„Já, það verður spennandi fyrir gesti að sjá hvaða þrjár konur við klöppum upp á Viðurkenningahátíð FKA sem fer fram á Hótel Reykjavík Grand í dag,“ segir Andrea, sem rifjar upp hvernig hátíðin hefur verið haldin síðustu tvö ár. „Frá fyrstu Viðurkenningahátíð hafa öll kyn úr framlínu íslensks viðskipta- og atvinnulífs mætt á Viðurkenningahátíð FKA, enda ríkir ávallt mikil eftirvænting fyrir því hver fær FKA viðurkenningu, FKA þakkarviðurkenningu og FKA hvatningarviðurkenningu.

Svo á tímum heimsfaraldurs kórónuveiru, síðustu tvö ár, var Viðurkenningahátíð FKA haldin hátíðleg í sjónvarpsþætti á Hringbraut í geggjuðu samstarfi, en mikið er gleðilegt að vera aftur að koma saman á glæsilegri hátíð og njóta stundarinnar,“ segir Andrea um hátíðina, sem einnig verður streymt á heimasíðu Fréttablaðsins.

Dr. Ásta Dís Óladóttir, formaður Jafnvægisvogarráðs, Andrea, Bragi Valdimar Skúlason, Birgir Jónsson og Ásta Fjeldsted á ráðstefnu FKA.

Einföld ,,NoTech life hack“

Andrea er í fjölbreyttu starfi hjá FKA og segist njóta sín vel. „Það er óhætt að segja að það sé nóg að gera og ávallt mikið um að vera í félagi sem telur um 1.350 konur um landið allt. Ég hef alltaf lúmskt gaman af því þegar hringt er og beðið um markaðsdeildina eða eitthvað álíka þegar það er ég sem er eini starfsmaðurinn á plani.

Það eru félagskonur sem taka þátt í nefndum og deildum í sínum frítíma og saman töfrum við ýmislegt fram,“ segir Andrea og bætir við: „Ég hvet konur til að láta til sín taka og koma með, enda er þátttaka í FKA frábær leið til að nýta styrkleika sína og stækka sviðið. Síðan er ég sannfærð um að félagsaðild bæti líðan og styrki konur í leik og starfi. Einföld ,,NoTech life hack“ eins og að vera í einhverju sæti í lífinu, leyfa sér að eiga áhugamál, næra sig og vera ávallt að læra nýja hluti, er nokkuð sem er að virka,“ segir hún og bætir við: „Það er ekki verið að tala um að vera ávallt í fyrsta sæti, heldur tryggja að við konur séum með okkur í einhverju sæti og þá er félagsaðild að FKA svo góður kostur til að setja sig á dagskrá.

Það er svo misjafnt hvað konur vilja gefa og fá frá FKA en markmiðið er að ólíkar konur finni eitthvað við sitt hæfi og eflist við þátttöku. Konur í félaginu eru að taka inn þekkingu, miðla sjálfar og svo er ýmislegt nýtt sem þær þurfa að tileinka sér til að halda félaginu gangandi í takti við nýja tíma og þá öðlast þær hæfni sem nýtist þeim persónulega og almennt vel í leik og starfi, sem er frábært.“

Í fjörinu á Akranesi með Tinnu Ósk úr stjórn FKA Vesturland, sem er Skagamaður ársins, Söndru Margréti, Stefaníu formanni FKA Vesturland og Dagnýju.

Við erum ein hrúga af fyrra lífi

„Það hefur ekki síður verið mikill skóli fyrir mig að reka félagið á tímum heimsfaraldurs við oft afar krefjandi aðstæður, en þar sem ég hef víðtæka reynslu úr atvinnulífinu hefur þetta gengið afskaplega vel enda gjarnan í góðum félagsskap. Við erum ein hrúga af fyrra lífi og eigum að vera óhrædd við að skapa okkur og endurskapa,“ segir Andrea og kemur með dæmi af herbergi þar sem eru doktor, smiður, fyrirtækjaeigandi, rektor, blaðakona, ritstjóri, fararstjóri, útgefandi, fjárfestir, garðyrkjufræðingur, skíðakona, hóteleigandi og kennari. „Hvað eru þetta margar konur?“ spyr Andrea glöð í bragði.

