Þetta er skemmtilegt orðatiltæki og þýðir að grípa til úrræðis sem getur verið margháttuð meining á bak við. Flestir þekkja orðasamböndin að vera glaður í bragði eða að falla á eigin bragði svo dæmi séu tekin. Bragðið er notað í margvíslegri merkingu í tungumálinu og í raun og veru er sjaldnast verið að ræða bragðskynið sjálft sem er býsna flókið fyrirbæri. Það eru sumir sem hafa svokallað gott bragðskyn og þá er oftar en ekki um að ræða aðila sem geta greint mismunandi tegundir af kryddi í mat, skynja hvers kyns ber eða önnur bragðefni eru í víni, hafa skoðun á því hvað vantar í rétti til dæmis og þannig mætti lengi telja.

Það er vitaskuld þjálfun á bak við þetta eins og svo margt annað og eru fagmenn eins og kokkar eða vínsmakkarar og auðvitað áhugamenn miklir í þeirri stöðu að muna og þekkja á bragði og lykt það sem þeir neyta. Bragðskynið er byggt upp af nokkrum þáttum sem spila saman. Það er auðvitað tungan sem nemur sætt, súrt, beiskt og salt og svo umami sem er kallað „savory“ eða bragðmikið á ensku. Áferð skiptir miklu máli og hitastig þess sem neytt er og ekki má gleyma lykt sem er auðvitað numin í gegnum nefið fyrst og fremst. Bragðlaukarnir í tungunni og viðtakar í nefinu eru þeir sem skila þessum skilaboðum til heilans og meðvitundar okkar um það sem við erum að borða, drekka eða þefa af hverju sinni. Við skiljum þetta kerfi ekki enn að fullu en við vitum af reynslunni að það má tengja ýmsar minningar og upplifanir við bragðskynið.

Teitur Guðmundsson, læknir.

Það er því býsna merkilegt líka að ef upplifun, til dæmis af einhverju matarkyns, er þess eðlis að viðkomandi líður vel þegar hann fyrst kemst í kast við þann rétt, ef við einföldum þetta aðeins, þá eru allar líkur á því að hann eigi jákvæðar minningar bæði um matinn sjálfan og finni fyrir vellíðan við það eitt að hugsa til hans. Það má svo líka segja að þegar þess sama er neytt að nýju geti það kveikt minningar, bæði góðar og slæmar. Hver kannast ekki við að finna bragðið af matnum hennar mömmu, uppáhaldsréttinum, það kann að vera að maður geti ekki útskýrt það fyrir öðrum hvaða krydd eða jurtir, salt og pipar og svo framvegis voru notaðar, en þú hefur alist upp við bragðið og þekkir það um leið og þú kemst í snertingu við það aftur.

Í þessu samhengi er líka oft talað um „comfort food“ eða vellíðunarfæðu sem flestum þykir sjálfkrafa góð og hefur ekki neitt endilega með minningar að gera eða fyrri upplifun. Þar er verið að plata kerfið með samsetningum á fæðu sem er svo góð að nær allir eru tilbúnir að neyta hennar bragðsins vegna. Þarna erum við að tala um þær fullkomnu samsetningar fitu og sykurs eins og ís eða viðlíka. Það er líka merkilegt að í tengslum við bragð má ekki gleyma augunum því þau eru mjög mikilvægur þáttur í skynjun okkar. Þau gera okkur kleift á svipstundu að átta okkur á því hvort það sem fyrir framan okkur er eitthvað sem við viljum láta ofan í okkur, þekkjum af reynslu eða höfnum vegna þess að það vekur með okkur óhug.

Það að borða skordýr er ekki ýkja kræsilegt almennt, en þau eru eftir eldun oftar en ekki stökk og skel þeirra hörð undir tönn, en með réttu kryddi og sérstaklega ef maður ekki sér hvað er verið að borða, eru þau yfirleitt innbyrt með bestu lyst nú eða ef maður hefur smakkað þau áður og fundist gómsæt þá er maður reiðubúinn að borða þau aftur, rétt eins og aðra fæðu. Jamie Oliver sá frægi kokkur gerði tilraun á skólakrökkum og fékk þau til að borða grænmeti sem þeim fannst venjulega ekki gott eða spennandi. Hann breytti áferð, bragði og meira að segja lit og fékk þannig börnin til að borða holla fæðu sem þeim annars hefði ekki hugnast. Það er skemmtilegt að sjá þegar slíkt er gert og minnir okkur á hversu mikið aðalhlutverk heili og skynjun okkar spilar í því sem við borðum og drekkum ekki síður en það umhverfi sem við gerum slíkt í með tilvísun í eldhúsið hennar mömmu.