Í fyrstu verða allir hræddir þegar aðstandandi greinist með krabbamein. Við tölum því um óttann og horfum ákveðið til vonarinnar því krabbamein þarf ekki endilega að fara á versta veg. Í æ fleiri tilvikum er hægt að vinna bug á sjúkdómnum, en krabbameini fylgir óvissa og það er erfitt að lifa í óvissu.“

Þetta segir Kristín Berta Guðnadóttir, félagsráðgjafi, fjölskylduráðgjafi og jógakennari. Kristín er leiðbeinandi á tveimur nýjum námskeiðum Ljóssins sem ætluð eru unglingum á aldrinum 14 til 16 ára og ungmennum á aldrinum 17 til 20 ára. Meðleiðbeinandi Kristínar á námskeiðinu er Ögmundur Þorgrímsson, nemandi í félagsráðgjöf. 

„Námskeiðin eru ókeypis og opin öllum unglingum og ungmennum sem eiga náinn aðstandanda sem greinst hefur með krabbamein. Það geta verið foreldrar, systkini, ömmur og afar, frændur, frænkur og vinir,“ útskýrir Kristín.

Á námskeiðunum er farið yfir hvað gerist í fjölskyldum þegar einn innan fjölskyldunnar veikist, en Kristín hefur mikla reynslu af vinnu með börnum og ungmennum sem lent hafa í áföllum.

„Við tjöldum öllu til á námskeiðinu,“ segir Kristín. „Við förum í ýmsa gagnlega fræðslu og veitum unga fólkinu dugandi verkfæri til að takast á við erfiðleika og hafa betri stjórn á hugsunum sínum. Við notum líka sköpunarkraftinn til listsköpunar en slíkt losar um streitu og veitir hugarró. Þá förum við í hugleiðslu, jóga og hópefli og í síðasta tímanum pöntum við pítsu og fáum leikara í heimsókn til að vinna með okkur spunaverkefni,“ upplýsir Kristín en námskeiðin fara fram á fimm mánudagskvöldum.

Styrkur að standa ekki einn

Markmið nýrra námskeiða Ljóssins er að þróa þau áfram í samstarfi við þátttakendur.

„Krakkarnir geta þannig lagt fram spurningar sem þau skortir svör við og sett fram tillögur um umfjöllunarefni,“ segir Kristín. „Við leggjum líka ríka áherslu á að hafa gaman. Það er áhrifamikið fyrir ungt fólk að hitta aðra í sömu stöðu og vita að maður er ekki einn. Í því felst styrkur að heyra í öðrum krökkum og vera í hópi með jafnöldrum sem ganga í gegnum sömu hluti, hugsanir og tilfinningar.“

Kristín kemur einnig að námskeiðinu sem aðstandandi.

„Ég veit hvernig það er að vera aðstandandi þess sem er krabbameinsveikur. Þess vegna veit ég líka að þrátt fyrir áfallið, erfiðustu tímabilin og þótt alvaran sé yfir öllu, má maður halda áfram að hlæja, lifa og hafa það gaman. Það er nefnilega erfitt að lifa með stöðugar áhyggjur af framtíðinni og því sem við getum ekki stjórnað. Því förum við yfir aðferðir sem hjálpa krökkunum að vera hér og nú og njóta lífsins áfram, því við höfum enga stjórn á því hvað gerist á morgun. Einmitt þess vegna er svo gott að fara á stað þar sem við getum hlegið og gert skemmtilega hluti meðfram góðri fræðslu, og við höfum þetta á léttum nótum.“

Öflug verkfæri við vanlíðan

Orðið krabbamein veldur sumum ungmennum kvíða og vanlíðan.

„Við tölum því um streituna og kvíðann sem fylgir álaginu við það að náinn ástvinur er veikur. Helstu spurningar sem kvikna eru: Hvers vegna fær maður krabbamein? Hvernig get ég tekist á við kvíðann? Hvernig get ég tekist á við vanlíðan mína í þessum aðstæðum? Verkfærin sem við veitum til þess eru öflug, gerð til þess að takast á við streitu og tilfinningar, og unglingarnir tala um að þau geti líka notað þau í öðrum aðstæðum lífsins, yfirfært þau á aðra hluti og að þeim liði svo sannarlega betur.“

Næsta námskeið hefst mánudaginn 23. apríl og er aðgangur sem fyrr segir ókeypis.

„Við hvetjum ungt fólk á aldrinum 17 til 20 ára til að koma á næsta námskeið og foreldra til að segja sínu unga fólki frá námskeiðinu. Við viljum endilega fá sem flesta og það gerir öllum gott að vera á meðal annarra sem standa í sömu sporum og hitta fagfólk til að uppskera betri líðan og meiri gleði. Námskeiðið er á jákvæðum, uppbyggjandi og styrkjandi nótum og unga fólkið fær vettvang til að ræða málin og úrræði sem gagnast þeim til að geta liðið sem best í erfiðum aðstæðum.“

Nánari upplýsingar um námskeiðin og skráningar á ljosid.is

Hvað hafa þau að segja um námskeiðið?

Fannar Þórir Samúelsson

Af hverju ákvaðst þú að fara á þetta námskeið hjá Ljósinu?

Ég ákvað að fara vegna þessi að ég er aðstandandi og vildi læra meira.

Hvernig nýttist námskeiðið þér?

Námskeiðið nýttist mjög vel. Ég fékk að vita það sem ég vildi vita og svo var þetta líka gaman.

Myndirðu mæla með því við aðra krakka í svipuðum aðstæðum?

Já, ég mæli með þessu námskeiði. Það er bæði fræðandi og skemmtilegt, og gæti hjálpað mörgum.

Garðar Máni Ágústsson

Af hverju fórstu á námskeiðið hjá Ljósinu?

Vegna þess að litli bróðir minn greindist með krabbamein og mér leið illa. Fannar, vinur minn, sagði mér frá námskeiðinu og ég ákvað að prófa.

Hjálpaði námskeiðið þér eitthvað?

Já, það reif mig upp að fara á þetta námskeið og það var gott að tala um það sem er búið að vera í gangi og hitta aðra í sömu sporum. Ég lærði að fólk er að lenda í því sama. Ég fór að geta einbeitt mér meira og hætti að einblína eingöngu á það neikvæða. 

Myndir þú mæla með þessu námskeiði fyrir aðra?

Að sjálfsögðu, ef þeim líður illa. 

Camilla Hjördís Samúelsdóttir

Hvers vegna ákvaðstu að fara á námskeið Ljóssins?

Vegna þess að afi minn, sem greindist með krabbamein fyrir rúmu ári síðan, benti okkur Fannari bróður mínum á þetta námskeið. Mér þótti námskeiðið áhugavert og hélt að það gæti hjálpað mér að takast á við veikindi afa míns.

Hvernig nýttist námskeiðið þér? 

 Það nýttist mér mjög vel og var virkilega hjálplegt. Ég nota sumt af því sem okkur var kennt á námskeiðinu í daglegu lífi og mér líður betur að tala um krabbamein við aðra. Áður en ég fór á námskeiðið fékk ég kvíðahnút í magann við það eitt að heyra orðið krabbamein. Námskeiðið var líka mjög skemmtilegt og við fengum að kynnast fleira fólki í sömu aðstæðum.

Myndirðu mæla með námskeiðinu fyrir krakka í svipuðum aðstæðum? 

 Ég mæli hiklaust með þessu námskeiði. Það er í senn mjög hjálplegt og skemmtilegt. Svo eru stjórnendur námskeiðsins rosalega hjálplegir, skemmtilegir og skilningsríkir.