Finnur Pálmi Magnússon hefur lengi haft mikinn áhuga á matargerð og grilluðum mat. Hann eignaðist draumagrillið í síðasta mánuði og sumarið mun innihalda ýmsar spennandi nýjungar.

Matar- og grilláhugi Finns Pálma Magnússonar byrjaði á unga aldri en faðir hans hóf snemma að fikta við framandi matargerð heima fyrir þar sem ný og spennandi krydd spiluðu stóran þátt og matreiðslubækur með flóknum uppskriftum. Seinna meir flutti hann til London þar sem hann bjó í þrjú ár nálægt Borough market og þar skaust mataráhuginn að hans sögn upp í gegnum þakið. „Þar var ég kominn í góð samskipti við slátrara og hafði aðgang að gnægtarborði breska landbúnaðarins í hverri viku. Við Hjörtur vinur minn fórum oftar en ekki á markaðsdegi og keyptum vel hangið kjöt og alls kyns gúmmelaði með því. Svo var setið á svölunum með svalandi drykk og grillað.“

Á þessum árum ferðaðist hann líka tvisvar með Hirti vini sínum til Simbabve þar sem var mikið setið kringum eld og galdraðar fram miklar kræsingar, til dæmis kjöt, fiskur, pylsur og pottréttir.

Úrvalið aukist undanfarin ár

Árið 2008 flutti hann innblásinn heim að eigin sögn og eignaðist sitt fyrsta gasgrill sem var þó hálfgert drasl. „Ég tengdi ekki mikið við það auk þess sem ég átti í miklu þunglyndissambandi við kjöt- og grænmetisúrvalið á Klakanum. Það hefur þó batnað nokkuð á síðustu árum með endurvakningu sérverslana með kjöt, holdanautsræktun og svo flytur Austurlands Food Coop inn ferskt grænmeti sem ekki er flokkað sem svínafóður.“

Það var svo fyrir um tíu árum þegar botninn úr ryðgaða gasgrillinu hrundi og hann festi kaup á forlátu Weber-kolagrilli sem ástríðan fíraðist upp. „Ég áttaði mig á því að þessi blessuðu gasgrill sem landinn elskar svo mikið eru ekkert meira en ofvaxin grillpanna. Ég gat náð nákvæmlega sama árangri með ofni og rifflaðri pottjárnspönnu í eldhúsinu. Að elda er, eins og nafnið gefur til kynna, eitthvað sem þú gerir yfir eldi. Allt annað er bara einhver útgáfa af því að búa til mat. Það getur hver sem er hitað upp steypujárn með gasi. En að kynda upp í einhvers konar kolum, raða þeim upp eftir kúnstarinnar reglum, stilla til hitann og fá svo bragðið sem myndast þegar fitan brennur í kolunum án þess að kveikja í öllu draslinu. Það er einhver galdur sem ég tengi mjög sterkt við á „primal“ hátt.“

Grænmeti á grillið er eitthvað sem allir ættu að prófa. MYNDIR/AÐSENDAR

Draumagrillið í hús

Finnur grillar allt árið og segist vera jafn lengi að hita upp kolin í uppkveikistauknum sínum og það tekur að hita upp gasgrill. „Mér finnst skemmtilegast að bjóða fólki í mat sem hefur ekki smakkað kolagrillaða máltíð í mörg ár og sjá upplitið á þeim þegar bragðlaukarnir sperra upp augun.“

Í síðasta mánuði var honum bent á að draumagrillið hans væri á 30% afslætti. „Vinnufélagi minn hafði keypt síðasta Weber Summit Kamado kolagrillið með borði og ég nældi mér í litla bróður þess sem er frístandandi. Mig hefur dreymt um þetta grill í nokkur ár en hafði bara ekki getað réttlætt verðið á því fyrir mér. Þegar þetta síðasta grillið á landinu fór á útsölu gat ég sannfært sjálfan mig um að ég væri í raun að spara helling með því að kaupa það núna og þetta yrði líklega síðasta grillið sem ég þyrfti. Þetta grill er mjög mikið notað til að reykja mat á lágum hita í langan tíma. Sannkallaður kóngur kolagrillanna. Ætli ég hafi ekki grillað flesta daga síðan ég fékk það, þar á meðal fimm tíma rif og í vikunni prófaði ég níu klukkutíma reyktan nautabóg.“

Meira fiskmeti á grillið

Það er ýmislegt hráefni sem endar á grillinu og nefnir hann til dæmis hægeldað reverse-sear ribeye í heilu og úrbeinað lambalæri. „Við höfum aðeins reynt að draga úr kjötáti og því lendir fiskur og grænmeti oftar á teinunum, til dæmis grillaður silungur, lax, humar og hörpudiskur. Svo grillum við líka reglulega pítsur. Um leið erum við að mestu hætt í rjómasósum og majónesinu en notum þeim mun meira af olíum og chimichurri. Eins höfum við verið að prófa okkur áfram með kóreskar marineringar, innblásið af vinkonu kærustu minnar sem kemur þaðan.“

Góð nautasteik er vinsæll réttur.

Margar nýjungar í sumar

Með nýja grillið sér við hlið mun sumarið einkennast af ýmsum nýjungum. „Planið er til dæmis að mastera alvöru BBQ þar sem brisket, pulled pork og jafnvel heimagert beikon gætu lent á teinunum. Þá er pælingin að vakna fyrir allar aldir og krafsa í kolunum fram á kvöld. Ég eignaðist líka cedar-planka til að reykja heil laxaflök yfir lengri tíma. Við munum svo halda áfram að gera tilraunir með kryddlegi, reyna að finna skrítna vöðva eins og kinnar og nautarif. Annað sem ég hef aðeins verið að kynna mér er asado-grillhefðin í Argentínu þar sem fólk grillar saman allan daginn. Mig dreymir um að smíða kross til að heilgrilla lamb yfir kolabeði í góðum félagsskap. Veit samt ekki hvort það næst á þessu ári. Það er svo margt sem maður á eftir að prófa.“

Bulgogi-kjötræmur

Ribeye eða flanksteik

Þessi réttur er mjög vinsæll á heimilinu en uppskriftin að kryddleginum er svolítið slump. Þetta er kóreskur réttur og uppistaðan er Gochujang-piparmaukið og ristuð sesamolía sem fæst meðal annarsí versluninni Dai Phat í Faxafeni í Reykjavík. Kjötið getur verið ribeye eða flanksteik sem er kæld og skorin í eins þunnar ræmur og þú treystir til að haldi sér á grillinu.

Marineringin er síðan í nokkuð jöfnum hlutföllum:

Gochujang

Ristuð sesamolía

Soja

Engifer

Hvítlaukur

Púðursykur

Svo kallar upprunalega uppskriftin á asíska peru sem ég hef aldrei séð, en ég nota annaðhvort fínskorið epli eða lítið þroskaða peru.

Sesamfræ

Best að hræra þessu saman og smakka þar til hitinn og sesambragðið nær góðu jafnvægi. Svo löðra ég þessu á kjötið en held slatta til hliðar fyrir máltíðina. Læt þetta standa í minnst klukkutíma og helst yfir nótt. Mér skilst að perurnar hjálpi til við að gera kjötið meyrara. Svo er þetta grillað yfir glóðheitum kolum í 2-3 mínútur á hvorri hlið. Ef kjötræmurnar eru þykkar má taka aðeins af kolum til hliðar í lokin og láta kjötið ná 40-50 gráðu kjarnhita. Kjötið er borðað sem fingramatur og vafið í til dæmis bok choy-kálblað með restinni af marineringunni.

Finnur Pálmi prófar margt á grillið.