Menning

Það er nefnilega svo auðvelt að vera hálfviti

Hans Blær nefnist nýtt verk eftir Eirík Örn Norðdahl sem verður frumsýnt í Tjarnarbíói í kvöld í leikstjórn Vignis Rafns Valþórssonar.

Vignir Rafn segir að ekkert sé heilagt, umfjöllunarefnið, leiksýningin eða hvað sem er, fjalla megi um allt hvort sem er í gríni eða alvöru. Fréttablaðið/Valli

Leikhópurinn Óskabörn ógæfunnar og rithöfundurinn Eiríkur Örn Norðdahl eiga að baki farsælt samstarf en þau unnu á sínum tíma saman að leiksýningunni Illska, í leikstjórn Vignis Rafns Valþórssonar. Í kvöld er svo komið að frumsýningu á verkinu Hans Blær, einnig eftir Eirík Örn og í leikstjórn Vignis Rafns sem segir að það sé í raun gríðarlegur munur á því að leikstýra margreyndu eða nýju íslensku verki sem eru vissulega ekki frumsýnd á hverjum degi.

„Nei, og það liggur við að maður segi sem betur fer. Þetta er svo brjálæðislega mikil vinna,“ segir Vignir Rafn léttur og bætir við að alltaf komi það jafn mikið á óvart. „Munurinn á þessu er eins og að halda tónleika og spila eigin tónlist eða að halda tónleika og kovera Rolling Stones. Þú getur alveg sett inn alls konar gítarsóló í Satisfaction en það verður samt alltaf byggt á grunni sem annar er búinn að vinna. En þarna byrjar þú með hvítt blað.“

Þrjú æviskeið

Aðspurður um það hvort leikhópurinn vinni verkið með Eríki Erni segir Vignir Rafn að þau komi vissulega að því. „Hann skrifar vissulega allan texta og alla karaktera og hugmyndir en eins og hann tekur skýrt fram sjálfur þá kann hann alls ekki að skrifa leikrit. Það var það fyrsta sem hann sagði þegar ég nefndi þetta við hann. Það er frábær texti sem skáldið skrifar en hann á kannski ekki allur heima í munni á manneskju uppi á sviði. Vandinn er kannski helst sá að hann hefur ekki verið með okkur heldur er í sinni sjálfskipuðu útlegð á Ísafirði. Þess vegna höfum verið að taka okkur soldið mikið leyfi fyrir því að sviðsetja hans verk en það er svo sem alveg það sama og maður gerir við önnur verk.

Svona verk eiga þrjú æviskeið. Það fyrsta er þegar það er skrifað heima við skrifborðið, svo þegar það er í æfingarýminu og loks þegar það er sýnt. Þetta geta verið rosalega mismunandi verk.“

Alltaf fyrirsagnir

En hvaða verk skyldu þau svo hafa endað með í Hans Blæ? Vignir Rafn segir að það fjalli um manneskjuna sem allir eru alltaf að rífast um. „Þetta er svona fjölmiðlastjarna á Íslandi sem hefur tekið sig til og gengst upp í því að ganga fram af fólki í öllum sínum tilsvörum og pælingum. Við náttúrulega elskum svoleiðis manneskjur og ein slík er til að mynda forseti Bandaríkjanna, að minnsta kosti elska fjölmiðla- og fréttamenn svona týpur því það er alltaf hægt að fá frá þeim eitthvað rosalegt sem er hægt að slá upp í fyrirsagnir. Við elskum þetta líka vegna þess að þegar viðkomandi ræðst á þann þjóðfélagshóp sem við erum ósammála, þá erum við rosa glöð. Að því leyti er Hans Blær svona táknmynd þórðargleðinnar.

Hans Blær skilgreinir sig sem hvorugkyn til þess að slá vopnin úr höndum allra í kringum sig, segist vera bæði kona og karl og allt mögulegt. En þegar okkar saga byrjar fylgjumst við aðeins með æskunni og frá því hvernig hán verður til og til þess þegar Hans Blær fer raunverulega yfir strikið. Gerir ákveðna hluti sem hugsanlega verður til þess að við hættum að flissa með og förum að velta því fyrir okkur hvort við sem samfélag þurfum ekki að fara að stoppa þetta.“

