Áður fyrr voru endurskoðunarskrifstofur fullar af pappír. Skrifstofa hins dæmigerða endurskoðanda einkenndist af miklum blaðastöflum og möppum og einnig var mikið af möppum í hillum upp við veggi. Ef maður horfir á gamanmyndir þar sem endurskoðendur koma við sögu þá er þetta myndin sem maður sér. Það er karlmaður með gleraugu að vinna umkringdur pappír og möppum,“ segir Sif.

„Nú til dags fer nánast öll endurskoðun fram rafrænt. Endurskoðunarfyrirtækin eru mörg hluti af alþjóðlegum endurskoðunarfyrirtækjum, eins og hjá Deloitte, og við notum sérstök gæðakerfi til að vinna vinnuna. Smærri endurskoðunarfyrirtæki fá líka faglegan stuðning frá Félagi löggiltra endurskoðenda til að geta notað gæðahugbúnað. Við erum því raunverulega ekki með neinn pappír lengur.“

Aukin aðgangsstýring

Önnur stór breyting er aukin aðgangsstýring á gögnum. Endurskoðendur vinna með trúnaðargögn. Með aukinni tölvuvæðingu innan greinarinnar er hægt að skilgreina niður á einstaklinga hverjir hafa aðgang að gögnum fyrir ákveðin verkefni og ákveðin fyrirtæki.

„Þegar endurskoðunarvinnu lýkur og búið er að gefa út áritun á reikningsskilin, þarf að loka skránni varanlega fyrir viðkomandi verkefni. Þá er tekið afrit og eftir það er ekki hægt að breyta neinu,“ segir Sif.

„Með nútímaframförum í upplýsingatækni hefur það aukist að gera greiningar á öllum færslum í stað þess að taka úrtak. Dæmi um greiningar á færslum er til dæmis þegar farið er yfir reikningsskil og reynt að útiloka að sviksemi hafi átt sér stað.“

Sjálfvirknivæðing mun aukast með róbótum

Sif segir að ein af nýjustu breytingunum á starfi endurskoðandans tengist sjálfvirknivæðingu ferla, t.d. með svokölluðum róbótum. Horft er á að sjálfvirknivæðing muni aukast í framtíðinni en Deloitte notar hana einkum við bókhald og afstemmingar. „Það að nota róbóta í afstemmingarnar þýðir að hægt er að ná yfir stærra mengi gagna og gefa einnig á sama tíma mun áreiðanlegri niðurstöður.“ Hún telur þó að endurskoðendur þurfi ekki að hafa áhyggjur af því að verða óþarfir með aukinni sjálfvirknivæðingu. „Það þarf alltaf þetta mannlega auga til að skipuleggja vinnuna út frá faglegu mati og leggja mat á niðurstöður.“

Áður fyrr þurftu endurskoðendur alltaf að hafa djúpa og almenna þekkingu á öllu sem viðvék endurskoðun, reikningsskilum og skattamálum. En Sif segir að í dag séu þeir orðnir mun sérhæfðari og með djúpa þekkingu á ákveðnu sviði. „Endurskoðunarfyrirtækin í dag eru flóknari og sérhæfðari. Þau hafa mörg komið sér upp fjármálaráðgjafardeildum, skatta- og lögfræðideildum, deildum sem sérhæfa sig í innra eftirliti og innri endurskoðun, bókhaldsdeildum og ráðgjafardeildum, meðal annars á sviði upplýsingatækni.

Deildin sem ég starfa í er með sérhæfingu sem styður við endurskoðunarvinnuna meðal annars í tengslum við upplýsingatækni. Ég veiti ráðgjöf í innra eftirliti, áhættustýringu og stjórnarháttum en sé í dag ekkert um að árita reikningsskil,“ segir Sif.

Sérhæfingin spennandi

Sif nefnir að endurskoðendur þurfi að fylgjast vel með nýjum lögum og öðrum ytri kröfum og hafa eftirlit með því að fyrirtækin fylgi þeim. Endurskoðunarfyrirtækin hafa því sérhæft sig í til dæmis löggjöf um jafnlaunavottun, um varnir gegn peningaþvætti og vörnum gegn netógnum.

„Aukin eftirspurn eftir sérhæfingu veldur því að starfsfólk endurskoðunarfyrirtækja sérhæfir sig gjarnan á ákveðnu sviði. En það er spennandi fyrir þá sem vilja að læra endurskoðun. Það er gaman að fá að sérhæfa sig og kafa djúpt í hlutina.“

Sif leggur áherslu á að starf endurskoðandans sé alls ekki þurrt og leiðinlegt eins og er stundum sýnt í gamanmyndum. „Starfinu fylgja spennandi og skemmtileg verkefni og möguleiki á góðum launum. Það er mikið um erlend tengsl og samskipti hjá alþjóðlegu endurskoðunarfyrirtækjunum og þau eru mjög skemmtileg og gefandi. Við hjá FLE viljum hvetja fólk til að fara í námið og stefna á löggildingu sem endurskoðandi.“