Þorbjörg Höskuldsdóttir sýnir málverk í Ottó matur & drykkur á Höfn í Hornafirði. „Guðrún Erla Geirsdóttir listfræðingur falaðist eftir sýningu. Ég á nóg af myndum en þær eru of stórar fyrir sýningarplássið sem er þarna, þannig að ég ákvað að gera myndir sérstaklega fyrir sýningu. Fyrir einhverjum árum var ég að ferðast um þetta svæði og tók þá mikið af ljósmyndum. Ég hafði þær ljósmyndir til hliðsjónar þegar ég byrjaði að mála fyrir sýninguna og setti síðan fugla inn á nokkrar myndanna. Það má segja að ég hafi farið á flug,“ segir Þorbjörg.

Landslag og það manngerða

Hún er orðin áttræð og málar reglulega. „Það er ekkert erfiðara fyrir mig að mála núna en fyrir einhverjum árum,“ segir hún. Það er yfirleitt auðvelt að þekkja myndir hennar því þar eru iðulega tíglagólf og súlur innan um íslenskt landslag. „Við mennirnir ráðumst mikið á landslagið og allt í kringum okkur. Í myndum mínum blanda ég því manngerða inn í landslagið, ég hef alla tíð haldið mig við það. Þarna eru tíglagólf og súlur sem eru hluti af menningarlegri fortíð,“ segir hún.

Þorbjörg segist snemma hafa byrjað að teikna og mála. „Ég kunni náttúrlega ekkert og fékk ekki þá kennslu sem margir krakkar fá í dag. Svo fór ég að vinna í Glit, leirkeraverkstæðinu hjá Ragnari Kjartanssyni og á kvöldin var ég í Myndlistarkólanum. Síðan fór ég í nám í Konunglegu dönsku akademíunni, kom heim árið 1971 og hélt mína fyrstu sýningu árið eftir í Gallerí SÚM.“

Arftaki Kjarvals

Ferillinn hefur verið langur. „Ég get ekki kvartað, mér finnst ég hafa notið sannmælis,“ segir Þorbjörg. „Þegar ég byrjaði voru miklu færri konur í myndlistinni en nú er. Ég þekkti fullt af strákum sem voru áberandi í myndlistinni og þeir tóku mér aldrei öðruvísi en vel. Hins vegar þótti mörgum fáránlegt að ung kona ætlaði að leggja fyrir sig myndlist. Það var sagt við móður mína: Af hverju stopparðu ekki manneskjuna og lætur hana gifta sig?“

Sem betur fer lét hún ekkert stoppa sig. Hún hefur haldið um tuttugu einkasýningar og tekið þátt í fjölmörgum samsýningum. Verk hennar er að finna í öllum helstu listasöfnum landsins. Frá árinu 2006 hefur hún verið í heiðurslaunaflokki íslenskra listamanna.

Um Þorbjörgu skrifaði Ásdís Ólafsdóttir listfræðingur eitt sinn: „Þorbjörg sér meira í íslenskri náttúru en venjulegt auga nemur og má því að vissu leyti telja hana arftaka Jóhannesar Kjarvals.“

Fuglamynd á sýningunni.