Hlaupahópur FH verður við æfingar í Kenía í þrjár vikur en tveir úr hópnum ætla að dvelja í Afríkuríkinu í sex vikur. FH-ingarnir munu dvelja í Iten sem liggur í um 2.500 metra hæð yfir sjávarmáli. Í Iten eru þekktar æfingabúðir þar sem margir helstu hlauparar Kenía stunda æfingar sem og hlauparar frá öðrum löndum.
„Það verður spennandi tækifæri fyrir hlauparana að kynnast því að æfa í þynnra lofti en venjulega, kynnast framandi aðstæðum og æfingum fremstu hlaupara í heimi, aganum sem þeir búa yfir og mataræði þeirra,“ segir Sigurður.
Sigurður hefur verið að þjálfa meistaraflokk FH í millivegalengdum og langhlaupum frá árinu 2020 og segist hann vera kominn með mjög sterkan hóp og þá sérstaklega í kvennaflokki, sem hefur verið að vinna flestalla titla undanfarið.
Fyrsti hópurinn sem fer til Kenía
„Það er búinn að vera góður kraftur í þessu starfi og ég hef verið að byggja upp góða hlaupagrúppu. Nú er heldur betur farið að styttast í þessa ferð okkar til Kenía og þetta verður í fyrsta skipti sem hópur frá Íslandi fer til æfinga í Kenía,“ segir Sigurður og bætir við:
„Kenía og Eþíópía eru aðaluppsprettulöndin að millivegahlaupurum og sérstaklega langhlaupurum í gegnum tíðina. Maður hefur lengið hugsað um að fara til Kenía og nú er loksins að verða af því. Markmiðið er að sjá hvernig áhrif það hefur á hópinn að æfa við þessar aðstæður. Við munum æfa tvisvar sinnum á dag með styrktar- og teygjuæfingum í bland við hlaupin. Það verður svo gaman að sjá hverju þetta skilar í maí. Það er oft talað um það að árangurinn sé eitthvað aðeins betri en þá er blóðið súrefnisríkt. Þetta verður spennandi tilraun og verður agi á mannskapnum að einbeita sér að þessu í nokkrar vikur.“
Sigurður segir markmið hópsins sem fer til Kenía að verða valinn til keppni á Smáþjóðaleikunum sem fram fara á Möltu 28. maí til 4. júní og síðan er Evrópukeppni landsliða í Póllandi 20. til 22. júní. „Krakkarnir ættu að verða í toppformi í lok maí ef allt gengur upp,“ segir hann.
Sigurður segir að Valur Elli Valsson, einn þeirra fimm hlaupara sem eru á leið til Kenía, hafi fyrstur komið með hugmyndina um að fara í þessa ferð. „Valur er 24 ára, er með mikið frumkvæði og er í stjórn frjálsíþróttadeildarinnar. Honum datt þetta í hug og þá var maður ekki lengi að taka við keflinu.“
Tíu mánaða undirbúningur
Sigurður segir að það sé kominn mikill spenningur í fólk fyrir ferðinni til Kenía. „Við byrjuðum að undirbúa þessa ferð síðastliðið vor svo þetta er búinn að vera tíu mánaða undirbúningur. Það er að mörgu að hyggja eins og flugi, gistingu og ýmsu öðru. Ég skynja mikinn spenning í hópnum og fyrir mig sem gamlan áhugamann og hlaupara verður gaman að upplifa þetta.
Ég fór aldrei í háloftaæfingar eða eitthvað slíkt og ég er spenntur að sjá hvernig þetta virkar, hvort þetta sé eitthvað sem skiptir máli og hvaða áhrif þetta hafi á fólk. Ég mun punkta allt niður hjá mér og læri vonandi eitthvað af þessari ferð. Keppnistímabilinu hér heima innanhúss er að ljúka og um helgina verður bikarkeppnin á dagskrá. Svo tekur bara við undirbúningur fyrir sumarið,“ segir Sigurður Pétur, sem nýlega tók við formennsku í frjálsíþróttadeild FH.
Þau sem fara til Kenía ásamt Sigurði og Vali Ella eru Nick Gísli Jansen, Elín Sóley Sigurbjörnsdóttir, Íris Dóra Snorradóttir og Hulda Fanný Pálsdóttir. FH-hópurinn mun hitta tvo landa sína í Kenía, þá Arnar Pétursson úr Breiðabliki og ÍR-inginn Vigni Má Lýðsson, en þeir hafa báðir áður verið í Iten í Kenía við æfingar.