Þegar söngvarinn Friðrik Ómar leiddi rokkarana Bergsvein Arilíusson og Stefán Jakobsson saman fyrir sjö árum tókust með þeim svo miklar rjúpuástir að nú fara þeir árlega saman á rjúpu á heimavelli Stefáns í Mývatnssveit.

„Þetta er sjöunda árið í röð,“ segir Bergsveinn, betur þekktur sem Beggi í Sóldögg, um veiðiferðina norður í Mývatnssveit þar sem hann veiðir í Búrfellshrauni, paradís rjúpnaveiðimannsins. Hann og Stefán Jakobsson, rokkari allra landsmanna í Dimmu, hafa undanfarin sjö ár verið óaðskiljanlegir einu sinni á ári.

„Það er eiginlega Friðriki Ómari að þakka að þetta veiðifélag varð til. Það er svo magnað, ég held að hann sé ekkert í skotveiði en hann setti saman sýningu til heiðurs U2 fyrir tja, sjö árum síðan örugglega og þar bara kynntumst við Stefán í fyrsta skiptið,“ útskýrir Beggi um tilurð veiðifélagsins.

Stefán á heimavelli.

Beggi segir þetta hafa verið mikinn happafund en Stefán er landeigandi að Búrfellshrauni og hefur gengið til rjúpna síðan hann var smápolli. Þekkir nánast hvern hól og hverja þúfu í úfnu hrauninu.

„Ef ég man rétt þá var þetta akkúrat á þeim tíma sem rjúpnaveiðitímabilið var að byrja og hann rekur augun í það að ég er eitthvað að hreyfa mig og er svona rjúpulegur og þá fer hann að spyrja mig út í þetta og úr verður Veiðifélagið Han,“ segir Beggi laufléttur.

Hann segir veiðina í ár hafa verið góða en ferðin snúist um svo miklu meira. „Þetta gengur alltaf vel. Það fléttast inn í þetta villibráðarhlaðborð og við gerum vel við okkur á hverju ári og þetta er mikil gæðastund,“ segir Beggi. Þá skemmi náttúrufegurðin ekki fyrir.

„Það þarf ekkert að ræða það að Mývatnssveit er fallegasti staður á landinu og jafnvel þótt víðar væri leitað. Þetta er orðið stór hluti af aðventunni,“ segir Beggi. Hann segist eiga Friðriki Ómari margt að þakka en telur ólíklegt að sá dúnmjúki söngfugl myndi þiggja boðið.

„Það hefur ekki einu sinni verið rætt hvort hann eigi að koma með. Ég held reyndar að hann hafi lítinn áhuga á skotveiði, ef nokkurn,“ segir Beggi í Sóldögg, hlæjandi.