Gabríela Friðriksdóttir og Björn Roth sýna saman á sýningunni Sporbaugur í Listasafni Reykjanesbæjar. Listamennirnir vinna þar með litabækur. Vídeóverk eru einnig á sýningunni. Um þema sýningarinnar segir Gabríela:
„Þegar við settumst niður á fyrsta fundinum sagði ég: Mig hefur alltaf langað til að gera litabók. Þá sagði Bjössi: Frábært.“
„Þegar ég var strákur gerði pabbi (Dieter Roth) litabók fyrir mig. Í þá daga voru litabækur vinsælar hjá börnum en honum leist ekki á þær litabækur sem ég var að reyna að verða mér úti um, þannig að hann bjó til sérstaka litabók fyrir mig. Ég man að hún var dálítið sérkennileg,“ segir Björn.
„Ég dýrkaði litabækur þegar ég var lítil og hef litað í ógrynni af þeim. Ég man eftir litabókum sem voru með hrollvekjandi myndum, eins og af börnum með undarlegt bros, það var eins og það lægi eitthvað síkraumandi þar undir,“ bætir Gabríela við.
Um myndirnar á sýningunni segir hún: „Myndir okkar eru gjörólíkar. Ég er með fígúratífar myndir, Björn fer meira út í abstraktið.“

Í móttökunni
„Það er erfitt að lýsa mínum myndum, það verður bara að horfa á þær. Ég get ekki útskýrt hvað ég er að gera, ég bara geri eitthvað. En einhvern veginn fúnkera myndir mínar og Gabríelu saman. Það er nú einu sinni svo að svipað þenkjandi fólk lendir á sama sporbaug. Ég gerði meira að segja eina mynd undir áhrifum frá Gabríelu,“ segir Björn.
„Björn segir að myndirnar hans verði bara til og það sama gerist hjá mér. Það virðist kannski eins og ég sé búin að ákveða mjög mikið, en hugmyndirnar koma eins og af sjálfu sér. Svo er ég bara í móttökunni,“ segir Gabríela.
Í tilefni sýningarinnar kemur út bók sem er bæði sýningarskrá og litabók. Í sýningarsalnum eru borð og stólar og vitanlega litir þar sem fólk getur litað. „Það verður hægt að prenta út myndir fyrir gesti og svo er litabókin til sölu,“ segir Gabríela.
„Myndir okkar eru gjörólíkar. Ég er með fígúratífar myndir, Björn fer meira út í abstraktið.“
Gott andrúmsloft
Auk myndanna sýnir Gabríela tvö vídeóverk. „Önnur myndin er Deplar, glæný teiknimynd gerð úr blekmyndum. Franskur vinur minn klippti myndina. Svo er eldra vídeóverk sem nefnist Kofahiti, Cabin Fever, sem hefur ekki verið sýnt á Íslandi og var gert á Korsíku fyrir frönsku forsetakosningarnar fyrir fjórum árum. Þar er fjallað um ofgnótt frétta og falsfréttir. Gömul prentvél frá Heidelberg er í aðalhlutverki.“
Gabríela og Björn hafa þekkst lengi en þetta er í fyrsta sinn sem þau vinna saman að sýningu. Þau segja samstarfið hafa verið einstaklega skemmtilegt. Björn segir hafa verið gott að vinna í safninu. „Maður hefur oft lent í því að vinna í sölum þar sem enginn vill leyfa manni að gera það sem maður vill. Hérna er það allt öðruvísi, andrúmsloftið er gott og maður fær að gera það sem maður vill.“