Viktor, sem er 19 ára gamall, segist hafa haft áhuga á ljósmyndun svo lengi sem hann man eftir sér og því hafi ekkert annað komið til greina en að leggja fagið fyrir sig.

„Mig rámar í að hafa verið að taka myndir á gömlu myndavélina hennar mömmu þegar ég var lítill. Ég hef alltaf verið að fá hana lánaða, svo lét ég bara verða af því að fara að gera þetta af einhverri alvöru,“ segir Viktor, um það hvernig áhuginn á ljósmyndun kviknaði. Hann keypti fyrstu myndavélina sína vorið 2018 og eftir útskrift úr grunnskóla vorið 2019 lá leiðin í Tækniskólann í Reykjavík.

„Ég útskrifaðist núna í maí frá Tækniskólanum eftir að hafa verið þrjú ár í náminu. Ég var mjög ánægður með námið. Þetta var frekar krefjandi nám en maður lærði alveg helling, ég fékk allt það út úr náminu sem ég vildi,“ segir hann.

„Maður fékk grunnþekkingu á öllum hliðum ljósmyndunar, allt frá því hvernig búnaðurinn virkar upp í sögu fagsins. Við lærðum líka grunninn í öllum tegundum ljósmyndunar. Námið var þess vegna mjög góður grunnur fyrir allt tengt ljósmyndun.“

Kikk að fólki líkaði myndirnar

Viktor segir að í fyrstu hafi hann viljað einbeita sér að fuglaljósmyndun en í dag stefnir hann á að sérhæfa sig í frétta- og heimildaljósmyndum. En það sem hann hefur mestan áhuga á eins og er, er að taka myndir af skipum. Skipaljósmyndirnar hans hafa vakið verðskuldaða athygli og hann hefur til dæmis fengið þær birtar á samfélagsmiðlum Faxaflóahafna. Enda, eins og myndunum var lýst þar, nær hann með ljósmyndunum að fanga augnablikið með einstakri næmni.

Hafnsögumaður fer úr skemmtiferðaskipi yfir í dráttarbát eftir að hafa fylgt skipinu úr höfn. MYNDIR/VIKTOR MÁR SIGURÐSSON
Skipið Borealis kemur fyrst skemmtiferðaskipa til Reykjavíkur í sumar.

„Frétta- og heimildaljósmyndun heillar mig mest. En svo er skipaljósmyndunin hobbí hjá mér en ég hef verið að taka myndir af skipum í langan tíma,“ upplýsir Viktor, en hann segir að það hafi verið smá kikk þegar hann sá að fólki líkaði við skipamyndirnar hans á miðlum Faxaflóahafna.

Viktor hefur tekið myndir af allt frá litlum upplásnum björgunarbátum upp í 280 metra flugmóðurskip. Allt frá minnstu farþegabátunum og upp skemmtiferðaskip sem taka 3.400 farþega og 1.300 áhafnarmeðlimi, eins og hann lýsir á vefsíðunni sinni vms.photos, þar sem hægt er að skoða myndirnar hans, þá hefur hann í raun tekið myndir af öllu sem flýtur.

Aðspurður að því hvað það er sem heillar hann við skip segist hann ekki alveg geta bent á það.

„Ég hef haft gaman af að taka myndir af skipum í langan tíma. Pabbi vann við löndun og ég fór stundum með honum í vinnuna og ég fór líka oft með afa niður á höfn. Þá jókst áhuginn á skipum og þegar ég hef verið að taka myndir þá leita ég alltaf í skipin. Það er ákveðin fegurð í þeim, það er eitthvað sem heillar mig við þau, en ég næ ekki alveg að setja niður hvað það er,“ segir hann.

Viktor hefur tekið myndir af farþegaskipum, björgunarbátum, fraktskipum og í raun bara af öllu sem flýtur.
Skemmtiferðaskipið Sky Princess kemur í fyrsta skipti til Reykjavíkur. Um borð eru 3.500 farþegar.

Haförninn markaði þáttaskil

Áhuginn á fuglaljósmyndun kviknaði aftur á móti fyrir alvöru í janúar í fyrra þegar Viktor náði mynd af haferni í Staðarsveit á Snæfellsnesi.

„Ég hafði alltaf mikinn áhuga á fuglaljósmyndun en hann fór upp á næsta level við að ná þessum fugli. Þá fór ég meira að leita að ákveðnum tegundum til að ná á mynd, en áður var ég bara að taka myndir af einhverjum fuglum,“ segir Viktor, en lokaverkefnið hans í ljósmyndanáminu var einmitt fuglaljósmyndun.

„Þá var ég með ákveðnar fuglategundir í huga sem ég vildi taka myndir af en ég fann þær ekki allar. En ég leitaði uppi skemmtilegri fuglategundir, þessar sem maður sér ekki oft, en það voru samt alveg algengir fuglar inn á milli.“

Viktor hefur líka mikinn áhuga á fuglaljósmyndum og hér hefur hann fest á filmu þessa fallegu dúfu.
Augnablikið fangað. Hugsandi þröstur situr einn á grein.

Viktor segist ekki viss um hvað draumastarfið er nákvæmlega, en það eina sem hann er viss um er að hann vill starfa við ljósmyndun.

„Ég er meira fyrir að fanga augnablikið, þess vegna hef ég áhuga á frétta- og heimildaljósmyndum, ég er ekki mikið fyrir ljósmyndastofuljósmyndun,“ segir hann.

„Í sumar er ég að vinna við lóðaumsjón hjá Landspítalanum en þegar ég er ekki að vinna held ég áfram að taka myndir. Ég hef verið að taka mikið af myndum af skemmtiferðaskipum í sumar. Mig langar að halda áfram að sérhæfa mig í skipaljósmyndun samhliða frétta- og heimildaljósmyndun. En fyrst ætla ég að finna samning í ljósmyndun til að klára sveinsprófið. Ég er enn að leita og skoða möguleikana. En hvað mig langar nákvæmlega að gera í framtíðinni, ég hreinlega veit það ekki. Ég veit bara að það tengist ljósmyndun.“ ■