Úthverfamamma sem hefur unun af því að njóta alls þess sem náttúra Íslands hefur upp á að bjóða í gegnum útivist og hreyfingu. Allt árið stunda ég fjalla- og malarhjólreiðar og á veturna nærir fjallaskíðamennskan ævintýraþrána,“ svarar Halla þegar hún er beðin um að lýsa sér í stuttu máli.

„Fjallaskíðari, fjallahjólari, fjölskyldumaður, línumaður og Land Rover eigandi,“ svarar Franz.

Síðbúin en áköf ástríða

„Örlaganornirnar leiddu okkur saman í gegnum útivist og ævintýraþrá.“ Það stendur ekki á svörum þegar Franz er spurður að því hvort hann hafi alla tíð verið mikill útivistarmaður en ljóst er að kynni hans við Höllu hafa umturnað lífi hans. „Aðallega eftir að ég varð svo heppinn að kynnast dís drauma minna! Við erum svo heppin að hafa brennandi áhuga á útivist, leik og ævintýramennsku í gegnum útivist. Að mínu mati eykur það lífsgæðin að lifa með sömu áherslu í lífinu.“

Þá segir Halla að hún hafi ekki stundað íþróttir á sínum yngri árum. „Sem barn og unglingur fann ég ekki íþróttagrein sem höfðaði til mín og því voru skólaíþróttirnar einu íþróttirnar sem ég „stundaði“. Það var ekki fyrr en ég er að verða tvítug sem ég finn mitt áhugasvið í reglulegri hreyfingu úti í náttúrunni og síðan um þrítugt sem ég byrja að stunda reglulegar hjólreiðaæfingar allt árið.“

Fjölskyldan saman í skíðaferð í Hlíðarfjalli, í sjöunda himni.

Innblástur sækja þau víða og nefnir Franz í því samhengi samstarfsfélaga sína. „Ég er einnig svo heppinn að starfa með mestu nöglum og heljarmönnum landsins sem línumaður hjá Landsneti þar sem grjóthörðustu iðnaðarmenn landsins vinna. Þar er ég mikið úti og tekst oft á tíðum við mikil óveður eins og hafa gengið yfir landið síðustu vikur.“

Náttúruunnendur alla tíð

Halla segir náttúruna löngum hafa heillað. „Náttúran og fjöllin hafa alltaf kallað á mig og mér finnst mikilvægt að geta haft stóran hluta af minni hreyfingu úti, því það endurnærir mig svo miklu meira en æfingar og hreyfing innanhúss. Ég er svo heppin að hafa útivistina í blóðinu þar sem foreldrar mínir eru útivistarfólk og náttúruunnendur og ég ólst upp við alls konar skemmtilegar fjallaferðir og ferðalög um Ísland.“

Franz tekur undir þau orð. „Ég var líka heppinn að fá að alast upp sem Eyjapeyi í Vestmannaeyjum. Þar kviknaði strax mikil ævintýraþrá, enda mikil forréttindi að ganga laus alla æskuna upp um fjöll og fjörur úti í náttúruparadísinni sem þar er. Útivistarþráin minnkaði eftir að ég flutti í borg óttans sem unglingur, en sem betur fer tók hún sig upp aftur með endurnýjuðum kynnum við gamla og góða vini.“

Hjálparstarf og hugdirfska

Bæði Halla og Franz hafa sinnt sjálfboðaliða- og björgunarstarfi sem þau segja hafa orðið kveikju að enn frekari útivistarástríðu. „Það er um 17 ára aldur sem ég fer með vinum mínum á nýliðakynningu hjá Hjálparsveit skáta í Kópavogi og byrja þá að starfa með björgunarsveit. Meðfram því starfi fer ég meira að hugsa um reglulega hreyfingu og byrja að stunda fjallgöngur og vetrarferðamennsku af krafti. Það er ótrúlega mikill lærdómur og góður grunnur fyrir fólk sem vill njóta útivistar úti í náttúrunni allt árið að klára nýliðaprógramm hjá björgunarsveit og mjög gefandi að geta gefið af sér á móti með sjálfboðavinnu fyrir sveitina í formi alls konar verkefna,“ segir Halla.

Franz og Halla alsæl á Illviðrishnjúk fyrir ofan Siglufjörð með Fljótin í baksýn.

Franz hefur svipaða sögu að segja. „Það má segja að hún hafi farið á fullt þegar ég tók nýliðaprógramm hjá Flugbjörgunarsveitinni í Reykjavík. Þar varð ég ástfanginn af landinu okkar og komst í kynni við að kljást við erfiðar aðstæður og lærði að njóta þessa frábæra leiksvæðis sem við eigum á Íslandi. En það eru margar hættur sem vert er að varast og bera virðingu fyrir.“

Hann segir þessi reynslu afar dýrmæta og telur að nám af þessu tagi ætti að vera sýnilegra. „Í nýliðaprógramminu fékk ég mjög góðan grunn sem ég byggi á í dag og notast við í mínum ævintýrum. Að mínu mati er þetta einn sá besti skóli sem hægt er að fá, ef menn hafa áhuga á því að leggja land undir fót og vera úti í þessari náttúruparadís. Að mínu mati ættu að vera svipaðir áfangar í skóla sem fólk gæti tekið og valið svo um að ganga í björgunarsveit þegar þeim væri lokið.“

Ávinningurinn yrði umtalsverður. „Ég tel að þetta myndi opna augu fólks fyrir því hvað náttúran sem við höfum hér á Íslandi hefur upp á ótrúlega mikið að bjóða. Þetta væri eins og að hafa herskyldu, nema ekki her og ekki heldur skyldu, heldur opið þeim sem hafa ævintýraþrá og öðlast þannig grunnþekkinguna sem þarf til að bera virðingu fyrir náttúrunni. Svona þekking býr með manni alla ævintýraævina.“

