Íslendingar geta nú loksins brugðið sér í hlutverk áhrifavalda og meira að segja stungið vini sína í bakið, þökk sé Ingvari Haraldssyni og félögum að baki áhrifavaldaspilinu Frægð og frami.

„Við erum allir miklir kvikmyndalúðar og upprunalega hugmyndin var að gera kvikmyndaspil,“ segir Ingvar Haraldsson sem hannaði spilið ásamt vinum sínum, þeim Jóni Birni Árnasyni og Daníel Brynjólfssyni.

„En svo nenntum við ekki að koma með enn eitt spurningaspilið og þetta endaði einhvern veginn svona í áhrifavöldunum enda vildum við gera eitthvað nýtt og ferskt,“ segir Ingvar.

Hættuspilið innblástur

Hann segir þá félaga meðal annars hafa fengið innblástur frá Hættuspilinu. Í Frægð og frama gefst spilurum kostur á að bregða sér í hlutverk eins af sex áhrifavöldum sem í boði eru. Því næst gefst spilurum kostur á samstarfi eða bakstungu þar sem einungis einn getur sigrað.

„Áhrifavaldarnir eru alls staðar þessa dagana og okkur fannst kjörið tækifæri að tækla þetta í spilinu, enda er þetta mjög áhugaverður heimur og við höfum klárlega húmor fyrir því og gerum grín að því hve kjánalegur hann getur verið í spilinu,“ segir Ingvar.

Ingvar hannaði spilið ásamt vinum sínum.

Í spilinu er þó hvergi að finna áhrifavalda úr raunheimum eins og Birgittu Líf eða Binna Glee. „Upprunalega datt okkur í hug að heyra í alvöru fólki en ákváðum svo á endanum að hafa frekar misskrautlegar persónur,“ segir Ingvar. Þar má meðal annars nefna Lísu Dís og Helga Hansen og minna persónurnar um margt á persónur úr Hættuspilinu.

Mikil áhersla á bakstungur

Ingvar segir að öll áherslan í spilinu sé á bakstungur. Kunni fólk vel að meta hressileg rifrildi við vini og vandamenn sé þetta rétta spilið.

„Þetta er ógeðslega skemmtilegt og einfalt spil. Þú getur annaðhvort aðstoðað aðra leikmenn á meðan það hentar þér, eða stungið þá í bakið ef það hentar þér betur. Þú gætir sömuleiðis gert hvoru tveggja og svo stungið viðkomandi í bakið á þeim tíma sem hentar þér og stolið verðlaununum,“ segir Ingvar.

„Eins og við grínumst með: Það er ekkert heilagt í heimi áhrifavalda.“

Spilarar geta unnið saman í #samstarfi eða stungið hverjir aðra í bakið.
Þeir félagar sóttu innblástur í eitt frægasta spil íslensks samtíma, sjálft Hættuspilið.