Ég hleyp

eftir Line Mørkeby

Borgar­leik­húsið

Leik­stjóri: Harpa Arnar­dóttir

Leikari: Gísli Örn Garðars­son

Þýðandi: Auður Ava Ólafs­dóttir

Leik­mynd: Börkur Jóns­son

Búningar: Filippía Elís­dóttir

Leik­gervi: Elín S. Gísla­dóttir

Lýsing: Pálmi Jóns­son

Tón­list og hljóð­hönnun: Ísi­dór Jökull Bjarna­son

Ekkert for­eldri á að lifa barnið sitt. Sorgin sem fylgir slíkum harm­leik er lamandi, and­lega og líkam­lega. Hvernig er hægt að sigrast á sorginni? Er það yfir­leitt hægt? Ein­leikurinn Ég hleyp eftir Line
Mørkeby byggir á bloggi danska blaða­mannsins Anders Legar­th Schmidt sem hann byrjaði að skrifa fyrir Politi­ken árið 2015 eftir dauð­daga dóttur sinnar. Daginn sem hún
lést úr hvít­blæði byrjaði hann að hlaupa og hann hætti ekki, gat ekki hætt. Sorgin og hlaupa­á­ráttan bar hann í burtu frá hvers­dags­legum harmi, nær látinni dóttur sinni og í átt að hyl­dýpinu.

Line Mørkeby er marg­verð­launað danskt leik­skáld og textinn ber þess merki að hér er hæfi­leika­kona á ferð. Tækni­lega er leik­ritið mjög vel samið. Hún leikur sér með
innri og ytri tíma, endur­tekningar og ab­strakt lýsingar á hugar­á­standi af mikilli næmni. Hættan við slíkar sögur er að væmnin taki völdin en henni tekst að mestu að bægja slíkri
til­finninga­semi frá. Stað­hættir eru lítil­lega stað­færðir frá Kaup­manna­höfn til Reykja­víkur en þýðandinn er rit­höfundurinn Auður Ava Ólafs­dóttir sem leysir verk­efnið vel úr hendi.

Eftir­minni­leg endur­koma

Eftir rúm­lega tíu ára fjar­veru frá fjölunum er Gísli Örn Garðars­son kominn aftur á leik­sviðið. Eftir­minni­legri endur­koma leikara hefur ekki sést í langan tíma. Hlut­verkið er ekki ein­göngu erfitt til­finninga­lega heldur gífur­lega krefjandi líkam­lega þar sem hann hleypur bróður­partinn af sýningunni á meðan hann flytur textann. Per­sóna verksins reynir bók­staf­lega að særa út harminn með aflinu einu saman. Gísli Örn leiðir á­horf­endur listi­lega í gegnum sorgar­ferli ein­stak­lings sem heyr hetju­lega bar­áttu til að ná stjórn á lífi sínu. Merki­legt er að sjá hvernig Gísli Örn vefur and­legu á­standi per­sónunnar inn í hlaupa­stílinn. Stundum er líkami hans linur eins og strengja­brúða, öðrum stundum grjót­harður eins og hann sé að brynja sig fyrir frekari á­föllum og að lokum flæðandi eins
og vatnið. Ekkert for­eldri á að lifa barnið sitt.

Mið­punktur leik­sviðsins er upp­hækkaður pallur sem á situr hlaupa­bretti. Börkur Jóns­son hannar leik­myndina og þó að hann sé kannski ekki þekktur fyrir naum­hyggju þá hentar sá stíll hæfi­leikum hans mjög vel. Tjaldið sem um­lykur hlauparann á einum tíma­punkti er á­hrifa­mikið en þrengir að­eins of mikið að Gísla Erni þegar það svífur yfir honum.

Leik­stjóri Ég hleyp er Harpa Arnar­dóttir sem nálgast textann með hjart­næmum hætti og textann að leiðar­ljósi, að mestu. Stundum fer hún þó út af sporinu því um leið og stigið er frá textanum og af pallinum þá missir sýningin slag­kraftinn. Orka og að­dráttar­afl sögunnar kjarnast á hlaupa­brettinu, uppi á pallinum, en dvínar um leið og sá hjúpur er rofinn. Við sömu erfið­leika er að stríða í búninga­hönnun Filippíu Elís­dóttur en búninga­skiptin eru þarf­lega mörg og ekki nauð­syn­leg. Best hefði verið að strípa allt niður, alveg eins og ó­nefndi faðirinn flær af sér skinnið, bæði af ást og sorg. Ekkert stendur eftir nema eftir­mynd af mann­eskju, svart­hol sem ó­mögu­legt er að fylla.

Gísli Örn leiðir áhorfendur listilega í gegnum sorgarferli einstaklings sem heyr hetjulega baráttu til að ná stjórn á lífi sínu.

Upp­götvun kvöldsins

Á flestum list­rænum póstum sýningarinnar er lista­fólk hokið af reynslu en upp­götvun kvöldsins er ný­liðinn Ísi­dór Jökull Bjarna­son sem semur tón­listina og hannar hljóð­heiminn. Nálgun Ísi­dórs Jökuls ber merki um þroska og list­rænan skilning enda er hand­verk hans eftir­minni­legt án þess að taka at­hygli frá sýningunni, í stað þess styður tón­listin við og bætir upp­lifunina. Hér er á ferð lista­maður til að fylgjast með.

Ekkert for­eldri á að lifa barnið sitt. Sorgin hverfur aldrei en mögu­lega er hægt að koma henni í nýjan far­veg. Til þess að það sé hægt er nauð­syn­legt að líta inn á við og finna frið með sjálfum sér. Lífið heldur á­fram en verður aldrei eins og áður. Gísli Örn ber Ég hleyp á baki sér og sýnir að hann hefur engu gleymt. Vonandi þurfum við ekki að bíða aftur í tíu ár til að sjá hann á leik­sviðinu því þar á þessi leikari svo sannar­lega heima.

NIÐUR­STAÐA: Gísli Örn hleypur eftir­minni­lega á harða­spretti inn í nístandi sorgina. Ég hleyp er sýning sem enginn má missa af.