Fram­úr­skarandi vin­kona

Elena Ferrante

Þjóð­leik­húsið

Leik­gerð: April de Angelis

Leik­stjórn: Yaël Far­ber

Leikarar: Unnur Ösp Stefáns­dóttir, Vig­dís Hrefna Páls­dóttir, Guð­rún S. Gísla­dóttir, Harpa Arnar­dóttir, Sigurður Sigur­jóns­son, Steinunn Arin­bjarnar­dóttir, Arn­dís Hrönn Egils­dóttir, Þröstur Leó Gunnars­son, Hákon Jóhannes­son, Elva Ósk Ólafs­dóttir, Pálmi Gests­son, Atli Rafn Sigurðar­son, Sveinn Ólafur Gunnars­son, Stefán Hallur Stefáns­son, Bjarni Snæ­björns­son, Lára Jóhanna Jóns­dóttir, Steinunn Ó­lína Þor­steins­dóttir, Hilmir Jens­son, Snorri Engil­berts­son, Birgitta Birgis­dóttir, Val­gerður Guðna­dóttir, Oddur Júlíus­son, Sig­ríður Ey­rún Frið­riks­dóttir, Hjalti Rúnar Jóns­son, Sigur­bjartur Sturla Atla­son, Eld­ey Erla Hauks­dóttir, Hulda Gissurar­dóttir Fló­venz, Eva Já­uregui og Ronja Péturs­dóttir.

Þýðing: Salka Guð­munds­dóttir

Leik­mynd: Ilmur Stefáns­dóttir

Dramatúrg: Hrafn­hildur Haga­lín Guð­munds­dóttir

Búningar: Filippía I. Elís­dóttir

Lýsing: Björn Berg­steinn Guð­munds­son

Tón­list: Val­geir Sigurðs­son

Hljóð­mynd: Val­geir Sigurðs­son, Aron Þór Arnars­son og Val­gerður Guðna­dóttir

Sviðs­hreyfingar: Emily Terndrup og Conor Doy­le

Loksins! Loksins komst Fram­úr­skarandi vin­kona á svið. Fram­leiðslu­ferlið í Þjóð­leik­húsinu hefur verið sann­kölluð þrauta­ganga síðast­liðin tvö ár. Enda­lausar frestanir sökum yfir­standandi far­aldurs og sam­hliða varð að yfir­stíga skipu­lags­vanda innan­húss þar sem stóra sviðið er sneisa­fullt af leik­sýningum. Fram­úr­skarandi vin­kona er líka engin smá­smíði þar sem um þrjá­tíu leikarar taka þátt, enn þá fleiri bak við tjöldin og byggir á fjórum skáld­sögum Elenu Ferrante.

Napólí­sögurnar komu út á árunum 2012 til 2014 en bóka­serían segir frá lífi og vin­áttu Lenú Greco og Lilu Cer­ullo sem alast upp við sára­fá­tækt á eftir­stríðs­árunum í Napólí á Ítalíu. Líf þeirra fléttast saman við ör­lög fólksins í hverfinu og flókið vina­sam­band þeirra er storma­samt. Leik­gerðina skrifar April de Angelis og Salka Guð­munds­dóttir þýðir. Gallinn við leik­gerðina er að rót of­beldisins í sam­fé­laginu, sem er þunga­miðja verksins á­samt vin­áttu Lenú og Lilu, er ekki skoðuð nægi­lega vel. Á­horf­endur skynja að harkan á sér ein­hver upp­tök í fá­tæktinni og sam­skiptum kyn­slóðanna en málið er ekki svo ein­falt. Í ítölsku sam­fé­lagi spilar kaþólska trúin stórt hlut­verk í of­ríki karlanna og hefur dag­leg á­hrif á hlut­skipti kvenna. Sá vinkill er sömu­leiðis sjaldan skoðaður.

