Skáldsagan, eða nóvellan, Þung ský er að nokkru leyti byggð á mannskæðasta flugslysi Íslandssögunnar. Flugvél með 25 manns innanborðs rakst á Hestfjall í Héðinsfirði árið 1947. Listræn tök minna um sumt á síðustu bók Einars Kárasonar, Stormfugla, en þessar bækur tengjast þó einungis á vinnubrögðum höfundarins.

Einar Kárason er bráðsnjall sögumaður. Málfar á bókinni Þung ský er hófstillt, rétt eins og í Stormfuglum, en það er nákvæmt og stefnir markvisst að því að frásögnin njóti sín sem best. Höfundurinn breiðir lítið úr texta sínum með ræðulist. Hallar sér frekar að knöppum stíl þar sem harmur, ást og örlög liggja milli línanna en hið viðkvæma mannlíf þarf að horfast í augu við óbrigðula hörku dauðans sem bíður okkar allra. Undan því verður ekki vikist en þeim mun glaðari verðum við alltaf ef einhver bjargast og fær að lifa örlítið lengur.

Frásögn Einars er að sjálfsögðu öðruvísi en sú saga sem sögð hefur verið af þessum atburðum. Mörgu er breytt, persónurnar skáldskapur og sagan er færð til í tíma. Hér er talað út frá bók Einars en á okkar margræddu upplýsingatímum geta allir að sjálfsögðu kynnt sér þá mynd af þessum atburðum sem áður hefur verið dregin upp. Á sögutímanum var tækjakostur til blindflugs mjög rýr miðað við það sem nú er og menn urðu að fljúga sjónflug ef eitthvað var að skyggni.

Í frásögn sinni byggir Einar nokkuð á tímasetningum þannig að við fáum smám saman upplýsingar um það hvenær flugvélin leggur af stað, hvenær menn byrja að sakna hennar, hvar og hvenær hefur sést til hennar og síðan er sagt frá leitinni. Í fámenninu á þeim annesjum sem næst eru slysstaðnum kynnumst við persónum sem við fylgjum gegnum söguna. Sjónbeiningin er smekklega færð í tíma og rúmi, milli heimamanna, aðkominna leitarmanna, farþega flugvélarinnar og milli einstaklinga í þessum hópum.

Þannig er spennu haldið við því höfundurinn kann vel þá list eða íþrótt sögumannsins að bíða, fresta upplýsingum og stilla sig um að svara þeim spurningum sem í loftinu liggja.

Í frásögn Einars eru næmar og hlýlegar mannlýsingar sem minna okkur á gömul sannindi fornra og nýrra frásagna: Þegar um líf og dauða er að tefla vitum við ekki hver reynist best fyrr en þar að kemur. Enn getur hetjunum orðið fótaskortur en kolbíturinn náð vopnum sínum, rétt eins og í Íslendingasögum og allar götur síðan.

Góð frásögn lifir gjarnan á því sem enginn sá fyrir en allir neyðast til þess að trúa, þegar það hefur gerst. Hetjuskapur getur verið eins og leikþáttur sem skyndilega er lokið, hann getur birst í skyldurækni og tryggð við mannlífið án þess að hetjunum hafi nokkurn tímann, fyrr eða seinna, komið í hug að kalla framgöngu sína hetjuskap, og hann getur birst í ósjálfráðum viðbrögðum sem hetjan skilur ekki einu sinni sjálf.

Stutt saga af óhugnanlegum atburðum getur orðið speglasalur fyrir mannlífið.

Í sögu sem byggð er á jafn hörmulegum atburði og þessum þarf jafnframt að að segja frá einhverju fögru. Andstæður eru sögum mjög nauðsynlegar, rétt eins og allri hugsun okkar yfirleitt og sögumaðurinn bregst okkur ekki í því frekar en í öðru.

Niðurstaða: Meitluð frásögn af sterkum tilfinningum, lífi og dauða. Höfundurinn er þaulreyndur sagnamaður og frásögnin nýtur þess út í ystu æsar.