Hulda Hjálmarsdóttir þekkir það á eigin skinni að enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Hlaupin hafa þjónað sem líkamlegt og andlegt haldreipi fyrir hana og eftir að hafa slitið krossband fyrr á árinu hlakkar hún til að geta reimað á sig hlaupaskóna í haust.

„Ég hef alltaf verið mikið í íþróttum og stundaði meðal annars mikið útihlaup. Hlaupin hafa alltaf heillað mig og síðari ár hef ég verið að færa mig meira og meira yfir í utanvegahlaupin,“ segir Hulda. Einungis fimmtán ára gömul fékk hún bráðahvítblæði sem setti heldur betur strik í reikninginn hjá henni.

„Eftir endurhæfinguna vegna bráðahvítblæðisins fór ég mikið út að hlaupa til að koma mér í form. Ég byrjaði hægt. Gekk fyrst stutta hringi. Svo fór ég lengra. Því næst fór ég að hlaupa á milli ljósastaura og ganga til skiptis þar til ég gat hlaupið lengra og lengra. Að geta hlaupið gaf mér ótrúlega frelsistilfinningu, því í fyrstu hafði ég varla kraft til að labba upp stigann heima hjá mér. Svo var ég farin að geta hlaupið. Mér leið eins og ég væri svo lifandi. Í framhaldi af þessu hef ég sótt æ meira í hlaupin. Þau er eitt af bjargráðum mínum til að halda geðheilsunni,“ segir Hulda, sem starfar í dag sem framkvæmdastjóri Krafts, stuðningsfélags fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur.

Að geta hlaupið gaf mér ótrúlega frelsistilfinningu, því í fyrstu hafði ég varla kraft til að labba upp stigann heima hjá mér. Svo var ég farin að geta hlaupið. Mér leið eins og ég væri svo lifandi.

Markmið eru mikilvæg

Í kringum 2011 tók Hulda þátt í sínu fyrsta keppnishlaupi á vegum Reykjavíkurmaraþonsins, en þá hljóp hún 10 km. „Þá safnaði ég áheitum fyrir Kraft og setti mér markmið að hlaupa vegalengdina á undir klukkutíma. Mér finnst mikilvægt að setja sér markmið og að hafa einhverja gulrót til að hvetja mann áfram, því þá stundar maður af meira kappi en ella. Ég setti mér upp prógramm og svo hjálpaði mér að taka þátt í ýmsum hlaupum sem haldin eru í aðdraganda Reykjavíkurmaraþonsins sem hjálpa manni að byggja sig upp. Svo leiddi eitt af öðru og árið eftir skráði ég mig í hálfmaraþon í Reykjavíkurmaraþoninu og hljóp það aftur ári síðar. Þá tók ég einnig þátt í Stjörnuhlaupinu, Suzukihlaupinu og mörgu fleiru. Svona hlaup eru mjög sniðug leið til að setja sér markmið og fá hvatningu til að hlaupa meira.“

Enn meira frelsi

Fyrir um fimm árum árum byrjaði Hulda að stunda utanvegahlaup. „Ég skráði mig fyrst á námskeið hjá Náttúruhlaupum og í fyrstu var ég ekkert að skilja út á hvað þetta gekk. Mér fannst þau hlaupa á svo hægu tempói. En svo fattaði ég tilganginn og fór að kunna að meta þetta betur og betur. Náttúruhlaupin snúast um að fara út í náttúruna og sameina hreyfingu og náttúruveru. Það er líka heppilegt hvað það er stutt að sækja í náttúruna í nágrenni við höfuðborgarsvæðið en hér allt í kring eru gullfallegar náttúruperlur eins og Öskjuhlíðin, Hvaleyrarvatn í Hafnarfirði og Heiðmörkin. Nú kýs ég utanvegahlaupin fram yfir götuhlaupin. Þetta er alger heilun og ég elska að reima á mig hlaupaskóna, anda að mér fersku lofti, heyra í fuglunum, vera meðvituð, njóta og vera í núvitund. Partur af þessu er að leyfa sér að hlaupa á hægara tempói, njóta, leyfa sér að stoppa og leggjast jafnvel í grasið eða mosann.“

Erfiðast, segir Hulda, er að halda sér hlaupandi yfir vetrartímann. „Ég er mjög dugleg að fara út á vorin, og auðvitað sumrin og svo haustin. En mér finnst ekki gaman að fara út í frosti í skammdeginu með höfuðljós út að hlaupa. Yfir vetrartímann vil ég frekar stunda annars konar íþróttir eins og skíði og gönguskíði.“

Hulda kann vel að meta frelsið sem fæst af því að hreyfa sig úti í náttúrunni.

Hætti tvisvar við Laugaveg

„Síðasta sumar fór ég á gönguskíðum þvert yfir Vatnajökul með ellefu konum sem kalla sig Snjódrífurnar. Við vorum að safna áheitum fyrir Líf og Kraft. Ég hafði skráð mig sama sumar í Laugavegshlaupið, en þegar ég kom niður af jöklinum voru hnén svo aum að ég treysti mér ekki í hlaupið. Því beið ég spennt í vetur eftir því að skrá mig í Laugavegshlaupið núna í sumar og sat við tölvuna til að ná mér í sæti í hlaupið. Ég var ein af þeim heppnu og var orðin mjög spennt.

Hulda varð svo óheppin í febrúar að detta á skíðum. „Sex vikum síðar kom í ljós að ég var með slitið krossband. Ég var því ekki að fara að hlaupa eða hreyfa mig mikið í sumar og þurfti því enn og aftur að hætta við Laugavegshlaupið.

Maður fattar nefnilega oft ekki hvers maður saknar mest fyrr en það er tekið frá manni.

Núna er ég nýbúin í aðgerð og það er löng endurhæfing fram undan. Mér skilst að ég megi byrja að hjóla í júní og fara í styttri gönguferðir án hækkunar. Ef allt gengur að óskum ætti ég að geta tekið styttri skokk í september, þá utan vegar en ekki á malbiki. Í miðjum faraldrinum átti ég erfitt með að koma mér út að hlaupa, en núna finn ég svo vel að þegar það er eitthvað sem maður má ekki gera, þá horfir maður á það öfundaraugum. Maður fattar nefnilega oft ekki hvers maður saknar mest fyrr en það er tekið frá manni.“

Góð ráð

Hulda lumar á frábærum ráðum fyrir byrjendur sem langar að koma sér af stað í hlaupunum. „Það geta allir hlaupið, nema fólk sé með einhver undirliggjandi vandamál í hnjám eða fótleggjum. Fyrir byrjendur er um að gera að fara hægt af stað. Að byrja á að labba og hlaupa til skiptis. Svo er hægt að byggja jafnt og þétt ofan á. Ef maður byrjar of geyst er hætta á að maður lendi á vegg, slasi sig eða gefist upp. Það er líka hvetjandi að eiga góðan hlaupafélaga eða að vera í góðum hlaupahóp. Svo er um að gera að gera hlaupin á sínum tíma, hlusta á gott hlaðvarp, tónlist eða hljóðbók. Það er nauðsynlegt að fá að vera í sínum heimi og gera þetta á sínu tempói. Ég hvet fólk líka til þess að nýta sér náttúruperlurnar í nágrenninu. Það er ótrúlega nærandi að komast út úr borginni. Ég mæli líka með að fá sér snjallforrit í símann til að koma sér af stað. Það er meðal annars til app sem hjálpar manni að æfa sig í að hlaupa fimm kílómetra án þess að stoppa og ganga,“ segir Hulda.