Koma suður-afríska leik­stjórans Yaël Far­ber í Þjóð­leik­húsið er list­rænn fengur á heims­mæli­kvarða og vonandi merki um það sem koma skal. Ný nálgun og á­herslur er­lendra leik­stjóra eru nauð­syn­leg til að næra lista­fólk og á­horf­endur landsins. Ver­öld Lenú og Lilu er á hverfanda hveli og Yaël sér til þess að sýningin er stöðugt á hreyfingu, sem virkar eins og vara­af l fram­vindunnar. Hún beinir svið­ljósinu að reynslu­heimi kvenna sem eru fastar í feðra­veldinu, en til­vist þeirra ein­kennist af ringul­reið og harðri lífs­bar­áttu.

Eitt af megin­stefum sýningarinnar og á­hrifa­rík við­bót er eins konar grískur kór per­sónu­gallerísins sem vofir yfir at­burða­rásinni, skuggar for­tíðarinnar eru þrúgandi og sam­fé­lagið dóm­hart. Þar skipta líka sviðs­hreyfingar Emily Terndrup og Conor Doy­le miklu máli. En hættan við leik­gerðir er að of mikill tími fari í að svið­setja fram­vindu á kostnað list­rænnar túlkunar og Fram­úr­skarandi vin­kona fellur í þá gryfju. Úr verður leik­sýning sem tekur of mikið mið af sögu­þræðinum en ekki nægi­lega af sviðs­rænum túlkunar­mögu­leikum.

Sýningin er gífurlega umfangsmikil enda stíga hátt í þrjátíu leikarar á svið.
Mynd/Þjóðleikhúsið

Konurnar taka stjórn

Lykillinn að sýningunni er flókið sam­band Lenú og Lilu. Þær spegla hvor aðra en stundum er ó­bæri­legt að horfast í augu við sjálfa sig, mis­tök og gjörðir. Að heyra mann­eskjuna sem stendur manni næst segja sann­leikann stingur stundum. Lenú er leikin af þremur leik­konum á mis­munandi aldri og Lila af tveimur, en fjórar ungar leik­konur skipta með sér hlut­verkunum þegar þær eru börn.

Guð­rún S. Gísla­dóttir leiðir á­horf­endur í gegnum sýninguna á meðan Unnur Ösp Stefáns­dóttir leikur hana frá upp­vaxtar­árum fram á miðjan aldur. Guð­rún stendur á sviðinu allan tímann og er sláandi hjarta sýningarinnar. Þrátt fyrir að vera svo­lítið föst í fram­sögu­hlut­verkinu þá sýnir hún sínar bestu hliðar þegar hún er þögli á­horf­andinn, þar sem Lenú horfir á­lengdar á for­tíðina reynslunni ríkari.

Sömu­leiðis mæðir tölu­vert á Unni Ösp en Lenú berst við að slíta sig frá upp­runa sínum með því að ganga mennta­veginn. Unnur Ösp skín skærast í at­riðunum þar sem Lenú sleppir fram af sér beislinu og gefur sig til­finningunum á vald. Vig­dís Hrefna Páls­dóttir glímir við ansi snúið hlut­verk. Lila er hold­gervingur þess sem karl­menn verksins virðast þrá og hata sam­tímis. Hún er frökk, eld­klár og gölluð. Vig­dís Hrefna túlkar Lilu af miklu afli, nánast eins og hún rífi hana upp úr iðrum jarðar, og er hér upp á sitt besta. Gallinn er kannski sá að hvorugar per­sónurnar taka miklum breytingum í gegnum verkið en sam­leikur þeirra tveggja er sterkur.

Reynslu­miklar leik­konur kunna að búa eitt­hvað til úr engu, enda leik­listar­sagan undir­lögð af hlut­verkum fyrir karl­menn. Harpa Arnar­dóttir og Arn­dís Hrönn Egils­dóttir, mæðu­legu en gall­hörðu mæðurnar sem séð hafa tímana tvenna og fáa góða, sýna hvernig fram­kvæma skal slíkan gjörning. Steinunn Ó­lína Þor­steins­dóttir er konan með þöglu völdin og segir allt sem segja þarf með ör­fáum orðum. Elva Ósk Ólafs­dóttir kemur sömu­leiðis sterk inn í hlut­verki Lídíu, sem lætur reiði sína yfir hegðun eigin­mannsins bitna á öðrum konum. Yngri leik­konurnar ná ekki sömu tökum á hlut­verkum sínum en á heildina litið tekst hópnum á­gæt­lega upp.

