Viðurnefnið Bára Beauty kemur frá fyrrverandi kærasta mínum. Hann byrjaði að kalla mig bjútí þegar við vorum par og það festist við mig, en seinna ákvað ég að nota nafnið innan förðunarheimsins,“ segir förðunarfræðingurinn Bára Jónsdóttir, sem margir þekkja af samfélagsmiðlum sem Báru Beauty.

„Ég er fædd og uppalin á Ísafirði en flutti í bæinn eftir að hafa lokið námi við Menntaskólann á Ísafirði, píanónámi við tónlistarskólann og farið sem skiptinemi til Dóminíska lýðveldisins. Á Ísafirði var ein tískuverslun, Monró, og ég vann auðvitað í henni. Annars var ég alltaf að panta mér föt af netinu og átti vikulega erindi í pósthúsið. Um leið og ég kom suður sótti ég svo um vinnu í tískuversluninni Júník og fékk þar enn meiri tískubakteríu sem þó var drjúg fyrir,“ segir Bára og brosir.

Með tvískiptan stíl

Tískuáhugi Báru er meðfæddur.

„Ég var ekki nema þriggja ára þegar ég fór að stelast í snyrtibudduna hennar mömmu og helst vildi ég alltaf klæðast blúndukjólum. Stíllinn minn ber þess enn merki. Ég er mikið fyrir glamúr og blúndur, allt sem glitrar, glansar og er bleikt. Annars má segja að stíllinn sé tvískiptur. Það eru ýmist himinháir hælar og glitrandi föt, eða fitnessgallinn,“ segir Bára sem er módel fyrir líkamsræktarfatnaðinn BeFit Iceland.

Bára er andlit BeFit Iceland íþróttamerkisins og segist klæðast slíkum fatnaði til skiptis við glansandi glamúrinn. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR

„Ég byrjaði að æfa súlufitness fyrir fimm árum og kenni nú byrjendum. Ég æfi líka bikínífitness, stefni á nám í einkaþjálfun í haust og að vinna við það í framhaldinu,“ upplýsir Bára.

Bikínífitness kostar mikinn viljastyrk

„Með góðan þjálfara er lítið mál að hafa sjálfsaga. Mestu skiptir að vera ekki í endalausu aðhaldi, því slíkt heldur maður ekki út til lengdar. Því er lausnin að skipta út óhollustu fyrir hollari kost. Ég er mikið fyrir það að maula eitthvað gott yfir sjónvarpinu á kvöldin, en í staðinn fyrir ís og sætindi bý ég til minn eigin bragðaref úr frosnu mangói, hollri jógúrt og bæti við ískexi eða prótínsúkkulaði, sem inniheldur innan við 1 g af sykri en bragðast alveg jafn vel,“ segir Bára, sem þessa dagana undirbýr eigin matarrás á samfélagsmiðlum.

„Það er mikil vinna að halda úti virkum samfélagsmiðli, maður er endalaust að búa til efni, en þetta er líka rosalega gaman. Ég hef alltaf unnið meðfram þessu líka, vann í töskubúð frænku minnar í Smáralind fram í mars þegar búðinni var lokað og áður var ég flugfreyja hjá WOW air. Það var sannarlega gaman, en erfitt með fitnessinu og ég þurfti í æðahnútaaðgerð á fæti vegna álags og þrýstings í háloftunum.“

Glæsileg í kjól frá Júník og steinuðum háhæla skóm, með eftirlætisveskið sitt frá Louis Vuitton. Það er í uppáhaldslit Báru, bleikt með kisumunstri. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR

Líkur sækir líkan heim

Í heimi áhrifavalda segist Bára ekki hafa upplifað innbyrðis samkeppni á meðal samfélagsstjarna.

„Þvert á móti þykir mér allir vinalegir og fullir stuðnings. Innan förðunargeirans vinna stelpur saman við að gera skemmtilega hluti og mörgum af mínum bestu vinkonum hef ég kynnst á samfélagsmiðlum. Líkur sækir líkan heim og ekkert óeðlilegt að fólk tengist sem hefur sömu markmið og áhugamál,“ segir Bára, sem meðal annars kynntist Töru Brekkan Pétursdóttur, Töru Trix, en þær stofnuðu förðunarskólann Beautytrix fyrr á árinu, sem vegna COVID þurfti að fresta fyrsta skólaárinu fram á haust.

„Förðun er persónubundin og enginn þarf að farða sig frekar en hann vill. Í förðun gilda hins vegar engin mörk og hægt að leyfa sínum innri listamanni að koma fram. Það elska ég við förðun,“ segir Bára, sem á námskeiðum Beautytrix ætlar að kenna hinum almenna borgara að farða sig.

„Við viljum kenna fólki að ýta undir kosti sem það vill ýta undir í sínu fasi og draga úr því sem það kallar ókosti. Til eru ótal trix sem gott er að kunna, eins og þegar augu eru aðeins farin að síga er hægt að farða sig þannig að það lyfti augunum.“

Misskilin sveitastelpa

Bára hefur frá fyrstu tíð verið samkvæm sjálfri sér þegar kemur að útliti.

„Þegar ég var yngri reyndi ég auðvitað að klæða mig samkvæmt tísku, eða því sem hinir krakkarnir klæddust, en ég hef alltaf verið ófeimin við að fara eigin leiðir og vera sú sem ég er. Ég fer því hiklaust út með bláan varalit ef mig langar og þegar ég vil vera yfirdrifin og mæta í ræktina með demantateygju í hárinu, læt ég ekkert stoppa mig.“

Hún kaupir sér sjaldnar föt í dag, en þá helst í Júník og vefversluninni Fashion Nova.

„Mitt besta tískuráð er eftirfarandi: Þú „púllar“ allt ef þú fílar það. Stundum segir fólk við mig: „Mér er sagt að þessi litur fari mér ekki vel,“ eða „rauðhærðir eiga alls ekki að klæðast vissum litum“, en ef maður fílar flíkina sjálfur og farðar sig í takt við klæðnaðinn, kemst maður upp með að klæðast hverju sem er.“

Í fataskáp Báru eru veski í mestum metum.

„Konur eru oftast nær skó- eða veskjatýpur og ég elska veski. Uppáhaldið mitt er Louis Vuitton-veski sem ég fékk í jólagjöf, bleikt með kisum á,“ upplýsir Bára kát.

„Ég elska líka demanta. Hanna Rún Óladóttir steinaði veski fyrir mig og útkoman var glitrandi og geggjuð. Ég væri til í að fá Hönnu til að steina allt á milli himins og jarðar heima hjá mér. Ég á samt enga alvöru demanta enn, en vonandi kemur sá dagur,“ segir Bára og hlær.

„Ég held ég sé mjög misskilin. Án þess að þekkja mig heldur fólk að ég sé sjálfhverf og leiðinleg tík, og ég fæ að heyra að fólk þori ekki að koma til mín og tala við mig að fyrra bragði. Þetta snýst um ákveðna ímynd, eins og í bíómyndinni Mean Girls, þar sem best klæddu stelpurnar voru tíkur, en ég er ekki tík, þótt ég klæðist glamúrfatnaði og merkjavöru. Ég er bara rosalega næs, eins og fólk kemst að raun um þegar það kynnist mér. Og sem sveitastelpa frá Ísafirði er ég með báða fætur á jörðinni.

Glamúr er einfaldlega minn stíll og ég elska allt sem glitrar.“

Fylgstu með Báru á samfélagsmiðlum undir Bára Beauty. Hér er Bára á Instagram. Hér er hún á YouTube.