Kláði eftir Fríðu Ísberg.
Útgefandi: Partus forlag
Fjöldi síðna: 200
★★★★½
Smásagnasöfn eru, þegar vel tekst til, eitt mest spennandi bókmenntaformið. Kláði eftir Fríðu Ísberg er einmitt þannig, hver saga kallar á svörun frá lesandanum, bæði vegna stílbragða og orðsnilldar en einnig vegna sýnar á hversdagsleika sem segir meira en allar stórsögur heimsins. Uppbyggingin er einföld og stíllinn tær sem gerir það að verkum að lesandinn kemst hvergi frá hughrifum sínum heldur finnur sig í því óþolandi ástandi að verða bæði að staldra við og melta það sem hann var að lesa og drífa sig inn í næstu sögu, næsta óþol. Kláði er sennilega besta orðið yfir þessa líðan.
Í fyrstu sögunni kynnumst við síðmiðaldra hjónum sem búa með tengdasyni og tengdadóttur og sjáum tengdadótturina sem er milli tvítugs og þrítugs með þeirra augum. Í næstu sögu sjáum við aftur unga konu með augum kærasta, þó það sé ekki sami kærastinn og persónan er ekki sú sama. Í þriðju sögunni er þessi unga kona sem við höfum nú séð frá tveimur sjónarhornum komin í aðra persónu, þú, við erum með henni á leið heim af djamminu, fylgjumst með henni passa sig eins og skyldan býður, skynjum hættuna sem felst í því að vera hún, meira að segja í venjulegu, „öruggu“ samfélagi. Næsta saga er svo í fyrstu persónu, þar talar unga konan sjálf og við erum komin inn í sagnaheiminn, inn á djammið, í kvíðann og hversdagslífið en um leið tilfinningar sem sennilega allar konur og karlar líka kannast svo mætavel við, eitthvert undirliggjandi óþol sem þarf að bregðast við, kannski með því að klóra sér.
Í öllum sögunum má skynja þetta óþol, ýmist gegn aðstæðum eða fólki. Konan sem dettur óvart um klámfantasíur mannsins síns á netinu, sú sem rekst á gömlu vin- og óvinkonuna í röðinni í Bónus, mamman sem bíður eftir því að nágrannarnir lesi blöðin með mikilvæga viðtalinu, fermingarstelpan sem þolir ekki hvernig fermingardagurinn hennar gleypir allt fyrsta apríl grín eins og fermingin sjálf gleypir leyfi hennar sjálfrar til að fíflast og vera krakki, konan sem getur ekki annað en hlaupið til að reyna að flýja sorgina sem er nánast óbærileg. Allar þessar konur og allt þetta fólk er í einhverri spennitreyju sem verður til í því sem við fyrstu sýn virðast hversdagslegar aðstæður en sem seinna kemur í ljós að eru aðeins birtingarmyndir viðvarandi óþolandi ástands, friðleysis og andarteppu í samtíma þar sem fólk er svo einmana, hjarðdýrin sem þurfa snertingu og hitann frá öðrum líkömum en lifa í staðinn fyrir einhvers konar afskræmda útgáfu af samfélagslegu samþykki sem er eiginlega ekki samþykki heldur dómur í formi læks eða komments í snjalltækjum, sem kemur sérstaklega skýrt og nöturlega fram í einni sögunni.
Fríða Ísberg er einn mest spennandi rithöfundur sem ég hef komist í tæri við lengi. Þessar sögur tala á léttleikandi hátt til einhvers sem er djúpt í okkur öllum, alvarlegrar þarfar til að breyta samfélaginu og það er svo einstaklega við hæfi að birtingarmynd þess, aðalpersóna og málpípa, sé hin unga kona sem svo oft hefur verið passíft viðfang og söguhreyfir bókmenntanna, án raddar og verundar.
Niðurstaða: Magnaðar hversdagssögur um undirliggjandi óþol gagnvart óviðunandi ástandi.