Anna Björk Eðvarðsdóttir, formaður Hringsins og matarbloggari með meiru, er ein af þeim sem heldur fast í séríslenskar matarhefðir.

„Það sem mér finnst svo gaman við matarhefðir almennt, er að þær ramma inn og leggja áherslu á sjarma hvers árstíma fyrir sig og maður hlakkar til að undirbúa og njóta, það veitir manni gleði og það skiptir máli. Borðið er alltaf fullmannað af stórfjölskyldunni á sprengidaginn, við elskum þessa matarhefð. Það hefur þekkst hjá okkur að sprengideginum hefur verið frestað, ef einhver var það upptekinn á deginum sjálfum að hann komst ekki.“

Anna Björk segist ávallt laga baunasúpuna að hætti ömmu sinnar.

„Hún Anna Kristmundsdóttir, amma mín, kenndi mér að sjóða saltkjöt og baunir, allir elskuðu baunirnar hennar. Hún var fædd árið 1900 vestur í Skálavík, þar var mjög erfitt að draga fram lífið í den. Hún kenndi mér svo margt um gamlar matarhefðir sem eru mér kærar. Til dæmis að borða og meta fitu, bæði af kjöti og fiski, fitan hélt örugglega lífi í fólki í gamla daga. Ef ég ætlaði að gera henni gott, keypti ég handa henni bita af feitum súrum bringukolli eða lundabagga, hún elskaði það. En það fylltust allir tilhlökkun þegar hún dró fram stóra pottinn og fór að undirbúa baunirnar fyrir sprengidaginn.

Potturinn sem Anna Björk lagar baunasúpuna í á sér langa sögu innan fjölskyldunnar og hefðin fylgdi með honum.

„Pottinn átti amma, hann er allavega 80 ára gamall. Það er búið að elda margar góðar súpur og mat í honum, hann er alger gersemi. Ég er skírð í höfuðið á ömmu og við vorum miklar vinkonur.

Gott hráefni, ást og natni

Eins og í allri matargerð eru töfrarnir gott hráefni, ást og natni. Hún gerði í raun ekkert við baunirnar annað en að leggja þær í bleyti kvöldinu áður. Síðan sauð hún þær rólega að morgni með kjötinu og lét þær svo kólna alveg svo þær gætu jafnað sig. Síðan hitaði hún þær upp um kvöldið. Svona hef ég gert þær alla tíð og kem ekki til með að breyta því. Ég hef prófað að búa til baunasúpu með „aukahlutum“, en var rekin til baka með það, svo ég sleppi öllum tilraunum á sprengidaginn.“

Þegar kemur að því að velja sér uppáhalds saltkjötsbitann viðurkennir Anna Björk fúslega að hún eigi sinn uppáhaldsbita og hann verði hún að fá.

„Ég elska feitan síðubita og passa að nokkrir þannig séu með í kaupunum, fyrir okkur mömmu, við höfum sama smekk í þessum efnum. Þetta er eiginlega eina kjötfitan sem ég virkilega sæki í og elska, ég leyfi mér það, þetta er jú bara einu sinni á ári.“

Súpan

Baunirnar eru lagðar í bleyti í kalt vatn í mjög stórum potti, kvöldinu áður en á að sjóða þær. Passið að vatnið fljóti vel yfir baunirnar. Morguninn eftir er vatni bætt í pottinn, ef þarf, og suða látin koma upp á baununum. Froðunni sem kemur við suðuna er fleytt ofan af og hent. Baunirnar eru látnar malla rólega í um eina klukkustund, þar til þær eru alveg maukaðar, hrært í við og við.

Saltkjöt og baunir eins og best verður á kosið.

Saltkjötið

Það er góð regla að smakka kjötið áður en það fer í pottinn, til að vita hversu salt það er, og skola það vel eða jafnvel leggja það í bleyti í smátíma í kalt vatn í vaskinum, ef það er mjög salt. Það er betra að salta súpuna aðeins eftir á, ef þarf, heldur en að hún sé of sölt í grunninn. Kjötið er sett út í súpuna, suðan látin koma upp og kjötið soðið rólega í súpunni í 40–60 mín. Það þarf örugglega að athuga vatnsmagnið í pottinum og hræra í við og við svo baunirnar brenni ekki í botninum. Ég mæli eindregið með að fullelda saltkjötið og baunirnar að morgni eða kvöldinu áður, ef þú hefur tækifæri til þess, vegna þess að þetta er einn af þessum réttum sem batnar við að kólna og jafna sig og hita svo upp aftur (ath. ekki taka kjötið upp úr súpunni).

Þegar baunasúpan er hituð upp og hún er sjóðheit er gott að smakka hana til og bæta í hana salti eða vatni ef hún er mjög þykk, en hún byrjar að þykkna um leið og hún er komin á diskinn. Svo eru nauðsynlegt að hafa nóg af soðnum íslenskum rófum, kartöflum og gulrótum.

„Ekki gleyma að hafa víðu buxurnar með mjúku teygjunni við höndina til að skella sér í eftir matinn, það eru allar líkur á ofáti. Verði þér og þínum að góðu.“