Í lok mars, þegar búið var að framlengja samkomubannið til 4. maí, ákvað Anna að nú væri tími til kominn að taka þátt í einni af þeim fjölda áskorana sem flætt hafa yfir bakka samfélagsmiðla upp á síðkastið. Hún sá bekkjarsystur sína úr grunnskóla taka þátt í „kjólapríl“ og fannst tilvalið að taka þátt. Markmiðið er að klæðast kjól á hverjum degi í einn mánuð og varð apríl fyrir valinu hjá Önnu. „Það má því segja að vinkona mín hafi veitt mér innblástur. Það var heldur enginn búinn að skora á mig í neins konar áskorun svo ég valdi mér bara áskorun við hæfi,“ segir hún.

Anna segir að kjólapríl hafi hentað sérstaklega vel því hún eigi nóg af kjólum. „Það kemur ekki til greina að svindla! Ég er mikil kjólakona, á yfir þrjátíu kjóla og hef þurft að velja úr safninu á nærri hverjum degi. Ég hef heldur ekki enn klæðst neinum þeirra tvisvar og geri ekki ráð fyrir að þess þurfi út apríl. Það voru nokkrir kjólar sem ég hafði fyrirfram ákveðið að nota á ákveðnum dögum. Til dæmis vildi ég vera í gamla fermingarkjólnum á fermingarafmælinu, þá valdi ég gulan kjól fyrir sumardaginn fyrsta og fleira. Annars klæðist ég bara þeim kjól sem heillar mig þann daginn.“

Hér má sjá hluta af kjólasafninu hennar Önnu.

Hjálpar geðheilsunni

Anna segir að áskorunin hjálpi sér við að dreifa huganum og koma sér á ról í samkomubanni. „Maður er auðvitað mestmegnis heima og það er frábært að hafa eitthvað skemmtilegt fyrir stafni á hverjum degi. Eftir að hafa verið nokkra daga heima á náttfötunum í upphafi samkomubanns, eins og haugur, fannst mér þetta eitthvað sem ég þyrfti hreinlega að gera. Svo léttir þetta lundina alveg talsvert. Það að taka sig aðeins til, fara í fallegan kjól og setja á sig varalit gerir alveg ótrúlega mikið fyrir mann. Það er einfaldlega allt skemmtilegra í kjól.“

Saknar allra hinna fatanna

Anna segist alltaf hafa haft áhuga á tísku. „Ég hef verið hálfgerður fatafíkill síðan ég var unglingur og alltaf átt mikið af fötum. Mér finnst einnig gaman að fylgjast með smekklegum konum á samfélagsmiðlum og fá innblástur frá þeim.“ Aðspurð hvort hún ætli að framlengja kjólaprílið fram í maí segir hún það ekki á döfinni. „Ég er aðeins farin að sakna allra hinna fatanna sem ég hef ekki notað síðan í mars. En kjólar munu alveg pottþétt koma við sögu í maí, eins og alla aðra mánuði.“

Kjóllinn er keyptur í Extraloppunni en er upprunalega frá H&M.
Þennan kjól fékk Anna í VILA.
Anna klæddist þessum í fyrra þegar dóttir hennar fermdist, og ákvað að klæðast honum aftur á eins árs fermingarafmæli dóttur sinnar.
Anna fékk þennan úr Extraloppunni en hann er upprunalega frá Zara.
Þennan gula og girnilega Pieces kjól fékk Anna í Extraloppunni.
H&M kjóll, keyptur í Extraloppunni.
Þennan sumarlega og sæta kjól frá Monki keypti Anna í Trendport.
Þennan fékk Anna í Primark á Spáni.
Kjóll frá Vero Moda.