Einn elsti köttur landsins, Siglufjarðarkisan Dúlla, er einungis fjórum árum yngri en elsti köttur í heimi. Sá er breskur, heitir Flossie og greindi BBC frá því að hún hefði nú hlotið titil Guinness World Records sem elsti köttur í heimi.

Hana 22 ára gömlu Dúllu á Siglufirði vantar því einungis fjögur ár í að verða elsti köttur í heimi. Rósa Ólafsdóttir, eigandi Dúllu, segir hana enn í fullu fjöri þó aldurinn sé farinn að segja til sín.

„Hún er svolítið farin að missa sjónina og sefur meira en vanalega. Hún er orðin svolítið kölkuð og það kemur fyrir á kvöldin að hún fer að breima, eða svona eins og þegar læður kalla á kettlingana sína,“ segir Rósa.

Dúlla er nú meiri dúllan.
Mynd/aðsend

Blaðið ræddi við Rósu fyrr á árinu og þá kvaðst hún ekki viss hvort Dúlla væri elsti köttur landsins, en ljóst er að hún gerir allavega atlögu að titlinum.

Dúlla er sannkallaður aldamótaköttur og kom í heiminn þann 6. maí árið 2000 og hefur Rósa átt hana alla sína tíð.

„Hún sefur svona 22 klukkutíma á sólarhring, hún er komin með gláku en fer út alltaf á morgnana í svona hálftíma og svo inn aftur og heldur áfram að sofa,“ segir Rósa aðspurð hvernig Dúlla beri aldurinn. Kötturinn hefur verið mannblendinn alla sína tíð.

„Hún hefur gert mikið af því að fara hérna fyrir utan sundlaugina á Siglufirði, sitja þar og láta vorkenna sér. Svo er fólk að fara með hana heim og koma með hana í bílnum, þó að við búum rétt hjá,“ segir Rósa hlæjandi.

„Hún er með þannig andlit að það er ekkert hægt að standast það neitt. Maður hefði kannski átt að reyna að græða eitthvað á því!“