Gabríela Frið­riks­dóttir og Björn Roth sýna saman á sýningunni Spor­baugur í Lista­safni Reykja­nes­bæjar. Lista­mennirnir vinna þar með lita­bækur. Vídeó­verk eru einnig á sýningunni. Um þema sýningarinnar segir Gabríela:

„Þegar við settumst niður á fyrsta fundinum sagði ég: Mig hefur alltaf langað til að gera lita­bók. Þá sagði Bjössi: Frá­bært.“

„Þegar ég var strákur gerði pabbi (Dieter Roth) lita­bók fyrir mig. Í þá daga voru lita­bækur vin­sælar hjá börnum en honum leist ekki á þær lita­bækur sem ég var að reyna að verða mér úti um, þannig að hann bjó til sér­staka lita­bók fyrir mig. Ég man að hún var dá­lítið sér­kenni­leg,“ segir Björn.

„Ég dýrkaði lita­bækur þegar ég var lítil og hef litað í ó­grynni af þeim. Ég man eftir lita­bókum sem voru með hroll­vekjandi myndum, eins og af börnum með undar­legt bros, það var eins og það lægi eitt­hvað síkraumandi þar undir,“ bætir Gabríela við.

Um myndirnar á sýningunni segir hún: „Myndir okkar eru gjör­ó­líkar. Ég er með fígúra­tífar myndir, Björn fer meira út í ab­straktið.“

Myndir lista­mannanna eru hlið við hlið. Gabríela gerði stærri myndirnar og þær minni eru eftir Björn.
Fréttablaðið/Anton

Í mót­tökunni

„Það er erfitt að lýsa mínum myndum, það verður bara að horfa á þær. Ég get ekki út­skýrt hvað ég er að gera, ég bara geri eitt­hvað. En ein­hvern veginn fúnkera myndir mínar og Gabríelu saman. Það er nú einu sinni svo að svipað þenkjandi fólk lendir á sama spor­baug. Ég gerði meira að segja eina mynd undir á­hrifum frá Gabríelu,“ segir Björn.

„Björn segir að myndirnar hans verði bara til og það sama gerist hjá mér. Það virðist kannski eins og ég sé búin að á­kveða mjög mikið, en hug­myndirnar koma eins og af sjálfu sér. Svo er ég bara í mót­tökunni,“ segir Gabríela.

Í til­efni sýningarinnar kemur út bók sem er bæði sýningar­skrá og lita­bók. Í sýningar­salnum eru borð og stólar og vitan­lega litir þar sem fólk getur litað. „Það verður hægt að prenta út myndir fyrir gesti og svo er lita­bókin til sölu,“ segir Gabríela.

„Myndir okkar eru gjör­ó­líkar. Ég er með fígúra­tífar myndir, Björn fer meira út í ab­straktið.“

Gott and­rúms­loft

Auk myndanna sýnir Gabríela tvö vídeó­verk. „Önnur myndin er Deplar, glæ­ný teikni­mynd gerð úr blek­myndum. Franskur vinur minn klippti myndina. Svo er eldra vídeó­verk sem nefnist Kofa­hiti, Ca­bin Fe­ver, sem hefur ekki verið sýnt á Ís­landi og var gert á Korsíku fyrir frönsku for­seta­kosningarnar fyrir fjórum árum. Þar er fjallað um of­gnótt frétta og fals­fréttir. Gömul prent­vél frá Heidel­berg er í aðal­hlut­verki.“

Gabríela og Björn hafa þekkst lengi en þetta er í fyrsta sinn sem þau vinna saman að sýningu. Þau segja sam­starfið hafa verið ein­stak­lega skemmti­legt. Björn segir hafa verið gott að vinna í safninu. „Maður hefur oft lent í því að vinna í sölum þar sem enginn vill leyfa manni að gera það sem maður vill. Hérna er það allt öðru­vísi, and­rúms­loftið er gott og maður fær að gera það sem maður vill.“