Frá því Stefán fékk bót meina sinna hefur hann verið duglegur að fræða karlmenn um krabbameinið og hefur tekið þátt í starfi krabbameinsfélagsins Framfarar, sem er með ráðgjöf og stuðning fyrir karla með krabbamein í blöðruhálskirtli og aðstandendur, í samstarfi við Félag þvagfæraskurðlækna, Krabbameinsfélagið og Ljósið.

„Það höfðu nokkrir í ættinni fengið krabbamein og dáið en ég á mest systur minni að þakka að ég fór í skoðun þar sem krabbameinið fannst. Hún hreinlega skikkaði mig og aðra til að fara í skoðun,“ segir Stefán.

„Systir mín greindist með krabbamein. Hún náði sér en það hvarf ekki. Hún greindist aftur og fékk meinvörp og lést fyrir átta árum síðan. Hún var baráttuglöð og mikill skörungur og hún hélt alltaf áfram að hamra á því þegar hún var sjálf mikið veik að ég og bræður mínir færum í skoðun,“ segir Stefán.

Stefán segist ekki hafa verið með nein einkenni áður en hann leitaði til læknis og lét kanna blöðruhálskirtilinn. „Ég bara dreif mig í skoðun. Þótt systir mín væri fallin frá þá vildi ég hlýða kalli hennar. Faðir minn lést úr krabbameini, ekki þó úr blöðruhálskrabbameini, en þá var þetta alltaf miklu meiri feluleikur,“ segir Stefán.

Hefði ekki mátt bíða lengur

Stefán segir að þegar hann greindist með krabbameinið hafi það verið á byrjunarstigi. „Ég var heppinn að fara í skoðun á þessum tímapunkti því þegar ég greindist var krabbameinið á frumstigi. Ég hefði ekki mátt bíða lengur, þá hefði þetta getað endað illa. Læknirinn sem tilkynnti mér að ég væri með krabbameinið sagði við mig: Nú erum við með vandamál. Hvernig leysum við það? Úr varð að ég fór í brottnám. Ég fór hvorki í geisla- né lyfjameðferð og ástæðan fyrir því var hversu snemma þetta greindist. Brottnámið átti sér stað þannig að það voru gerð göt á magann og tölvustýrð vél sá um að fjarlægja meinið. Á síðustu fimm árum hefur orðið gífurleg þróun í aðgerðum og eftirliti og þessi þróun mun halda áfram,“ segir Stefán.

Varst þú fljótur að ná þér eftir aðgerðina?

„Það tók sinn tíma að ná sér líkamlega. Ég var í ágætis æfingu þegar ég greindist en menn tala oft digurbarkalega um að taka þetta á kassann. Það er mikið sjokk að fá þær fréttir að þú sért með krabbamein. Ég heimsótti Ljósið sem er endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð fyrir fólk sem hefur fengið krabbamein og aðstandendur þess. Það var hreint og beint stórkostlegt að koma þangað. Aðstoðin, þekkingin, hugurinn og andinn þar gaf mér svo mikið,“ segir Stefán.

Margir eru einangraðir

Stefán segist hugsa til allra þeirra sem ekki fara í skoðun og gera það ekki nógu snemma. „Það sem fór illa í mig var að vita af öllum hinum sem ekki fara snemma í skoðun. Ég hugsa til þess hversu vel ég slapp frá þessu en er hugsi yfir þeim sem ekki leggja í að fara í skoðun. Ég fór að vinna fyrir Krabbameinsfélagið Framför og þar er verið að vinna eftir öllu sem mig langaði að gera og miklu fleira til. Við viljum ná til karlmanna, þeir fari snemma í skoðun og fái stuðning ef þeir greinast með krabbamein. Margir eru einangraðir og hafa ekki stuðning frá maka eða fjölskyldu og við verðum að ná til þeirra. Mín skilaboð eru skýr. Menn eiga að drífa sig í skoðun og það er ekki flókið. Við vitum að það er margir sem eru hræddir við að fara og óttast niðurstöðuna en þá er mikilvægt að styðja við bakið á þessum aðilum,“ segir Stefán.