Fálætið verst

Aðspurður segir Vignir Rafn að það séu vissulega þessi sömu við sem samfélag sem sköpum manneskjur eins og Hans Blæ. „Það eru milljón fávitar þarna úti en við veljum alltaf einn og einn til þess að vera í sviðsljósinu. Eitt af því sem við höfum verið að skoða í æfingaferlinu er af hverju við erum að leyfa svona karakter að öðlast líf á sviðinu því hán segir alls konar ljóta hluti um fólk uppi á sviði í Tjarnarbíói. Ástæðan er auðvitað sú að þetta er allt í kringum okkur. Svona fólk sem fær eitthvað út úr því að láta öðrum líða illa eða í hið minnsta láta það verða vandræðalegt þannig að það viti ekki hvað það eigi að segja. Þannig er það þórðargleðin sem knýr tröllið áfram.

Hans Blær byrjar sem ósköp venjulegur unglingur á internetinu en finnur kraftinn og frelsið sem þar leynist í því að geta sagt hvað sem er og jafnvel verið hver sem er. Þar býr hán sig til sem internettröll og það er það sem drífur hán áfram.“

Vignir Rafn hefur á orði að Hans Blær geri hluti sem við eigum öll að geta verið sammála um að fara yfir áðurnefnt strik, þó svo við drögum mörkin í hegðun og samskiptum ekki öll á sama stað í sandinn. „En svo er þetta líka það að við erum orðin leið á hán. Að fjölmiðlar og þar með almenningur missi áhuga á viðkomandi er svo auðvitað versta martröð tröllsins. Ef viðkomandi fær ekki lengur viðbrögðin sem beðið er eftir þegar það er búið að bomba einhverju á internetið, hvort sem það er þumall upp eða niður, þá eru engin viðbrögð það versta. Þumall niður getur meira að segja verið meiri fróun en þumall upp því þá hefurðu reitt einhvern til reiði og það gefur svona tröllum meira. Það er nefnilega svo auðvelt að vera hálfviti.“

Ekkert heilagt

Frumsýningin á Hans Blæ fer fram í Tjarnarbíói kvöld eftir að hafa verið frestað í síðustu viku. Aðspurður segir Vignir Rafn að óneitanlega sé þetta ferli búið að vera erfitt. „Já, þetta er það erfiðasta sem við höfum gert. Það helgast líka af því hversu umfjöllunarefnið er erfitt. Hans Blær fjallar um kynsegin manneskju, kynferðislegt ofbeldi sem er líka í þessari sögu og alls konar erfiða hluti, þannig að við erum að reyna að vanda okkur. Við munum þó pottþétt stíga á einhverjar tær en það er alls ekki það sem við erum að reyna að gera með þessari sýningu. Þá væri hún allt öðruvísi. Ef markmiðið hefði bara verið að sjokkera hefði það verið mun léttara, meira að segja þó svo að við séum að gera það í leikhúsi sem virðist aldrei getað ruggað neinum bátum.

En það var einfaldlega ekki það sem okkur langaði til þess að gera. Ástæðan fyrir því að við frestuðum, og við gerðum það eiginlega tvisvar, var sú að okkur langaði ekki til þess að sýna eitthvað sem var ekki tilbúið. En núna (á þriðjudegi) er frumsýning annað kvöld og ég veit ekki einu sinni hversu tilbúin við verðum þá, það fer soldið eftir því hvernig lokaæfingin gengur. En snilldin við leikhúsið er að þetta er eini miðillinn sem er ekki hægt að download-a og við getum breytt fyrir næstu sýningu og munum eflaust gera það. Þetta er sýning sem er áfram í þróun og ef hún vekur óþægileg viðbrögð þá má alveg skoða það. Það er ekkert heilagt. Ekki frekar en umfjöllunarefnið, leiksýningin eða hvað sem er. Það má fjalla um allt hvort sem það er í gríni eða alvöru.“

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Menning

Hall­grímur kláraði 60 kíló á átta vikum

Menning

Það flaug engill yfir safnið

Menning

​Þór­dís nýtt Leik­skáld Borgar­leik­hússins

Auglýsing

Nýjast

Frískandi eftirréttir í brúðkaupið

Tölurnar á bak við brúð­kaup aldarinnar

Bitist um fyrsta hamborgarann

Ungir Píratar með pizzukrók á móti bragði

Fólk velur að eiga gott hjónaband

Glasafrjóvgun í Prag skilaði tvíburum

Auglýsing