Leiksýningin er kannski í lengra lagi en hún flæðir áfram með krafti sögunnar.

Fá­brotin hlut­skipti karla

Karl­mennirnir eru ekki jafn heppnir með hlut­verk, en flestar karl­kyns per­sónurnar eru fremur flatar. Þeir eru upp til hópa stjórn­samir of­beldis­seggir sem liggur hátt rómurinn. Snorri Engil­berts­son stýrir orkunni í á­huga­verðan far­veg en margir aðrir týnast í há­vaðanum. Pálmi Gests­son í hlut­verki Dona­to, meðal­jónsins sem telur sig vera Guðs gjöf til kvenna, einungis vegna þessa að hann hefur gefið út ljóða­bók, sýnir að of beldið birtist ekki einungis í formi krepptra hnefa og hótana heldur líka and­lega.

Nino, sonur Dona­to, á við sama vanda­mál að stríða. Atli Rafn Sigurðar­son fangar vel þessi af­slöppuðu for­réttindi sem brjótast út í and­úð gagn­vart þeim sem hann telur vera fyrir neðan sína virðingu, aðal­lega konum. Bjarni Snæ­björns­son sýnir fínan leik í hlut­verki Al­fon­so en þarf að gæta sín að festast ekki í keim­líkum hlut­verkum.

Sveinn Ólafur Gunnars­son kemur með nýja orku inn í sýninguna eftir fyrsta hlé, aðra tegund af manni sem á yfir­borðinu virðist vera mýkri en þeir sem Lenú ólst upp með en er
innst inni þó sami dur­turinn. Eini maðurinn sem virðist hafa ein­hvern mann­dóm í sér er Enzo sem Hjalti Rúnar Jóns­son leikur af hóg­værð, for­vitni­legt verður að fylgjast með honum.

Plakat/Þjóðleikhúsið

List­rænt mis­ræmi

Í sýningu á borð við Fram­úr­skarandi vin­konu, sem ferðast á milli í­búða og borga, í tíma og rúmi, þá tekur Ilmur Stefáns­dóttir þá skyn­sam­legu á­kvörðun að para niður leik­myndina. Í stað þess að smíða heiminn er eins og at­riðin endur­varpist úr hugar­fylgsnum hinnar eldri Lenú, hvikul minninga­brot frá löngu liðnum tíma. Lýsing Björns Berg­steins Guð­munds­sonar um­vefur sviðið dul­úð og skuggum, enda er ljósa­hönnunin ljómandi í orðsins fyllstu merkingu. Búninga­hönnun Filippíu I. Elís­dóttur spannar mörg sögu­leg tíma­bil og henni tekst vel til, þó vantar til­finnan­lega stærra lit­róf. Tón­listina semur Val­geir Sigurðs­son en hann hannar einnig hljóð­myndina á­samt Aroni Þór Arnar­syni og Val­gerði Guðna­dóttur. Tón­listin er á­ferðar­lítil og hverfur í sýningunni sem er al­gjör synd. Hljóð­myndin er aftur á móti sterkari.

Reynslu­heimur kvenna í karla­veldi er frjór akur fyrir spennandi skáld­skap. Fram­úr­skarandi vin­kona setur konur í for­grunninn og leik­konur blómstra í slíkum jarð­vegi. Þar verður helst að nefna Guð­rúnu, Unni Ösp og Vig­dísi Hrefnu en fjöl­margar aðrar, sér­stak­lega þær reynslu­meiri, standa sig með prýði. Karlarnir líða fyrir flat­neskju­lega per­sónu­sköpun og reyndar leik­gerðin öll. Leik­sýningin er kannski í lengra lagi en hún flæðir á­fram með krafti sögunnar, þess væri þó ó­skandi að mynd­ræni mátturinn væri sam­bæri­legur þannig að fleiri eftir­minni­legar senur eins og loka­at­riðið myndu spretta fram.

Niðurstaða: Fram­úr­skarandi vin­kona nær aldrei epískum hæðum.