Tónlistarsmiðja fyrir fjölskyldur á Landnámssýningunni verður á morgun, sunnudaginn 21. nóvember, klukkan 13-15.

Sviðslistahópurinn Trigger Warning býður upp á vinnustofuna Brum, þar sem fjölskyldum gefst kostur á að skapa tónlist innblásna af náttúrunni. Farið verður út í náttúruna á hljóðaveiðar og til að afla efniviðar í hljóðfæri.

Í kjölfarið verður haldið í listasmiðju þar sem búin verða til grafísk tónlistarskor með vatnslitum og sett verða saman alls konar hljóðfæri. Í lokin gera krakkarnir tilraunir til að leika á hljóðfærin eftir tónsmíðunum.

Námskeiðið leiða Andrea Vilhjálmsdóttir og Kara Hergils sviðslistakonur og Ragnheiður Erla Björnsdóttir tónsmiður. Hópurinn byggir námskeiðið á aðferðum sínum við gerð sviðslistaverksins Brums, sem var sýnt á hátíðinni Plöntutíð í byrjun september bæði 2020 og 2021.

Aðeins er rými fyrir 25 þátttakendur. Skráning fer fram í síma 411-6370.