Afmælissýning félagsins Íslensk grafík stendur yfir í Norræna húsinu. Þar eru sýnd verk eftir 46 félagsmenn, en félagið fagnar hálfrar aldar afmæli sínu.

„Verkin eru flest unnin á þessu ári eða síðasta. Verk hvers listamanns geta verið eitt stakt verk eða upp í fjögur til fimm ef um seríu er að ræða. Það er mikill fjölbreytileiki í sköpun listamannanna,“ segir Elísabet Stefánsdóttir sem er formaður félagsins. „Á sérvegg eru síðan valin verk eftir heiðursfélaga sem eru átta talsins, listamenn sem hafa að mati stjórnar skarað fram úr í grafíklistinni og eða unnið vel unnin störf fyrir félagið, þar á meðal er Einar Hákonarson sem stofnaði þetta félag fyrir 50 árum. Nýjasti heiðursfélaginn er Magdalena Margrét Kjartansdóttir.“

Verkin á sýningunni eru unnin með ýmsum aðferðum grafíklistarinnar. „Í grafík eru notaðar afar fjölbreyttar aðferðir til að vinna verk, allt frá dúk- og tréristum upp í mjög flóknar aðferðir með tölvutækni. Áður var silkiþrykkið og tréristan það sem þekktast var en það er komið mjög mikið af nýjum aðferðum sem við í grafíkinni lærum af grafíklistamönnum sem koma að utan, vegna þess að lítil sem engin grafík er kennd lengur í myndlistarnámi á Íslandi,“ segir Elísabet.

Nýjar aðferðir kenndar

Þegar blaðamaður leitar skýringa á þessu segir Elísabet: „Þegar Listaháskólinn var stofnaður árið 1999 fór fyrsti árgangur nemenda hver í sína deild, eins og málun, grafík, fjöltækni og svo framvegis, en það breyttist árið eftir þegar þeir nemendur sem þá voru teknir inn fóru annaðhvort í myndlist eða hönnun og sérþekkingin í grafíkinni ekki í boði. Ég var svo lánsöm að vera í þessum fyrsta árgangi, þannig að ég fékk kennslu í grafík í Listaháskólanum og tel mig ríkari fyrir vikið. Það var mikill heiður að læra þessa aðferð af meisturum sem flestallir eiga verk á sýningunni.“

Spurð hvort þessi staða leiði ekki til þess að það fjari undan grafíkinni sem eigi jafnvel á hættu að deyja út segir Elísabet: „Við óttumst það og þess vegna hefur félagið verið að styrkja sig með því að fá hingað til lands erlenda grafíklistamenn sem kenna félagsmönnum nýjar aðferðir sem við miðlum áfram með námskeiðum í húsnæði okkar í Hafnarhúsinu fyrir myndlistarmenn, kennara og almenning. Grafíklistamenn vilja allir læra það nýjasta nýtt í grafíklistinni og bæta við sína þekkingu.“

Ævintýralegt ferli

Elísabet segir almenning hafa mikinn áhuga á grafík. „Þegar fólk fær að komast í tól og tæki hjá okkur þá er það óstöðvandi því grafík er svo bráðsmitandi skemmtileg. Við verðum með grafíksmiðjur fyrir börn sem verða hluti af sýningunni í tengslum við Barnamenningarhátíð í samvinnu með Norræna húsinu. Börn hafa mjög gaman af grafík, eins og þeir fullorðnu. Grafíkferlið er ævintýralegt og fólki finnst spennandi að upplifa það óvænta í útkomunni.“

Myndir á sýningunni í Norræna húsinu.