Þegar fólk er fast í umferðarteppu er mjög algengt að finna til streitu. Ýmislegt getur farið úrskeiðis í akstri sem veldur hraðari hjartslætti og hækkun á blóðþrýstingi. Rannsóknir benda til að streita í daglegu lífi til langs tíma geti tekið sinn toll af heilsunni. Streita við akstur líkt og önnur streita er talin auka áhættu á bæði hjartasjúkdómum og hjartaáfalli. Það eru þó til leiðir til að minnka streitu undir akstri og rannsóknir hafa sýnt fram á að eitt besta vopnið gegn streitu í umferðinni er tónlist.

Í rannsókn frá því í október á þessu ári sem birtist í læknatímaritinu Complementary Therapies in Medicine skoðuðu rannsakendurnir þau áhrif sem tónlist hefur á hjartað. Fimm heilbrigðar konur á aldrinum 18-23 ára voru rannsakaðar. Stjórnandi rannsóknarinnar, Vito Engrácia Valenti, sagði að konur hefðu orðið fyrir valinu vegna þess að fyrri rannsóknir sýndu að konur eru næmari fyrir hljóðrænni örvun.

Konurnar sem valdar voru til þátttöku voru ekki mjög reyndir bílstjórar. Þær keyrðu að meðaltali fjórum til átta sinnum í mánuði og höfðu eins til sjö ára reynslu af akstri. Ástæða þess að óvanir bílstjórar urðu fyrir valinu var að rannsakendurnir töldu að reyndir bílstjórar gætu betur höndlað streitu við akstur.

Konurnar óku sömu leið með og án tónlistar í bílnum

Konurnar voru beðnar að keyra sömu leið undir sömu kringumstæðum sitthvorn daginn. Eini munurinn á bílferðunum var að seinni daginn hlustuðu þær á instrumental tónlist bílnum. Til að meta hvernig streita hafði áhrif á konurnar voru hjartsláttarmælar tengdir við brjóstkassann á þeim. Mælarnir voru notaðir til að hjartsláttartíðni sem er það hversu oft hjartað slær á hverri mínútu. Þegar fólk er afslappað minnkar tíðnin en hún eykst við streitu. Rannsóknin sýndi að þegar konurnar hlustuðu á tónlist við aksturinn lækkaði hjartsláttartíðni þeirra sem sýndi að þær voru afslappaðri.

Samkvæmt dr. Valenti losar sympatíska taugakerfið adrenalín og nor-adrenalín út í blóðrásina þegar við lendum í streituvaldandi aðstæðum. Þegar það gerist aukast líkur á óvæntum dauðsföllum vegna streitu hjá fólki sem er í áhættuhópi fyrir hjartasjúkdóma. Læknar segja þekkt að þegar fólk verður fyrir gífurlegri streitu, til dæmis vegna missis náins aðstandenda, geti það leitt stækkunar hjartans. Dr. Ragavendra Baliga, hjartalæknir við háskólasjúkrahús í Ohio í Bandaríkjunum, segir að það sé því ekki ólíklegt að minni streita geti líka haft áhrif á hjartað, en hjartað sé þó alla jafna fjótt að ná sér.

Dr. Valenti sagði að þar sem streita við akstur er stór áhættuþáttur fyrir skyndilega hjartasjúkdóma ætti þessi vísindalega sönnun á jákvæðum áhrifum tónlistar á hjartsláttartíðni að hvetja fólk til að hlusta á tónlist við akstur. Þó skiptir máli að velja tónlistina vel en rannsókn frá árinu 2017 bendir til þess að róleg klassísk tónlist sé líklegust til að hjálpa fólki að slaka á.

Dr. Valenti segist hafa notað instrumental tónlist, sem er tónlist án söngs, í rannsóknina vegna þess að notkun tungumálsins í tónlist hafi mismunandi áhrif á fólk. Einnig bendir hann á að önnur rannsókn framkvæmd af sama teymi hafi sýnt að sama tónlist og notuð var í akstursrannsókninni hafi aukið jákvæð áhrif blóðþrýstingslækkandi lyfja.

Það er því líklega mjög líklegt til árangurs að hlusta á rólega og sefandi tónlist þar sem mannsröddin kemur hvergi við sögu ef streitan gerir vart við sig í hversdagslegu amstri.