Sigrún Eldjárn er í hópi rithöfunda sem tilnefndir eru til Astrid Lindgren- verðlaunanna þetta árið. Nýjasta bók hennar er Gullfossinn, þriðja bókin um Sumarliða, Sóldísi og Karítas í þríleik sem hófst með Silfurlyklinum. Síðan kom Kopareggið og núna rekur Gullfossinn smiðshöggið.

„Kopareggið endaði snögglega og ekki seinna vænna að fá núna framhaldið og binda þannig enda á óvissuna,“ segir Sigrún. „Í Gullfossinum fléttast saman ýmsir þræðir úr fyrri bókunum og persónur úr þeim birtast á ný eins og til dæmis konungur rustanna, konurnar í Kvennagjánni, sauðmeinlausi sölumaðurinn og fréttahaukur með rósóttan skýluklút, hoppandi um á kengúrupriki. Auk þess dúkka upp nýjar persónur. Karítas fer að leita að sjálfri sér og finnur bæði sig og glataðan ættingja. Sumarliði og Sóldís eignast lítinn bróður sem fær nafnið Sólon.

Þríleikurinn gerist í framtíðinni, þegar öll tæknin sem við erum vön í dag, virkar ekki lengur. Ekki símarnir né tölvur og tæki sem við tökum sem sjálfsögðum hlut. Það er ekkert rafmagn og öll slík tæki því óvirk. Bækur virka hins vegar alveg jafnvel og alltaf. Þær ganga nefnilega ekki fyrir rafmagni.

Söguhetjurnar mínar, Sóldís og Sumarliði, Karítas og Máni, þurfa að fást við alls konar knýjandi úrlausnarefni. Þau koma á laggirnar skóla til að kenna krökkum og fullorðnum að lesa á ný og þau uppgötva verslunarmiðstöð sem sauðmeinlausi sölumaðurinn hefur sett á laggirnar. Þar er selt alls kyns gamalt og bilað dót sem hugsanlega mætti nýta á nýjan hátt. Þarna eru líka talsverðar pælingar um orkumál og hvernig hægt sé að búa til rafmagn á ný með vatns-, vind- og sólarorku. Latína kemur meira að segja örlítið við sögu.

Eins og nafnið gefur til kynna á stór og mikill foss sinn þátt í þessari þriðju og síðustu bók. Hann skiptir máli sem vatnsforði, lífgjafi, hugsanlegur orkugjafi og svo síðast en ekki síst vegna fegurðar sinnar og tignarleika.

Í sögunni er líka dálítið tímaflakk á ferðinni þar sem strákur úr okkar samtíma villist inn í framtíðarheim Sumarliða og Sóldísar. Hann þarf að sinna þar mikilvægu verkefni áður en hann snýr aftur til síns tíma.”

Von í sögunum

Börn hafa áhyggjur af umhverfismálum. Hvernig vildirðu fjalla um þau mál í þessum bókum og hversu dökk má framtíðarsýnin vera?

„Í bókunum kemur ekki beinlínis fram hvað það var sem olli því að allt fór í steik. En það er alveg hægt að gera sér ýmislegt í hugarlund. Ég vil alls ekki skrifa sögur sem valda börnunum áhyggjum. Þessi þríleikur er alls ekki þannig. Það er einmitt mikil von í þessum sögum. Þær eru skrifaðar til að vera skemmtilegar, spennandi og fyndnar en eiga líka að ýta svolítið við og fá okkur til að hugsa á nýjum nótum.“

Hvernig tilfinning er að skilja við þessar persónur?

„Það er góð tilfinning að skila fólkinu frá sér. Ég er ánægð með þau og sátt við hvernig þau ætla að sjá til þess að framtíðin verði bjartari og betri. Það er líka alltaf gaman að hnýta endahnút á svona seríu og snúa sér að nýjum karakterum sem gera eitthvað allt annað.”

Án þess að þú upplýsir hvernig bókin endar, skilurðu þá við persónurnar á góðum stað?

„Lesendur mínir þurfa alls ekki að hafa áhyggjur af Sóldísi og Sumarliða, Karítas og Mána. Og þeir þurfa heldur ekki að hafa áhyggjur af framtíðinni. Það glaðnar nefnilega yfir heiminum í lok þessa þríleiks. Litirnir verða skarpari, loftið hreinna, gróðurinn grænni og fólkið glaðara. Allt verður fallegra og betra!“

Mikilvægt starf

Silfurlykillinn hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin. Skipti sú viðurkenning þig máli?

„Sú viðurkenning, og allar aðrar sem ég hef fengið, skiptir mig miklu máli. Líka viðbrögð sem ég fæ frá lesendum, bæði börnum og foreldrum. Þau segja mér að ég sé á réttri braut og hvetja mig til að halda áfram. Mér finnst ég gegna mikilvægu starfi sem höfundur barnabóka og hvet fólk til að halda góðum bókum að öllum börnum. Ég hef nú skrifað og teiknað bækur fyrir krakka í heil fjörutíu ár og mér finnst ég eiginlega bara rétt vera að byrja.“

Ertu byrjuð á nýjum verkefnum?

„Já, ég er auðvitað löngu komin af stað með ný verkefni. Lífið heldur nefnilega áfram!“

Sigrún myndskreytir bók sína, eins og fyrri bækurnar í þríleiknum.