Framúrskarandi vinkona
Elena Ferrante
Þjóðleikhúsið
Leikgerð: April de Angelis
Leikstjórn: Yaël Farber
Leikarar: Unnur Ösp Stefánsdóttir, Vigdís Hrefna Pálsdóttir, Guðrún S. Gísladóttir, Harpa Arnardóttir, Sigurður Sigurjónsson, Steinunn Arinbjarnardóttir, Arndís Hrönn Egilsdóttir, Þröstur Leó Gunnarsson, Hákon Jóhannesson, Elva Ósk Ólafsdóttir, Pálmi Gestsson, Atli Rafn Sigurðarson, Sveinn Ólafur Gunnarsson, Stefán Hallur Stefánsson, Bjarni Snæbjörnsson, Lára Jóhanna Jónsdóttir, Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, Hilmir Jensson, Snorri Engilbertsson, Birgitta Birgisdóttir, Valgerður Guðnadóttir, Oddur Júlíusson, Sigríður Eyrún Friðriksdóttir, Hjalti Rúnar Jónsson, Sigurbjartur Sturla Atlason, Eldey Erla Hauksdóttir, Hulda Gissurardóttir Flóvenz, Eva Jáuregui og Ronja Pétursdóttir.
Þýðing: Salka Guðmundsdóttir
Leikmynd: Ilmur Stefánsdóttir
Dramatúrg: Hrafnhildur Hagalín Guðmundsdóttir
Búningar: Filippía I. Elísdóttir
Lýsing: Björn Bergsteinn Guðmundsson
Tónlist: Valgeir Sigurðsson
Hljóðmynd: Valgeir Sigurðsson, Aron Þór Arnarsson og Valgerður Guðnadóttir
Sviðshreyfingar: Emily Terndrup og Conor Doyle
Loksins! Loksins komst Framúrskarandi vinkona á svið. Framleiðsluferlið í Þjóðleikhúsinu hefur verið sannkölluð þrautaganga síðastliðin tvö ár. Endalausar frestanir sökum yfirstandandi faraldurs og samhliða varð að yfirstíga skipulagsvanda innanhúss þar sem stóra sviðið er sneisafullt af leiksýningum. Framúrskarandi vinkona er líka engin smásmíði þar sem um þrjátíu leikarar taka þátt, enn þá fleiri bak við tjöldin og byggir á fjórum skáldsögum Elenu Ferrante.
Napólísögurnar komu út á árunum 2012 til 2014 en bókaserían segir frá lífi og vináttu Lenú Greco og Lilu Cerullo sem alast upp við sárafátækt á eftirstríðsárunum í Napólí á Ítalíu. Líf þeirra fléttast saman við örlög fólksins í hverfinu og flókið vinasamband þeirra er stormasamt. Leikgerðina skrifar April de Angelis og Salka Guðmundsdóttir þýðir. Gallinn við leikgerðina er að rót ofbeldisins í samfélaginu, sem er þungamiðja verksins ásamt vináttu Lenú og Lilu, er ekki skoðuð nægilega vel. Áhorfendur skynja að harkan á sér einhver upptök í fátæktinni og samskiptum kynslóðanna en málið er ekki svo einfalt. Í ítölsku samfélagi spilar kaþólska trúin stórt hlutverk í ofríki karlanna og hefur dagleg áhrif á hlutskipti kvenna. Sá vinkill er sömuleiðis sjaldan skoðaður.
Koma suður-afríska leikstjórans Yaël Farber í Þjóðleikhúsið er listrænn fengur á heimsmælikvarða og vonandi merki um það sem koma skal. Ný nálgun og áherslur erlendra leikstjóra eru nauðsynleg til að næra listafólk og áhorfendur landsins. Veröld Lenú og Lilu er á hverfanda hveli og Yaël sér til þess að sýningin er stöðugt á hreyfingu, sem virkar eins og varaaf l framvindunnar. Hún beinir sviðljósinu að reynsluheimi kvenna sem eru fastar í feðraveldinu, en tilvist þeirra einkennist af ringulreið og harðri lífsbaráttu.
Eitt af meginstefum sýningarinnar og áhrifarík viðbót er eins konar grískur kór persónugallerísins sem vofir yfir atburðarásinni, skuggar fortíðarinnar eru þrúgandi og samfélagið dómhart. Þar skipta líka sviðshreyfingar Emily Terndrup og Conor Doyle miklu máli. En hættan við leikgerðir er að of mikill tími fari í að sviðsetja framvindu á kostnað listrænnar túlkunar og Framúrskarandi vinkona fellur í þá gryfju. Úr verður leiksýning sem tekur of mikið mið af söguþræðinum en ekki nægilega af sviðsrænum túlkunarmöguleikum.

Konurnar taka stjórn
Lykillinn að sýningunni er flókið samband Lenú og Lilu. Þær spegla hvor aðra en stundum er óbærilegt að horfast í augu við sjálfa sig, mistök og gjörðir. Að heyra manneskjuna sem stendur manni næst segja sannleikann stingur stundum. Lenú er leikin af þremur leikkonum á mismunandi aldri og Lila af tveimur, en fjórar ungar leikkonur skipta með sér hlutverkunum þegar þær eru börn.
Guðrún S. Gísladóttir leiðir áhorfendur í gegnum sýninguna á meðan Unnur Ösp Stefánsdóttir leikur hana frá uppvaxtarárum fram á miðjan aldur. Guðrún stendur á sviðinu allan tímann og er sláandi hjarta sýningarinnar. Þrátt fyrir að vera svolítið föst í framsöguhlutverkinu þá sýnir hún sínar bestu hliðar þegar hún er þögli áhorfandinn, þar sem Lenú horfir álengdar á fortíðina reynslunni ríkari.