„Ég skal segja þér það, þetta er sönn saga af tveimur félagskonum í sama herbergi. Það eru magnaðar neglur í þessu félagi, með guð má vita hvað marga hatta og það er sama hvaða dagur er, ég er alltaf að heyra sögur af konum og kynnast konum sem ég sé bara fyrirsagnirnar frussast af. Algjörir meistarar, sigurvegarar með þvílíka seiglu, kraft og hæfni. Nú, svo þegar það er svona margt um að vera og þriðja, fjórða og fimmta vaktin eru þarna alltumlykjandi þegar konur eiga í hlut, er mikilvægt að brenna ekki upp í báða enda.

Félagsstörf eru án staðsetninga hjá FKA og hver og ein kona stjórnar ferðinni fyrir sig einmitt vegna alls sem við erum með í fanginu. Þá er eðlilegt að vera ekki alltaf virk á öllum vígstöðvum og konur verða að passa að hlúa vel að sér og heilsunni.“

Andrea segir sér líða vel í fjölbreyttu starfi bak við tjöldin í þjónustu við félagskonur og atvinnulífið.

Besti dagurinn til að gera eitthvað er NÚNA!

„Á sama tíma og það er mikilvægt að skella sér af stað í eitt og annað þá er þetta fín lína. Ég persónulega haga mér stundum eins og ég sé að fara að deyja á morgun og langur kafli í þeim gír endar gjarnan með viðvörunarljósum,“ segir Andrea alvarleg. „Besti dagurinn til að gera eitthvað er núna. Það væri frábært að geta byrjað í fyrra eða í síðustu viku að gera eitt og annað, en það er ekki í boði og þá er það dagurinn í dag sem er málið og þá á ég það til að taka að mér allt of mikið, en er fljót að koma mér í jafnvægi aftur sem betur fer. Það er svona að elska mánudaga og janúar og vera í gefandi starfi,“ segir Andrea, sem bendir á að hver og ein félagskona FKA sé dýrmætur hlekkur í keðjunni.

„Mér er umhugað um tækifæri allra kynja, að öll njótum við sannmælis og fáum verðskulduð tækifæri en ekki síst vil ég í starfi mínu tryggja tækifæri samfélagsins til að njóta sérfræðiþekkingar og reynslu kvenna. Ég held að það þurfi ekki fleiri fræðslustundir um kosti og mikilvægi jafnréttis. Við erum með heilu doðrantana sem benda á það. Held að næsta skref sé að grípa til aðgerða til að koma hlutunum í almennilegt lag er kemur að jöfnum tækifærum, því okkur er það öllum ljóst að jafnréttið er ekki að koma af sjálfu sér, né með vinsamlegum tilmælum og fræðslu og sumt ekki einu sinni með lagasetningu. Þá tel ég þörf á að vaða í aðgerðir, svona alvöru grjóthart kellingavæl sem mörg kalla forræðishyggju og bull,“ segir Andrea glottandi.

Heimsfaraldur stöðvaði ekki FKA í að heiðra konur í takt við sóttvarnarreglur.

„Að öllu gamni slepptu þá eru jafnréttismál öryggismál, mannréttindi og mál okkar allra og viðurlög við brotum á lögum er kemur að jafnrétti eru því umhyggja. Það er athyglisvert hvað stjórnvöld elska að hnykla jafnréttisvöðvana á alþjóðavísu og segja stolt frá jafnréttisparadísinni Íslandi, þegar jafnréttinu hefur ekki verið náð hér á landi og bakslag og stöðnun blasir við. Góðu fréttirnar eru að við getum tekið ákvörðun um að breyta og um að gera enn betur í stóru og smáu.“