Íslendingar eiga þess kost að fljúga til Mílanó, Rómar, Napólí, Bologna og Veróna, sem skapar mikið svigrúm til að ferðast vítt og breitt um landið. Ítalía skartar mörgum ótrúlega fögrum stöðum og flestir sem fara einu sinni fara þangað aftur.

Einn af þeim stöðum sem hafa verið mjög vinsælir er eyjan Ischia sem liggur úti fyrir Napólí. Það eru ekki bara Íslendingar sem leggja leið sína þangað því það gerir fólk hvaðanæva í heiminum. Ástæða þess er ekki bara sú hversu falleg eyjan er og einstök paradís heldur voru það sjónvarpsþættirnir og bækurnar um Framúrskarandi vinkonur sem vöktu áhuga á Ischia. Eyjan var vinsæll sumarleyfisstaður Napólíbúa fyrr á árum eins og kemur fram í þessum vinsælu sögum.

Glæsilegir litlir bæir þar sem vinkonurnar frá Napólí fóru í sumarfrí.

Höfundurinn, Elena Ferrante, hefur vakið alþjóðlega athygli fyrir skrif sín um vinkonurnar. Eyjan Ischia er oft nefnd í fyrstu tveimur bókunum. Hægt er að fara í sérstaka ferð til Ischia þar sem fetað er í fótspor söguhetjanna. Ferðamenn eru sóttir á hótelið þar sem þeir dvelja eða við höfnina þar sem báturinn kemur að landi og ekið er á þá staði sem koma fyrir í bókunum og þáttunum. Þessar ferðir eru vinsælar og taka um hálfan dag. Eftir ferðina er hægt að setjast inn á einn hinna fjölmörgu veitingastaða en maturinn á eyjunni þykir einstaklega góður.

Ischia er kölluð græna eyjan hjá Ítölum.

Græna eyjan

Ischia er friðsæl eyja í Tyrrenahafi sem er hafsvæði í Miðjarðarhafi milli vesturstrandar Ítalíu og eyjanna Korsíku, Sardiníu og Sikileyjar. Ischia býður upp á hugljúfan skammt af ítalskri fegurð. Nokkur lúxushótel hafa risið upp á eyjunni þar sem er hægt að baða sig í hverauppsprettum, heilsulindum og heitum lækjum. Erlendir ferðamenn hafa fremur heillast af Capri og Amalfiströndinni en nú er Ischia komin á vinsældalistann með sínum óspilltu ströndum. Þarna má sjá ítalskar ömmur hengja út þvottinn sinn eða íbúa þeysa fram hjá á vespum, lífið hefur að sumu leyti staðið í stað á eyjunni.

Uppgangurinn hefur þó verið mikill á Ischia sem Ítalir kalla grænu eyjuna. Það er ekki síst að þakka vinkonunum frá Napólí. Á eyjunni eru nokkrir mjög áhugaverðir staðir eins og miðaldakastalinn Aragónska sem situr á eldfjallabergi en ganga þarf eftir langri göngubrú til að komast að honum. Þá mun sólsetrið vera einstaklega fallegt frá Ischia og þar eru margar spennandi gönguleiðir fyrir útivistarfólk. Afar glæsilegur grasagarður er í La Mortella en hann var gerður af Susana Walton, eiginkonu enska tónskáldsins Williams Walton. Þar eru oft stórar veislur eða tónleikar. Fullkomin fegurð gróðursins og ægifagurt útsýni yfir flóann.

Þótt flestir bæirnir liggi við ströndina er fiskur ekki aðalfæðan heldur kanínupottréttur sem er sannkallaður þjóðarréttur á þessum stað. Íbúar sérhæfa sig í „slow food“ sem byggir á hollum mat úr næsta nágrenni. Ef gestir ætla að fá fræga kanínupottréttinn þurfa þeir að panta fyrirfram.

Frábær veitingahús

Tveir Michelin-stjörnustaðir eru á eyjunni, á Dani Maison sýnir margverðlaunaður matreiðslumaður, Nino Di Costanzo, ótrúlega takta í hæfileikum með gæðaréttum sem líta út eins og listaverk. Á Indaco-veitingastaðnum sem er staðsettur við sjóinn hjá Regina Isabella hótelinu leggur Michelin-stjörnukokkurinn Pasquale Pakamaro áherslu á sjálfbæran mat og vekur athygli fyrir frumlegar tilraunir sínar í sýrðum sjávarréttum.

Ischia var um aldir heimili listamanna sem fengu innblástur fyrir verk sín í þessu friðsæla og fallega umhverfi, hvort sem þeir voru að mála, skrifa, semja tónverk eða höggva út listaverk. Hvort þeir séu enn að störfum á eyjunni skal ósagt látið en sannarlega er ástæða til að heimsækja Ischia einhvern tíma þegar til Ítalíu er komið.