Kvikmyndin A Star Is Born er vinsælli í kvikmyndahúsum hér á landi í þessari viku heldur en í fyrstu vikunni sem hún kom út en kvikmyndin var fyrst sýnd í kvikmyndahúsum fyrir meira en mánuði, þann 5. október síðastliðinn. Þetta staðfestir Þorvaldur Árnason, framkvæmdastjóri Samfilm, í samtali við Fréttablaðið.

Þorvaldur segir að mjög óvenjulegt sé að vinsældir myndar fari vaxandi í hverri viku en venjulega gerist hið gagnstæða. Mikil eftirvænting keyri aðsókn upp til að byrja með, sem fjari svo hægt og bítandi út. Greinilegt sé að mikið umtal hafi haft sitt að segja um vinsældir myndarinnar.

„Hún í rauninni opnar í fjórða sæti en í fjórðu viku er hún komin í fyrsta sæti. Hún bara stækkar með hverri viku og þrátt fyrir að Bohemian Rhapsody komi inn, sem er mjög vinsæl og er kannski beint að samskonar hóp, hefur myndin lítið lækkað í vinsældum.“

Þorvaldur segir að vinsældir myndarinnar komi sér skemmtilega á óvart en yfir 30 þúsund Íslendingar hafa nú séð myndina.

„Þetta hefur komið skemmtilega á óvart og það virðist vera að fólk líki myndin og maður heyrir af því að það séu margir að koma í annað sinn og meira að segja sumir í þriðja sinn.

Í fyrstu vikunni sinni var hún í fjórða sæti, í þeirri næstu fór hún upp í þriðja, svo í annað sætið, þar til hún vermdi fyrsta sætið. Í síðustu viku fór hún svo aftur í annað sætið og er núna í því þriðja.

Maður auðvitað bjóst við því hún myndi falla í aðsókn eins og venjan er á milli helga en svo bætir hún bara við sig. Síðustu helgi voru til að mynda einungis 12 prósent færri gestur heldur en helgina áður, sem er ótrúlegt á sjöttu viku. Í sjöttu viku er hún til dæmis ennþá vinsælli en í fyrstu vikunni.“

Sjá einnig: Aðstoðaði Lady Gaga fyrir A Star Is Born

Það eru ekki bara íslenskir bíógestir sem að kunna að meta myndina en hún hefur einnig verið gífurlega vinsæl vestanhafs og hefur hún halað inn meira en hundrað milljónir dollara í viku hverri síðan þann 5. október og hafa vinsældirnar farið vaxandi.

Þá er jafnframt búist við afrekum af myndinni á komandi Óskarsverðlaunum en veðbankar spá myndinni góðu gengi. Myndin skartar þeim Lady Gaga og Bradley Cooper í aðalhlutverkum og liggur leið persóna þeirra saman með óvæntum hætti en Lady Gaga hefur meðal annars rætt um það hversu mikið hún tengir við persónu sína Ally í myndinni.

Í þessu skemmtilega viðtali fyrir neðan má sjá leikarana tala saman um hlutverkin og lögin í myndinni.