„Áhuginn á lengri hlaupum kom síðar en ég byrjaði fyrst að hlaupa lengra þegar ég var búsett í Svíþjóð,“ segir Eva, sem fór gjarnan með skólabækurnar upp í fjall til að læra, fjarri skarkala yngri systkina og heimilisfólks.

„Mér er sagt að ég hafi byrjað að hlaupa áður en ég byrjaði að ganga og sem krakki þá mátti ég aldrei vera að því að ganga heldur hljóp ég allt sem ég fór. Ég keppti í frjálsum sem barn en hljóp aðallega í styttri vegalengdum 60, 100 og 800 metrum. Afi bjó til hlaupabraut fyrir mig og þjálfaði mig fyrir mótin með skeiðklukku á túninu. Sá hæfileiki að hlaupa allt sem ég fór hefur þó týnst með árunum þar sem líkaminn fylgir ekki alltaf huganum og hælar þvælast stundum fyrir,“ útskýrir hún.

Að loknu hlaupi í Reykjavíkurmaraþoninu.

Ekki í keppni

Eva segist alltaf hafa verið í mikilli hreyfingu og þjálfað sig upp hægt og bítandi á mörgum árum í hlaupum.

„Ég hef farið upp og niður í getu, er ekki að keppa við neinn og er þar af leiðandi ekki að reyna að vera best í neinu. Eftir hnémeiðsli ákvað ég að hætta að hlaupa á malbiki og ég hleyp eingöngu utan vega,“ segir Eva sem hefur tekið þátt í hálfu maraþoni nokkrum sinnum, oft í kvennahlaupi ÍSÍ og síðan utanvegahlaupum eins og Þorvaldsdalsskokkinu.

Eva hefur ekki bara áhuga fyrir hlaupum því hún er mikil fjallgöngukona.

„Ég endurnýjaði kynni mín við alvöru fjallgöngur þegar ég eignaðist nýjar útivistarvinkonur í MBA-námi fyrir mörgum árum. Við höfum oft farið í lengri gönguferðir um Ísland, meðal annars með allt á bakinu á Strandir. Ég er líka að leika mér á fjallahjóli, á gönguskíðum og syndi í ýmsum vötnum, svokallað villisund í galla.“

Það má alveg fagna á Fimmvörðuhálsi.

Ferskur í útiveru

Þegar hún er spurð hvað öll þessi hreyfing geri fyrir hana, svarar hún: „Það er varla hægt að lýsa því hvað hreyfing úti gerir miklu meira fyrir mann en hreyfing í sal. Covid gerði að verkum að við, þessi með miklu hreyfiþörfina, þurftum að finna aðrar leiðir. Mín leið var Landvættirnir og þar hef ég kynnst skemmtilegu fólki með svipuð viðhorf til hreyfingar og svipaða ævintýraþrá. Mér finnst kjarkurinn hafa aukist og ég er stöðugt að ögra sjálfri mér og kem sjálfri mér stöðugt á óvart. Maður verður allur svo ferskur eitthvað af útiveru og dásamlega líkamlega þreyttur. Auðvitað þarf ég að huga að mataræðinu en ég hef rekið mig á að vera stundum löt að borða. Ég þarf að borða svo miklu meira í þessu æfingaprógrammi sem ég hef verið í og hef þess vegna lent oftar en ekki í algjöru orkuleysi. Það er eitt af því sem ég hef lært, að næra mig oftar og betur bæði með mat og orku. Ég hugsa líka betur um svefninn, sérstaklega rétt fyrir erfiðar æfingar því það getur munað öllu að vera vel útsofinn.

Ég kláraði hálfan Landvætt með FÍ í fyrra og er núna að æfa fyrir heilan Landvætt með frábærlega skemmtilegum þjálfurum og æfingafélögum. Það þýðir 60 km fjallahjól, 50 km gönguskíði, 2,5 km villisund og 25 km utanvegahlaup. Í vetur var ég líka í gönguhópi FÍ með dóttur minni sem endaði með göngu á Hvannadalshnúk um síðustu helgi,“ segir Eva sem er nánast óstöðvandi í dugnaði.

Hér er Eva með göngufélögum á Akrafjalli.

Fjölskyldan tekur þátt

Hún segir að það sé skemmtilegast að ögra sér, komast í betra form og hitta fólk sem finnst hún ekki skrítin þótt hún vilji vera úti að leika sér.

„Miðað við aldur ætti ég kannski að sitja heima og baka en það hefur aldrei verið mín mantra að sitja lengi kyrr. Við fjölskyldan höfum öll stundað fjallgöngur saman en þó í mismiklum mæli. Við hjónin gleymdum alltaf að hlífa dætrunum við fjallgöngum þegar þær voru litlar og þurftum stundum að bera þær heim, eftir að vera komin aðeins of langt fyrir þeirra unga aldur. Þær eru því öllu vanar og hafa gengið á fjöll frá unga aldri. Núna hleypur önnur dóttirin með mér utanvega og báðar ganga á fjöll á meðan eiginmaðurinn fylgir mér á gönguskíði, sund og hjól,“ segir Eva sem hefur sett sér það markmið að klára heilan Landvætt innan árs.

„Mig langar til þess að læra á fjallaskíði en þarf víst fyrst að byrja á svigskíðum. Fram undan hjá mér er hlaup yfir Fimmvörðuháls, sem er æfingahelgi fyrir Landvættaþrautina. Það verður skemmtileg áskorun,“ segir Eva og mælir með því að fólk hugi að hreyfingu á öllum aldri.

„Það þarf þó að byrja hægt og huga að líkamsástandi, passa álag á hné og mjaðmir ef fólk ætlar að byrja að hlaupa seint á ævinni. Ég mæli alltaf með því að fá þjálfara til leiðsagnar og fara ekki hratt af stað eins og mörgum hættir til,“ segir Eva, sem ætlar að hjóla Bláalónsþrautina á fjallahjóli 12. júní og síðan synda í Urriðavatninu og hlaupa Þorvaldsdalsskokkið í júlí.

„Inn á milli verður kíkt á einhver skemmtileg fjöll,“ segir hún.