Fjallaskíðamennskan

Eitt af því sem þau Halla og Franz eiga sameiginlegt er dálæti þeirra á fjallaskíðamennsku. „Fyrstu „fjallaskíðin“ keypti ég mér áður en ég fór 19 ára gömul til Austurríkis til að vinna yfir veturinn á skíðasvæði, eftir að hafa klárað menntaskólann. Þetta voru Telemarkskíði, en Ragna vinkona mín hafði nýlega fengið sér svona skíði. Við höfðum báðar verið á skíðum frá því að við vorum litlar og þetta var því eitthvað nýtt og líka spennandi áskorun. Við notuðum því veturinn í Austurríki vel til þess að æfa Telemarksveifluna,“ skýrir Halla frá.

„Skíðin fengu svo að víkja fyrir snjóbretti sem var stundað í nokkur ár og þessi mikli áhugi á fjallaskíðum kviknaði ekki af alvöru fyrr en nokkrum árum seinna, þegar löngunin til að ganga upp fjöll á skíðum og hafa möguleikann á að skíða niður varð sterkari. Þá ég fékk ég mér góð fjallaskíði sem voru ætluð til skíðunar í lausum snjó og hef ekki snúið til baka á einskíðið síðan.“

Áhuga Franz má rekja enn lengra aftur í tímann. „Sem Eyjapeyi ólst ég upp við að nota svört plastbretti niðri á Stakkó. Þau voru með gúmmíteygjum sem maður tosaði yfir skóna sína. Að vísu er ég undan Leifs-systkinum frá Akureyri sem er mikil skíðafjölskylda, Íslandsmeistarar og Ólympíufarar. Það má því segja að það sé mér í blóð borið að vera á skíðum, þó að ég hafi byrjað frekar seint. Ég var orðinn 26 ára þegar ég fór í fyrstu fjallaskíðaferðina með Ottó frænda á Skálafell.“

Óviðjafnanleg tilfinning

Franz segir fátt jafnast á við fjallaskíðamennskuna og að Ísland sé kjörið fyrir iðkun af þessu tagi. „Æ fleiri eru að uppgötva þessa lífsgæðaparadís sem fjallaskíðamennska er og góð skíðalína getur verið sterkasta gleðivíma sem þú færð. Ég get upplifað fiðringinn í maganum árum síðar, bara með því að tala um hana við vini sem tóku línuna með mér. Hér heima höfum við svo mikla möguleika á að nýta allt sem landið okkar hefur upp á að bjóða í fjallaskíðamennsku.“

Halla á leið sinni upp Arnfinnsfjall.

Mikil tilhlökkun fylgi iðkuninni. „Fjallaskíðin næra algjörlega fjallaþrána yfir vetrartímann. Í myrkasta skammdeginu, kulda og óveðri þá er bara svo ótrúlega gaman að hafa alltaf eitthvert „ævintýri“ að stefna að og njóta þess að stunda útivist að vetri í góðum vinahópi,“ segir Halla og bendir á að árstíðirnar bjóði upp á kærkomna fjölbreytni. „Fjallaskíðavertíðin hefst yfirleitt um leið og nægur snjór er kominn í fjöllin, sem er breytilegt milli árstíða, og nær svo fram á vorið þegar fjalla-, malar- og götuhjólreiðarnar taka yfirleitt alveg við hjá mér. Það er svo magnað að hlakka alltaf til næsta vetrar þegar margir bíða alltaf bara eftir næsta sumri. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir mig að hafa fjölbreytni í þeirri hreyfingu sem ég stunda auk þess að komast út að hreyfa mig og það hjálpar mikið að geta gengið að skemmtilegu vetrarsporti, skíði, fjallaskíði og gönguskíði.“

Franz lætur veðrið ekki heldur stöðva sig. „Það koma nýjar áherslur þegar það kemur nýtt undirlag úti. Ég nota bara þau leiktæki sem henta því sem er í boði akkúrat á þeirri stundu. Fjallaskíðavertíðin stendur hæst í mars, apríl og maí en hægt er að skíða alla mánuði ársins. Það þarf bara að hafa aðeins meira fyrir því að finna línurnar.“

Fjölskylduferðalögin gefandi

Þau segja fjölskyldulífið fléttast vel saman við útivistarástríðuna. „Það er mjög gefandi að kynna útivist og ferðalög fyrir börnunum sínum og leyfa þeim að njóta náttúrunnar á sínum forsendum. Lykillinn er að búa til ævintýri og hafa gaman. Leyfa þeim svolítið að stjórna ferðinni og hætta eða taka pásur áður en allir verða of þreyttir og pirraðir. Þau þurfa oft hvatningu til þess að komast af stað en þegar út er komið er alltaf jafn gaman.“

Hugmyndir Höllu og Franz um slökun koma kannski ekki á óvart. „Það er ekkert eins slakandi og endurnærandi fyrir hugann en að standa frammi á brún fjallsins eftir góða göngu og það eina sem kemst að í huganum er tilhlökkunin fyrir niðurleiðinni,“ segir Franz og Halla tekur undir. „Að hjóla, skíða og ferðast eru okkar ær og kýr og við komum endurnærð og full af súrefni og orku til baka, tilbúin til að takast á við komandi viku.“

Það er ekki úr vegi að spyrja hvort þau hafi einhverja veikleika. „Franz á erfitt með að setja á rétt prógramm á þvottavélinni og Halla er lélegur kokkur!“