Tu jest za drogo / Úff hvað allt er dýrt hérna

eftir Ólaf Ás­geirs­son

Borgar­leik­húsið í sam­starfi við leik­hópinn PóliS

Leikarar: Aleksandra Skolozynska, Jakub Ziemann, Ólafur Ás­geirs­son, Sylwia Za­jkowska og Andrés P. Þor­valds­son

Leik­stjórn: Salvör Gull­brá Þórarins­dóttir

Tón­list: Unn­steinn Manuel Stefáns­son

Leik­mynd og búningar: Wiola Ujazdowska

Lýsing: Fjölnir Gísla­son

Fram­kvæmda­stjórn og að­stoðar­leik­stjórn: Hjalti Vig­fús­son

Textun: Szymon Kel­er

Sviðs­hreyfingar: Ca­meron Cor­bett

Sýningin er að mestu á pólsku en einnig á ís­lensku og ensku

Leik­hópurinn PóliS er mættur aftur á svæðið, stærri en áður og nú í Borgar­leik­húsinu, en hópurinn saman­stendur af pólsku og ís­lensku lista­fólki sem skoðar og svið­setur reynslu­heim pólskra inn­flytj­enda á Ís­landi. Sýningin Úff hvað allt er dýrt hérna um­hverfist um ferða­lag ungs pólsks pars frá Pól­landi til Eski (Eski­fjarðar) í von um skjótan gróða á meðan þau skipu­leggja brúð­kaupið sitt. Á leið sinni hitta þau kyn­lega kvisti, bæði pólska
og ís­lenska, og reka sig reglu­lega á hversu dýrt allt er á Ís­landi.

Fá­ein praktískt at­riði áður en haldið er á­fram. Þar sem sýningin fer fram á pólsku er mikil­vægt að ná í smá­forritið THEA í snjall­síma áður en haldið er inn í sal. Borgar­leik­húsið sendir greinar­góðar upp­lýsingar til miða­hafa á sýningar­deginum um hvernig skal tengjast for­ritinu. Að sjá sýningu á öðru tungu­máli en ís­lensku er kær­komin breyting og opnar fyrir ótal spennandi mögu­leika í fram­tíðinni.

Sundur­slitið grín

Ólafur Ás­geirs­son semur hand­ritið, væntan­lega með inn­leggi frá pólska lista­fólkinu. Hér er á ferðinni eins konar sjálf­stætt fram­hald af fyrri sýningu leik­hópsins Úff hvað þetta er slæm hug­mynd sem sýnd var fyrir ári síðan. Það er svo sannar­lega inni­stæða til að gera stólpa­grín að staðar­háttum, hefðum og hegðun Ís­lendinga. Glöggt er gests augað. Pylsur í fransk­brauði, lakkrís í öllu sæl­gæti og hvers­dags­legir for­dómar í garð út­lendinga, nóg af þeim. Málið er að tæki­færunum til að kafa ofan í efnið er allt­of oft sólundað fyrir sundur­slitið grín í staðinn fyrir að taka mál­efnið föstum tökum.

Unga parið, Nadzi­eja og Eu­geniusz, leika Aleksandra Skolozynska og Jakub Ziemann en þau tóku ein­mitt líka þátt í fyrri sýningu leik­hópsins. Sam­bandið þeirra á milli er gott og nær­vera þeirra á sviði ljúf en á­huga­vert væri að sjá þau takast á við karaktera sem geyma meiri dýpt. Auð­vitað er Tu jest za drogo grín­sýning en á­horf­endur ná ekki að kynnast þeim nægi­lega vel.

Plakat/Borgarleikhúsið

Mis­vel heppnað

Ólafur skrifar ekki einungis hand­ritið heldur leikur einnig fjöl­mörg hlut­verk í sýningunni, að mestu á pólsku. Karakterarnir eru þó mis­vel heppnaðir, þá sér­stak­lega leikarinn Ólafur Hvann­dal sem situr illa í sýningunni og tekur of mikið pláss. Uppi­standarinn Kata aftur á móti er frá­bær. Upp­full af for­dómum og for­réttindum án þess að hafa hug­mynd um það. Hlut­verk Ólafs skila sér best þegar þau eru í menningar­legu mót­vægi við Alek­söndru og
Jakub en ekki yfir­þyrmandi.

Þrenningunni til að­stoðar eru Sylwia Za­jkowska og Andrés P. Þor­valds­son sem bregða sér í hlut­verk flug­þjóna og eru virki­lega skemmti­leg. Þau koma sýningunni af stað og leika önnur smærri hlut­verk. En eina mann­eskju verður að ræða líka. Ef á­horf­endur sáu fyrri sýningu hópsins þá þekkja þau svo sannar­lega Agni­ezsku í Lands­bankanum, líkt og allir Pól­verjar á landinu að svo virðist. Hún kemur fyrir í litlu hlut­verki sem mætti svo sannar­lega vera stærra.

Tu jezt za drogo er ekki gallalaus en langt ferðalag byrjar með fyrstu skrefunum.

Of lengi í gang

Salvör Gull­brá Þórarins­dóttir snýr aftur til að leik­stýra PóliS en líkt og með hand­ritið hefur lítið breyst frá fyrri sýningu hópsins. Tu jest za drogo er of lengi í gang, skerpa þarf á ein­staka at­riðum og senu­skipti taka of langan tíma. Leik­hópurinn fær tón­listina úr bestu átt þar sem Unn­steinn Manuel Stefáns­son er við stjórn­völinn. Erfiðara er að skilja á­kveðna tón­listar­tengda brandara eins og Drogostea Din Tei betur þekkt sem Numa Numa lagið
úr Euro­vision og hið ítalska Paro­le paro­le. Út­varps­grínið virkar hins vegar eins og í sögu. Búningar og leik­mynd Wiola Ujazdowska eru kannski með ein­faldara móti en búningur Kötu hittir í mark sem og Skóga­foss sem er mikil­feng­legur og niður­drepandi í senn. Ca­meron Cor­bett sér um sviðs­hreyfingarnar sem eru eins konar blanda af mið­aldra partí­sporum, dragi og Euro­vision, frá­bært inn­legg.

Á þessum síðustu og skelfi­legustu tímum í Evrópu er sam­staða og sam­eigin­legur skilningur á milli þjóða, sam­fé­laga og ein­stak­linga af mis­munandi upp­runa ekki bara nauð­syn­legur heldur lífs­nauð­syn­legur. Það var á­hrifa­mikið að sjá Sylwiu og Andrés bera barm­merki úkraínska fánans á brjósti sér þegar tekið var á móti á­horf­endum inni í sal og enn þá á­hrifa­meira að sjá hópinn halda úkraínska fánanum á lofti í lok sýningar. Tu jezt za drogo er ekki galla­laus en langt ferða­lag byrjar með fyrstu skrefunum sem PóliS er svo sannar­lega að taka.

Niðurstaða: Boð­skapurinn og bestu brandararnir rétt­læta margt en nú þarf PóliS að taka næsta list­ræna skrefið.