Sömuleiðis mæðir töluvert á Unni Ösp en Lenú berst við að slíta sig frá uppruna sínum með því að ganga menntaveginn. Unnur Ösp skín skærast í atriðunum þar sem Lenú sleppir fram af sér beislinu og gefur sig tilfinningunum á vald. Vigdís Hrefna Pálsdóttir glímir við ansi snúið hlutverk. Lila er holdgervingur þess sem karlmenn verksins virðast þrá og hata samtímis. Hún er frökk, eldklár og gölluð. Vigdís Hrefna túlkar Lilu af miklu afli, nánast eins og hún rífi hana upp úr iðrum jarðar, og er hér upp á sitt besta. Gallinn er kannski sá að hvorugar persónurnar taka miklum breytingum í gegnum verkið en samleikur þeirra tveggja er sterkur.
Reynslumiklar leikkonur kunna að búa eitthvað til úr engu, enda leiklistarsagan undirlögð af hlutverkum fyrir karlmenn. Harpa Arnardóttir og Arndís Hrönn Egilsdóttir, mæðulegu en gallhörðu mæðurnar sem séð hafa tímana tvenna og fáa góða, sýna hvernig framkvæma skal slíkan gjörning. Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir er konan með þöglu völdin og segir allt sem segja þarf með örfáum orðum. Elva Ósk Ólafsdóttir kemur sömuleiðis sterk inn í hlutverki Lídíu, sem lætur reiði sína yfir hegðun eiginmannsins bitna á öðrum konum. Yngri leikkonurnar ná ekki sömu tökum á hlutverkum sínum en á heildina litið tekst hópnum ágætlega upp.
Leiksýningin er kannski í lengra lagi en hún flæðir áfram með krafti sögunnar.
Fábrotin hlutskipti karla
Karlmennirnir eru ekki jafn heppnir með hlutverk, en flestar karlkyns persónurnar eru fremur flatar. Þeir eru upp til hópa stjórnsamir ofbeldisseggir sem liggur hátt rómurinn. Snorri Engilbertsson stýrir orkunni í áhugaverðan farveg en margir aðrir týnast í hávaðanum. Pálmi Gestsson í hlutverki Donato, meðaljónsins sem telur sig vera Guðs gjöf til kvenna, einungis vegna þessa að hann hefur gefið út ljóðabók, sýnir að of beldið birtist ekki einungis í formi krepptra hnefa og hótana heldur líka andlega.
Nino, sonur Donato, á við sama vandamál að stríða. Atli Rafn Sigurðarson fangar vel þessi afslöppuðu forréttindi sem brjótast út í andúð gagnvart þeim sem hann telur vera fyrir neðan sína virðingu, aðallega konum. Bjarni Snæbjörnsson sýnir fínan leik í hlutverki Alfonso en þarf að gæta sín að festast ekki í keimlíkum hlutverkum.
Sveinn Ólafur Gunnarsson kemur með nýja orku inn í sýninguna eftir fyrsta hlé, aðra tegund af manni sem á yfirborðinu virðist vera mýkri en þeir sem Lenú ólst upp með en er
innst inni þó sami durturinn. Eini maðurinn sem virðist hafa einhvern manndóm í sér er Enzo sem Hjalti Rúnar Jónsson leikur af hógværð, forvitnilegt verður að fylgjast með honum.

Listrænt misræmi
Í sýningu á borð við Framúrskarandi vinkonu, sem ferðast á milli íbúða og borga, í tíma og rúmi, þá tekur Ilmur Stefánsdóttir þá skynsamlegu ákvörðun að para niður leikmyndina. Í stað þess að smíða heiminn er eins og atriðin endurvarpist úr hugarfylgsnum hinnar eldri Lenú, hvikul minningabrot frá löngu liðnum tíma. Lýsing Björns Bergsteins Guðmundssonar umvefur sviðið dulúð og skuggum, enda er ljósahönnunin ljómandi í orðsins fyllstu merkingu. Búningahönnun Filippíu I. Elísdóttur spannar mörg söguleg tímabil og henni tekst vel til, þó vantar tilfinnanlega stærra litróf. Tónlistina semur Valgeir Sigurðsson en hann hannar einnig hljóðmyndina ásamt Aroni Þór Arnarsyni og Valgerði Guðnadóttur. Tónlistin er áferðarlítil og hverfur í sýningunni sem er algjör synd. Hljóðmyndin er aftur á móti sterkari.
Reynsluheimur kvenna í karlaveldi er frjór akur fyrir spennandi skáldskap. Framúrskarandi vinkona setur konur í forgrunninn og leikkonur blómstra í slíkum jarðvegi. Þar verður helst að nefna Guðrúnu, Unni Ösp og Vigdísi Hrefnu en fjölmargar aðrar, sérstaklega þær reynslumeiri, standa sig með prýði. Karlarnir líða fyrir flatneskjulega persónusköpun og reyndar leikgerðin öll. Leiksýningin er kannski í lengra lagi en hún flæðir áfram með krafti sögunnar, þess væri þó óskandi að myndræni mátturinn væri sambærilegur þannig að fleiri eftirminnilegar senur eins og lokaatriðið myndu spretta fram.
Niðurstaða: Framúrskarandi vinkona nær aldrei epískum hæðum.