samtímann eða gefa áhorfendum hvíldarpásu frá honum, stundum tekst bæði í einu. Glymskrattasöngleikurinn Níu líf byggður á lögum og lífi Bubba Morthens, einu heittelskaðasta söngvaskáldi þjóðarinnar, leitast einmitt við að slá tvær flugur í einu höggi; rýna í þjóðarsálina og hugga með hörkutónlist sem snert hefur marga um áratugaskeið. Ólafur Egill Egilsson, skrifar handritið og leikstýrir, og sýningin var frumsýnd rétt áður en leikhúsunum var skellt tímabundið í lás.

Skreytt með tónlist

Lífshlaup Bubba Morthens er stórbrotið, saga af manni sem hefur marga fjöruna sopið í takt við samfélag sem bæði elskar hann og elskar að hata. Ólafur Egill endurvarpar æviskeiði eins manns í fjölvídd, í flókinni uppfærslu, sem tekst á við dæmisöguna um mann í leit að sjálfum sér. Verkefnið er ærið og erfitt, stundum heppnast gjörningurinn en stundum ekki. Sýningin virkar best þegar hún er abstrakt og fókusinn er á ástand aðalpersónunnar frekar en lífsframvindu, þar má telja æsing Bubba á árum Utangarðsmanna og niðurbrot egósins eftir áralanga neyslu. Sömuleiðis er opnunaratriðið eftir hlé þegar Bubbi er á botninum í meðferð leyst afskaplega vel. En einföldun æskuáranna, verbúðarómantíkin og valhoppið yfir flóknu seinni árin skautar yfir efnið og skreytir með tónlist. Ólafur Egill er hæfileikaríkur leikstjóri, en allt of oft leysist sýningin upp í tónleikauppfærslu sem fjarlægist lífshlaupið og setur fókusinn frekar á tónleikaupplifunina.

Fjölföldun Bubba

Alls leika átta leikarar Bubba á mismunandi tímabilum. Þrír ungir leikarar fara með hlutverk Litla-Bubba en á frumsýningu var Hlynur Atli Harðarson í smáum skóm Bubba og stóð sig með prýði. Við honum tekur Rakel Björk Björnsdóttir sem Ungi-Bubbi, reiður ungur maður á flótta og Aron Már Ólafsson leiðir leikinn inn í fullorðinsárin sem Gúanó-Bubbi, maður sem er í baráttu við tilveruna, í leit að festu. Frammistaða beggja er fín sem og söngraddir en gallinn á fjölföldun Bubba er að hver leikari situr uppi með einfaldaða útgáfu af margslungnum einstaklingi.

Djöflarnir á baki Bubba, sem fylgja honum við hvert fótmál, eru Utangarðs-Bubbi og Egó-Bubbi, leiknir af Birni Stefánssyni og Halldóru Geirharðsdóttur. Samleikur þeirra er skemmtilegur og Björn er mergjaður í sínum tónlistarflutningi. Halldóra færir sýninguna á annað plan með túlkun sinni á niðurbroti Bubba. Hún er í senn Patti Smith, Andrea Jónsdóttir og Bubbi, táknmynd fyrir möguleikana sem efniviðurinn hefur upp á að bjóða og glötuðu tækifærin í sýningunni. Edrú-Bubbi, leikinn af Hirti Jóhanni Jónssyni, er tilfinningalega flóknasta útgáfan af söngvaranum. Meðferðaferðalag hans, brjálæðislegi tryllingurinn sem fylgir því að halda sér hreinum og fallið er á við heilt leikrit. Hjörtur Jóhann er afskaplega fær og byrjar vel í túlkun sinni á varnarleysi einstaklings á botninum en dettur síðan allt of fljótt í flatneskju poppstereótýpunnar.

Hlutverk kvenna

Góðæris-Bubbi í leik Jóhanns Sigurðarsonar stoppar stutt við en Jóhann nýtur sín best í þeim fjölmörgu smáu hlutverkum sem honum eru falin. Hvort sem það eru þekktir einstaklingar á borð við Þórarin Tyrfingsson og Davíð Oddsson eða nafnlausi verkstjórinn í frystihúsinu. Hann finnur hverjum karakter ólík blæbrigði, dettur ekki í eftirhermur og svo eru raddböndin auðvitað af dýrari gerðinni. Sátti-Bubbi sem Valur Freyr Einarsson leikur er sömuleiðis fremur einföld persóna á blaði, en Valur Freyr kveður áhorfendur í lok sýningar á ógleymanlegan máta.

Ekki verður af Esther Talíu Casey tekið að hún leysir hlutverk Grethe og Hrafnhildar, kvennanna í lífi aðalpersónunnar, af hlýju og samúð. En svo virðist vera að hlutverk kvennanna skipti einungis máli til að ýta sögu karlkynshetjunnar áfram. Slíkar kvenmýtur og madonnuímyndir eru þreyttar, þar sem konur birtast sem heilandi, huggandi og heilar, hinar birtingarmyndirnar eru hóran og hjálparhellan.

Heil herdeild af ungu og frambærilegu listafólki styður við sýninguna, þar má telja dansarana Katrínu Mist Haraldsdóttur, Sólbjörtu Sigurðardóttur og Sölva Viggósson Dýrfjörð, einnig taka þrír ungkvennakórar þátt, en þeir eru ekki virkjaðir nægilega vel fyrir utan að skrúfað er upp í ellefu á hátölurunum. Danshönnun Lee Proud gerir því miður lítið til að dýpka söguna, fyrir utan stórglæsilega túlkun hans á Rómeó og Júlíu.

Óreiðukennd hönnun

Svipaða sögu má segja um útsetningar og hljómsveitarstjórn Guðmundar Óskars Guðmundssonar. Mikið er lagt upp úr stuðinu og auðvitað er tónlistin frábær en af hverju ekki að túlka lögin alveg upp á nýtt, taka hugmyndafræði sviðsetningarinnar lengra og taka meiri áhættu?

Leikmyndahönnuðurinn Ilmur Stefánsdóttir kveður stóra svið Borgarleikhússins í bili en á síðustu árum hefur hún þróað með sér sérfræðiþekkingu á víddum rýmisins, þó tekst ekki nægilega vel til að þessu sinni. Sviðið virðist kalt og hönnunin óreiðukennd. Óreiðan einkennir líka búningahönnun Filippíu I. Elísdóttur en ljósi punkturinn er klárlega appelsínugula úlpan sem allir þekkja.

Níu líf verður vafalítið stór smellur fyrir Borgarleikhúsið og afkomumikill fyrir kassann. Maðurinn á bak við söguna er auðvitað Bubbi sjálfur, en þrátt fyrir tilraunir Ólafs Egils til að tengja saman lífshlaup hans og samtímasögu þjóðarinnar, heppnast ætlunarverkið allt of sjaldan. Hér er á ferðinni uppfærð útgáfa af glymskrattasöngleiknum sem þjóðin þekkir mætavel eftir sigurgöngu Ellýjar. En nú tekst leikurinn ekki jafn vel, þó að umgjörðin sé töluvert íburðarmeiri. Leikarahópurinn og tónlistin ráða hér ríkjum en sýningin dvelur meira í heimi tónleikauppfærslu frekar en að kafa í kjarna söguhetjunnar og þjóðarinnar.

Niðurstaða: Yfirborðskennd nálgun skreytt með dúndrandi tónlistarflutningi leikaranna sem lyfta sýningunni upp.