Salsaævintýri Jóhannesar hófst þegar hann sá auglýsingu á ljósastaur um salsanámskeið, þegar hann bjó í Danmörku. Þetta var árið 2004, Jóhannes skellti sér á námskeiðið og smitaðist af salsabakteríunni.

„Þegar ég flutti heim árið 2005 var lítið um að vera í salsadansi á Íslandi. Það var svona aðeins að byrja einhver dansmenning, en vegna skorts á framboði þá leiddist ég óvart út í það að fara að kenna og hef eiginlega verið að kenna samfellt síðan þá,“ útskýrir Jóhannes sem oftast er kallaður Jói.

„Ef ég ferðast til útlanda þá er það fyrsta sem ég geri að gúgla hvar ég get farið að dansa. Þetta verður að lífsstíl. Eða kannski fíkn,“ bætir hann við hlæjandi.

Jói hefur ekki látið duga að læra salsa í Danmörku og á Íslandi. Hann hefur líka farið á námskeið í Svíþjóð og Kúbu, en þangað hefur hann farið sex sinnum með hópa frá Íslandi.

Salsadans er orðinn lífstíll hjá Jóa sem leitar að stöðum til að dansa á ef hann ferðast til útlanda.

Pílagrímsferðir

„Undanfarin ár hef ég boðið upp á skipulagðar ferðir til Kúbu fyrir þá nemendur sem hafa verið að dansa hjá mér salsa. Aðaláherslan er á dansinn en um leið að sjá og upplifa eins mikið af Kúbu og hægt er. Við ferðumst um eyjuna þvera og endilanga og dönsum alls staðar þar sem við stoppum,“ segir Jói.

Jói segir að Kúbuferðirnar séu eins konar pílagrímsferðir fyrir salsadansara. Tónlistin er þar á hverju strái og dansinn er Kúbverjum í blóð borinn. Hann segir fjölmarga dansskóla að finna á Kúbu og hafa ferðalangarnir möguleika á því að taka eins marga danstíma og þá lystir.

Jói hefur farið reglulega með hópa til Kúbu þar sem alls staðar er dansað.

„Nemendurnir eru misjafnlega staddir þannig að þetta gefur kost á því að hægt er að sníða dansinn að þörfum hvers og eins. Hóparnir eru misjafnlega stórir en eiga það sameiginlegt hvað það er skemmtilegt fólk sem fer í þessar ferðir. Það er sennilega bara skemmtilegt fólk sem dansar salsa,“ segir hann.

„Það eftirminnilegasta við ferðirnar er einkum fólkið sem maður kynnist. Kúbverjar eru einstakt fólk, glaðlynt og hlýtt, ekki með ósvipaðan húmor og Íslendingar. Eftir því sem ferðunum fjölgar þeim mun fleira fólki kynnist maður og segja má að maður hafi eignast aðra fjölskyldu á Kúbu. Ég get varla beðið eftir að COVID gangi niður svo að ég geti farið með næsta hóp af salsanemendum til Kúbu.“

Dansað af innlifun á Kúbu.

Snýst um að hafa gaman

Dansheimurinn var ekki alveg nýr fyrir Jóa þegar hann steig sín fyrstu salsaspor úti í Danmörku. Hann æfði samkvæmisdans sem barn og ballett í smástund. Hann hefur líka dansað argentínskan tangó og hefur verið að kenna hann.

„Ég er að kenna salsa og tangó í Listdansskóla Hafnarfjarðar. Salsa er eitthvað sem allir geta lært. Jafnvel þó þeir séu með tvo vinstri fætur. Þetta snýst aðallega um að hafa gaman,“ segir Jói.

Hann segir fólk ekki þurfa að hafa neinar áhyggjur af því að koma á námskeið þó það hafi aldrei dansað áður.

„Fólk þarf alls ekki að vera hrætt við að koma eitt á námskeið. Eitt það skemmtilegasta við salsað er félagsskapurinn, fólkið kemur alls staðar að með allskonar bakgrunn. Þetta er þess eðlis að fólk þarf ekki að hafa dansfélaga með sér. Kúltúrinn er þannig að maður skiptir um dansfélaga, allir dansa við alla. Þetta er þess vegna gríðarlega góð leið til að kynnast fólki,“ segir hann.

Það er mikið félagslíf í salsanu. Hér er hópur salsadansara í útilegu.

Góður félagsskapur

Jói stofnaði félagið Salsamafían þar sem fólk hittist og dansar saman og hefur gaman.

„Það er ekki skóli heldur félagsskapur fólks sem vill dansa. Ég er með útidans á mánudögum þar sem við hittumst og dönsum hjá Kjarvalsstöðum. Við dönsum kúbanskt salsa og öllum er frjálst að mæta. Við mætum þangað og dönsum úti þó það sé rok og rigning,“ segir hann.

„Salsamafían fer líka í útilegur saman þar sem við dönsum og förum í leiki og gerum ýmislegt skemmtilegt saman. Þangað mætir fólk sem hefur dansað hjá mér, komið á námskeið og tekið þátt í viðburðum. Um helgina fórum við í Húsafell og það hafa aldrei mætt eins margir. Við vorum um 80 manns og það var dansað langt fram undir morgun.“

Jói mælir algjörlega með að fólk komi og prófi að dansa salsa.

„Þetta gefur lífinu svo mikið gildi. Í grunninn er salsa einfaldur dans sem allir geta lært. En svo verður þetta svolítil fíkn og fólk bætir við sig námskeiðum og langar að komast lengra og læra meira. En það fer algjörlega eftir einstaklingnum og á hvaða forsendum fólk er að dansa. Dansinn á fyrst og fremst að vera skemmtun.“